Ónefnd örsaga
“Þú eyðilagðir líf mitt ógeðið þitt!”
Hún sneri sér aftur að eldhúsglugganum og teygði sig skjálfhent í sígarettupakkann á gluggakistunni.
Augun á henni voru eins rauð og glóðin í sígarettunni þegar hún sneri sér aftur að mér. Hún kipptist við og sagði eitthvað sem ég skildi ekki, en tónninn í röddinni var slíkur að ég var gráti næst.
“Þú ert hávær, tillitslaus, andstyggilegur, og umfram allt ógeðslegur! Ég veit ekki til hvers í andskotanum ég leyfi þér að vera hérna, það er ekki eins og þú hjálpir til með að koma mat á þetta helvítis matarborð”
Hún saug sígarettuna svo fast að ég hélt að glóðin ætlaði inní hana.
Hún var farin að öskra svo hátt að ég gerði ekki orðaskil, ég lokaði augunum og datt niður á hnén. Ég gat ekki staðið undir þessu lengur.. Tárin byrjuðu að renna niður kinnarna, mig langaði að segja fyrirgefðu, en ég vissi ekki hvernig ég ætti að segja það.
“Ertu farinn að skæla þarna auminginn þinn!” Öskraði hún.
Þar sem ég lá þarna grátandi á gólfinu, fann ég fyrir innri ró, léttir sem var alltaf dýpri og dýpri.
Ég hætti að kjökra í smástund til að átta mig á því hvað þetta var.
Ég hafði kúkað á mig.
Eftir andartaksumhugsun, ákvað ég að standa upp. Ég þurrkaði horið og slefið úr andlitinu á mér með peysuerminni minni, kyngdi ekkanum og ákvað að taka á vandanum.
Ég bretti uppá peysuna mína, benti á bleyjuna og sagði “gú-ga!”