Þamm, þamm…. Þammm.
Viftan snýst en sífellt hægar. Fluga þyrlast í gegnum mollulega skólastofuna.
Birgir stærðfræðikennari stendur upp við töflu í gullnum sápuóperuljóma og þylur upp fræðin taktfast. Sífellt hægar.

„Skilgreining punktur. Stysta leiðin á milli tveggja punkta er lína punktur. Sönnun, tvípunktur: Sést af fyrstu frumsendu…“

Flugan virtist lítið mark taka á þessari svokölluðu frumsendu. Hún lagði sig í líma við að komast sem lengstu leið frá A til B. Það er sannkölluð list og ófáum gefið öðrum en flugum. Það virtist ráðast af algeru handahófi hvert hún stefndi næst. Ég hvísla að Danna og spyr hann hvort geti verið að atferli flugna stjórnist af óreiðukenningunni. Hann hefur nefnilega verið dálítið að stúdera hana.

„Þær komast allvegna þangað sem þær ætla sér,“ segir hann.

Þungt loftið kaffærir frekari samræður, suðið yfirgnæfir allt.
Einhver áræðir að byðja Kjartan, sem situr yst, að opna gluggan, sem og hann gerir. Það stoðar samt lítt, enda hinn glugginn lokaður og nýtt loft lætur því ekki á sér kræla. Kuldinn lætur það þó síst stoppa sig og hríslast inn. Ég hneppi að mér úlpunni, enda miður nóvember.

Innum opin gluggan brunar bíll og skellur á veggnum svo bergmálar í stofunni. Þá annar og loks þriðji. Fleiri og fleiri. Umferðaniðurinn neðan af Lækjargötu talar til okkar dimmum rómi.
Birgir veitir því enga eftirtekt.

Eftir smástund heyrast gríðarlega drunur úr norðurátt en hann lætur það ekki heldur slá sig út af laginu. Í kjölfarið koma sjúkrabílarnir. Óhljóðin mætti heyra úr mílufjarlægð. Áhugi manna á rúðustrikuðum bókum víkur smásaman fyrir því sem var að gerast fyrir utan. En þó var engin lögreglubifreið né sjúkrabíll í sjónmáli. Sírenurnar ágerðust þó æ og loks var svo komið að það var engu líkara en allur þessi fjöldi bíla væri fremur fram á gangi en handa brekkunnar í götunni.
En ég sé engan bíl.

Eitt andartak finnst mér sem þetta sé allt bara einhver leikaraskapur og hrárslagalegt umhverfið fyir utan væri frekar einhver falleg tjöld eftir Sigurð málara en það sem við kjósum að kalla raunveruleikinn. Ég fann jafnframt ákaflega sterkt fyrir nærveru einhvers guðsvolaðs auðnuleysingja sem hnipraði sig saman rétt fyrir neðan gluggankarminn að utanverðu haldandi á allskyns ýlum og blásturshljóðfærum. Upptök hljóðsins.

Skyndilega kemur æðandi síðasti sjúkrabíllinn inn á sögusviðið. Hann er vel sýnilegur. Hann ristir tjaldið þvert og hverfur svo á vit hinna. Við tók þögnin. Glugginn var lokaður.
Flugan settist.
Birgir var þagnaður.
?.
Því þegir hann?
Letilega sný ég mér fram á við og sé að hann stendur þar makindalegur við hlið kennaraborðsins og einblínir. Á mig!
Þögnin er ærandi.
Allir horfa á mig.
Ég veit ekki til hvaða bragðs ég á að taka. Áræði síðan að stynja ámátlega: „Afsakið…?“

„Trúðu mér, ég met mikils athygli þína Halldór. Ertu búin með dæmi sjö?“ spyr hann mig.
Mér sortnar fyrir augun. NEI. Trúðu mér, Birgir, ég ætlaði að vera búin með dæmi sjö. Það var einlægur ásetningur minn að vera búinn með dæmi sjö. Það hefur lengi legið fyrir að það var mitt að klára dæmi sjö og hví skyldi ég heikjast á því?
NEI. Ég er ekki búin með dæmi sjö. En ég veit að hann myndi skella skollaeyrum við iðrun minni svo ég get fátt annað gert en að skófla þessari ræðu minni í ruslið og baða mig upp úr niðurlægingu minni.

Enn einblínir hann á mig. Enn segi ég ekki neitt.
Kökkurinn í hálsinum á mér meinar mér máls. Hann var svo raunverulegur að ef ég kyngdi ekki honum sem snöggvast myndi ég bresta í óstöðvandi hóstakast áður en ég fengi rönd við reist og fá svo taugaáfall. Í miðri kennslustund.

Ekkert getur komið mér til bjargar. Ekkert.

En þá gerist kraftaverk. Gamla Iðnaðarbanka húsið við Vonarstræti hrynur. Til grunna. Æðri máttarvöld hafa tekið til sinna ráða. Öllum bregður og stara út. Öllum nema Birgir. Hann starir enn á mig. Ég er enn í sömu stöðu.
Þá lítur út fyrir að Lækjargata klofni. Allt leikur á reiðarskjálfi. Það er engu líkara en að stór skjálfti sé að rífa Reykjavík í sig. En ef ég hélt að mér væri við það bjargað skjátlaðist mér hrapalega. Birgir beið enn svars og augnaráð hans gerðist einfaldlega ágengara.
Áður en ég næ þó að stynja nokkru upp úr mér grípur það athygli mína að húsin við bókhlöðustíg standa í ljósum logum. Það var líka kviknað í hríslunum á túninu á móti. Það blikar á sólfleygið. Agndofa stari ég á þetta sjónarspil. En þá ræskir Birgir sig.

„Vinsamlegast svaraðu mér, Halldór.“

Ég rétt næ að umla eitthvað áður en ég verð var við að það er alveg eins og húsin í gamla miðbænum væru að sogast upp í himinhvolfið. Eitt og annað fauk það upp. Sum húsin voru þegar hrunin en rústirnar þyrluðust bara upp eins og hvirfilvindur.
Drunurnar voru ægilegar og allt í stofunni var á fleygiferð svo ég neyddist til að halda fast í ofninn fyrir aftan mig.

En Birgir stóð sem fastast. Ég hef aldrei séð hann reiðari. Ef ég segði ekki sannleikann bráðlega yrði heimsendir sem leikur einn.

En þá hvarf sólarljósið fyrir utan. Þetta nýmæli fékk óskipta athygli mína. Ég skimaði eftir sólinn en þá var svo komið fyrir henni að hún virtist vera að teygjast sífellt meira á himinhvelfingunni þar til hún var aðeins eins og örmjó lína og hvarf bara. Flúorljósin í loftinu flöktu, mér sagðist svo hugur að rafmagnsveitan væri orðin tæp. Loks slokknuðu þau endalega. Eldglampinn fyrir utan varpaði roða á kinn.
Ég sá að húsin næst okkur, þau sem stóðu við Lækjargötu voru farin að fjúka upp eitt og eitt. Undrandi gerði ég mér grein fyrir því að eftir að þau rifnuðu með rótum hrundi samhliða jörðin undir þeim og hrapaði í óendalegt ginnungagap. Í fyrsta sinn á ævi minn horfiég niður á jörðuna en sé bara stjörnubjartann himininn. Þarna er Karlsvagninn!

„Ok, Halldór, viltu gjöra svo vel að segja okkur núna strax hvort þú sért búið með dæmið eða ekki! Við verðum að halda áfram, við höfum ekki allan dag!“

Birgir er staðfastur maður og það er virðingavert.
Sneyptur segi ég honum loks að ég hafi ekki enn lokið dæminu. Það orsakist aðallega af leti, metnaðarleysi og óhagstæðum veðurskilyrðum.
Birgir kinkar kolli og lætur sér lynda við hreinskilni mína. Hann tekur upp kladdann, gefur mér núll og færir sér einu nafni neðar.

„Jæja, María, ert þú búin með dæmi…“
Hann náði þó ekki að klára þessa spurningu (enda lá svarið ljós fyrir) því í þann mund rifna útveggir skólastofunar í burtu og við sitjum á brún óminnisdýpi eilífðarinnar. Í kjölfarið leysist allt upp í kringum okkur og ég sé fyrrum skólafélaga mína þjóta í burtu, verða að punktum og loks engu.
Þrýstingsmunurinn teygir mig og togar, allt súrefni er fokið í veður og vind svo ég gleypi einfaldlega í tómt.

Vitundin fjarar út.

Ég vildi óska þess að ég hefði verið búinn með sjöunda dæmi.


*Óprófarkalesið