Howdy! Ég þurfti að skrifa smásögu fyrir einhvern ritunartíma í skólanum, og endaði með þessa sögu… Ég ákvað svo að senda hana inná huga, bara svona til að sjá hvernig fólki líst á hana.
Stöng
Síðustu geislar vetrarsólarinnar voru horfnir bakvið fjöllin og vetrarhúmið læsti lúkum sínum yfir mjallhvíta fjallshlíðina. Inni í gömlum torfbænum sátu fjórar þreyttar manneskjur og hvíldu sín lúnu bein. Ylmur af hangikjöti hangir í loftinu og fyllir heimilisfólkið tilhlökkun. Þó ekki alla. Ein ung vinnukona, að nafni Ingibjörg, býr yfir miklu hatri og mikilli sorg. Hún reynir að hemja sig og lokar augunum, en um leið og hún gerir það sér hún hann fyrir sér. Glóbjart hrokkið hárið og þessi stóru ljósbláu augu. Tár rennur niður kalda og föla kinn hennar er hún stendur upp til að útbúa jólamáltíðina.
Hún gengur inn í lítið og dimmt hlóðaeldhúsið. Hún getur ekki kvartað undan kulda, en súr reykjarlyktin stingur hana í nefið og henni vöknar enn meira um augun. Hatur hennar magnast, og hún hugsar enn til drengsins síns, sem hún fær ekki að njóta jólahátíðanna með. Hún tekur afdrifaríka ákvörðun, dregur upp skjóðuna með jurtunum sem móðuramma hennar gaf henni, og sagði að hún ætti að nota til að hemja sársauka lífsins, en aðeins mætti nota lítið magn af þeim í einu, því annað væri hættulegt. Hún tæmir úr skjóðunni í brennheitan pottinn, og hrærir grænum jurtablöðunum saman við sjóðandi vatnið. Vatnið verður hægt og rólega ljósgrænt á litinn og lyktin breytist snöggt. Hún andar djúpt að sér reyknum, og finnur jafnskjótt fyrir því að andlit hennar dofnar. Hún furðar sig á því hversu fljótt lyfið er að virka. Eftir nokkurn tíma dregur hún hangikjötslærið upp úr pottinum og kemur því fyrir á stóru fati. Því næst sker hún kjötið niður og skiptir því á diskana. Hún ber það fram á borð og lætur fólkið vita að máltíðin er tilbúin.
Þau koma inn, eitt af öðru: Húsbóndinn Gaukur, því næst kona hans Jórunn og seinast Trandill, bróðir Gauks. Þau setjast við borðið og gera sig tilbúin til að ráðast á þykkar kjötsneiðarnar. Loks þegar þau byrja að borða, stendur Trandill upp og segist ætla að ná sér í öl. Ingibjörg veit að þegar Trindill kemur aftur verður lyfið byrjað að virka á hin, svo að hún ákveður að elta hann. Þegar þau koma niður í búr, dregur Ingibjörg snöggt upp hníf. Hún heldur honum á lofti yfir Trandli, en í sömu mundu snýr Trandill sér við. Ingibjörg rekur hnífinn í kviðinn á honum. Hann fellur samstundis til jarðar og gefur frá sér veikt öskur. Ingibjörg gerir sig tilbúna til að sveifla hnífnum í annað skiptið. Hún bíður eftir því að Gaukur eða Jórunn láti sjá sig, en svo áttar hún sig á því að lyfið hlýtur að hafa virkað. Hún gengur hægt inn í baðstofuna, og finnur þar Jórunni og Gauk. Þau liggja á gólfinu og engjast af kvölum.
“Hvað gerðirðu stúlka?!” Segir Gaukur með harmkvælum. “Veist þú hvernig það er, þegar að það eina sem maður elskar, er sent í burtu?” Svarar Ingibjörg lágri og hásri röddu.
Hún gengur fáklædd út í kalt vetrarkvöldið, með aðeins eitt í huga…
Ég veit að Gaukur var bóndi á Stöng fyrir einhverjum 1000 árum eða eitthvað… En það var ekki mín hugmynd að láta bóndan vera Gaukur á Stöng, ég þurfti að gera það… Og ég veit líka að Trandill var faðir Gauks á stöng, en þarna er hann “bróðir hans” ;).