Sigtryggur er 39 ára gamall og hefur alla sína tíð búið í úthverfi Reykjavíkurborgar hjá móður sinni. Hann hefur aldrei þekkt föður sinn, svo þau mæðginin hafa ávallt verið bara tvö í litlu kjallaraíbúðinni. Þar af leiðandi eru þau mjög náin, og eyða öllum sínum frítíma saman.
Sigtryggur vinnur við ræstingar alla virka daga fyrir hádegi, og nýtur þess út í ystu æsar. Eftirlæti Sigtryggs er að tefla við móður sína, og tefla þau oft tímunum saman. Á laugardagskvöldum er svo briddskvöld hjá þeim, og keppa þau á móti móðursystrum hans. Já, Sigtryggur kann að njóta lífsins.
Þangað til allt breyttist.
Móðir Sigtryggs kallaði á hann einn daginn og bað hann um að tala við sig. Hún hafði þá kynnst manni í bingóklúbbnum sínum, og vildi bjóða honum að vera með á briddskvöldum. Og þá var ekki pláss lengur fyrir Sigtrygg. Sigtryggur trúði ekki sínum eigin eyrum, hans eigin móðir að skilja hann útundan! Nú ætlaði hann að grípa til sinna eigin ráða.
Hann ákvað að hefna sín rækilega á henni, hann elskaði hana heitt og hún var besti vinur hans, en hún yrði að læra að svona ætti ekki að gera. Eina nóttina, meðan móðir hans var sofandi, læddist hann að henni með beitt tól í hendinni. Og, leiftursnöggt, stakk hann hana í magann. Ekki þó hættulega, nei, það var ekki til vottur af illsku í Sigtryggi. Hann vildi bara hefna sín til að fá sínu framgengt, hann hafði jú verið dekraður alla sína ævi.
Hann hafði fundið til gríðarlegrar höfnunarkenndar þegar hann var ekki lengur augasteinn móður sinnar. Hann vildi merkja hana sem svikara, en samt á fallegan hátt, því hún var nú fallegasta og besta kona sem hann þekkti. Hann gerði gat við naflann á henni, og stakk svo fallegum pinna með dökkbláum steini í gegn.
Dökkblár er uppáhalds litur Sigtryggs, því það er sami litur og er á augum móður hans. Móðir hans rumskaði ekki einu sinni við götunina. Líklegast vegna sterku svefnlyfjanna sem hún var á vegna ellisjúkdóma sinna. Það sem olli Sigtryggi þó mestum vonbrigðum, var að hún tók aldrei eftir því hvað hann hefði gert. Og hann skammaðist sín of mikið til að segja henni frá því.
Nokkrum mánuðum seinna missti aumingja Sigtryggur geðheilsuna, og hvarf í dimma skugga Amasón-skóganna. Hann hefur ekki sést síðan.