Í gegnum geiminn þýtur jörðin á sífelldum sporbaug sínum umhverfis sólina. Íbúar jarðarinnar taka lítið eftir því, peningarnir hafa náð tökum á þeim og fátt skiptir þá máli nema gróði dagsins. Í norðanverðu Atlantshafi stendur eyja og skelfur í kuldanum og vetrarmyrkrinu. Það er Ísland.

Við Faxaflóa breiðir borgin úr sér, eitt sinn lítil og hlýleg, nú stór og yfirgnæfandi. Í rótgrónu hverfi í vesturhluta hennar skellur snjórinn á ungri stúlku. Hún hraðar sér í gegnum myrkrið í hríðinni. Sér varla hvert hún stígur en hefur farið þessa leið svo oft að hún ratar eins og um húsið heima hjá sér. Hún kemur að blokk og fer inn í anddyrið. Reynir að dusta af sér snjóinn en hann bráðnar og verður að köldu vatni sem smýgur í gegnum föt hennar. Hún dregur upp símann. Sendir eitt SMS. Bjallan er of hávær, myndi vekja alla í íbúðinni. Nokkrum mínútum síðar opnast hurðin fyrir framan hana og hún stígur fram og faðmar aðkomumann.

,,Hæ,” segir hún skjálfandi úr kulda og létti yfir því að vera komin inn. Hann tekur utan um hana og hlær lágt.

,,Ég vissi að ég hefði átt að koma að sækja þig.”

,,Ég spjaraði mig. Enginn úti á þessum tíma.” Hún brosir. Þau ganga upp stigann. Hún fer úr skónum fyrir utan íbúðardyrnar á meðan hann opnar ofurvarlega til þess að vekja ekki foreldra sína og systkini. Síðan læðast þau inn í herbergi og loka og læsa. Þar fer hún úr úlpunni og nú faðmast þau aftur. Blautar gallabuxurnar límast við læri hennar. ,,Rosalega er langt síðan ég hef séð þig,” hvíslar hún á meðan hún þrýstir honum eins fast að sér og handleggirnir leyfa henni, ,,Ég hef saknað þín.”

Hann kyssir hana á ennið. ,,Ég saknaði þín líka. Hvernig var í Ameríkunni?”

,,Hræðilegt. Ekkert að gera. Svaf illa út af tímamismuninum.”

Bros færist yfir varir hans. Svefn er víst eitt það mikilvægasta í lífi hennar. Hún er oft þreytt. Hann rennir niður peysunni hennar og hún losar beltið hans. Hún treður sér úr blautum gallabuxunum. Þau leggjast upp í rúmmið hans í faðmlögum og fætur þeirra tvinnast saman. Hún er köld. Hann passar að sængin hylji hana alveg og reynir að gefa henni sem mest af líkamshita sínum til þess að ylja henni. Hann elskar hana.

Í gegnum geiminn þýtur jörðin á sífelldum sporbaug sínum umhverfis sólina. Í rótgrónu hverfi í Reykjavík kúra strákur og stelpa á unglingsaldri. Stelpan tekur um hönd stráksins og þessa nótt er ekki tóm fyrir neitt í huga hennar nema hann. Hann strýkur hönd hennar blíðlega með þumlinum og andar stríðnislega niður hálsinn á henni. Peningarnir hafa ekki tekið þau enn.

***

Takk fyrir að lesa. Það væri rosalega gaman ef þið gætuð sagt mér hvað ykkur finnst sagan vera um, fólk virðist hafa mismunandi skoðanir á því og ég er svoldið forvitin.