Þegar heimurinn fann mig aftur. 2. hluti.
Enn einn myrkur nóvembermorgunn hefur göngu sína, með ámóta myrkri snjókomu. Myrkri, segi ég því að henni fylgir svo sannarlega nístingskuldi.
Ég stend upp við strætóskýlið og hoppa mér til hita. Reyni að giska á hvað tímanum líður, bjartsýn á að strætó muni senn láta sjá sig.
Ég er ellefu ára. Há eftir aldri, en horuð og rengluleg. Ég á enga úlpu. Bara nokkrar gamlar en þykkar peysur, sem verða að duga þangað til ég fæ úlpu. Er að hugsa um að biðja bara um úlpu í jólagjöf í staðinn fyrir pleymó. Þó að mig langi óskaplega mikið í pleymó.
Strætó kemur loksins, og ég nota seinasta strætómiðann minn til að borga fyrir farið í skólann. Eins gott að ég fæ strætómiða í skólanum. Allir krakkar sem að búa eins langt í burtu og ég fá strætómiða. Samt býr engin í skólanum jafn langt í burtu og ég, nema Gunnlaug. Og mamma hennar keyrir hana í skólann á hverjum degi. En svo erum við oftast samferða heim.
Ég sest nokkrum sætum aftar en Heimir. Það veitir mér nokkra öryggiskennd að sitja nálægt honum. Þó að hann tali aldrei við mig á almannafæri og lítið sem ekkert heimafyrir. Hann er þó allavega skárri en Frosti.
Heimir er fimm árum eldri en ég en Frosti er þremur árum eldri. Þeir eru synir Ölmu, konu pabba míns. Ég fæ hroll og reyni að dreifa huganum með því að virða fyrir mér hitt fólkið í strætó.
Ég fer út á stoppistöðinni við Ártúnshöfða og geng nokkrum skrefum fyrir aftan Heimi, sem virðir mig ekki viðlits frekar en fyrri daginn. Þegar við komum inn passa ég mig á því að stilla mér upp í hæfilegri fjarlægð frá honum og vinum hans. Fegnust því að geta flúið kuldann í örlitla stund.
Þegar strætóinn hans Heimis kemur sé ég hvernig hann dregur sig eilítið frá vinum sínum sem flýta sér út. Hann nálgast mig varfærnislega og ég finn hvernig barnslegt bros færist yfir fölt andlit mitt.
- Vera. Er þér ekkert kalt?
- Jújú, en það er allt í lagi sko.
- Nei. Heyrðu, ef þú lofar að hitta mig hérna eftir skóla þá skal ég lána þér úlpuna mína. Þó að hún sé allt of stór.
-Já, takk Heimir. Takk fyrir.
Hann réttir mér úlpuna sína og ég sé hvernig hann brosir svolítið.
-Heyrðu annars. Viltu nokkuð að ég fylgi þér í skólann?
-Nei, þú þarft þess ekkert. Ég er furðulostinn yfir góðvild hans sem kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti.
-Jú. Hérna…. heldurðu að kennararnir séu ekkert hissa á því hvað þú kemur alltaf seint. Ég hlýt að geta útskýrt það á einhvern hátt.
-Nei, það skiptir ekki máli. Þú þarft að fara í skólann sjálfur.
-Já, en ég er hvort sem er búinn að missa af strætó…
Ég vildi ekki að hann kæmi með mér. Ég vildi ekki að hann hefði eitthvað á mig. Hann var nefnilega ekki alltaf svona góður. Ég sá hvar sjöan renndi í hlaðið.
-Heyrðu ég sé þig bara hérna eftir skóla. Bless bless.
Ég flýtti mér út án þess að líta við. Ég sá út um gluggann á strætó þegar Heimir steig upp í annan vagn. Auðvitað var hann ekkert búinn að missa af strætó. Þeir voru nokkrir sem stoppuðu nálægt skólanum sem hann var í. Ég vonaði bara að hann væri ekki að hugsa um að nota úlpuvesenið á mig seinna.
Ég hljóp allt hvað af tók frá strætóskýlinu og niður í skóla. Gangandi kæmist ég ekki þangað nema á tíu mínútum, og það var allt of langur tími. Ég var búin að missa af fyrsta tímanum. Eins og vanalega. Ég kom alltaf minnst klukkutíma of seint í skólann, jafnvel þó að ég tæki undantekningarlaust fyrsta vagninn á morgnanna.
Þegar ég kom inn í skólastofuna voru krakkarnir við það að fara út. Gróa, kennarinn minn, bað mig að vera eftir. Hún var ströng á að líta. Ég hafði búist við þessu í meira en tvær vikur.
-Heyrðu Vera. Nú vil ég fá að vita afhverju þú kemur iðulega svona seint!? Þetta er alls ekkert venjulegt.
-Ég…hérna..ég verð alltaf að taka strætó í skólann á morgnanna. Og svo þarf ég líka að skipta á leiðinni. Ég reyni að koma á réttum tíma, en það er bara ekki hægt.
-Ég veit vel að Gunnlaug býr rétt hjá þér. Mamma hennar hefur áður boðist til þess að taka þig með á morgnanna. Afhverju tekur þú ekki boði hennar!?
-Bara…ég…
-Svo er annað sem ég hef lengi verið að velta fyrir mér. Ert þú byrjuð að reykja? Það er nefnilega alltaf svo hrikalega mikil og vond reykingalykt af þér.
Ég brast í grát.
-Nei, auðvitað ekki. Ég rétt gat stunið þessu upp. En konan hans pabba…ég meina….mamma…hún reykir. Og pabbi líka.
Gróa virtist engan vegin gleypa við þessu. Ég sá það á svipnum. Hún hlaut að halda að ég væri algjör vandræðagemlingur.
-Jæja Vera. Nú skalt þú byrja að fara með Gunnlaugu á morgnanna. Þú mátt ekki við því að fá fleiri fjarvistir. Þú mátt fara núna.
Mér leið líkt og dæmdum fanga þegar ég gekk eftir ganginum. Ég fann augu eldri stelpnanna hvíla á mér. Þetta var lítill skóli. Svo lítill að sjötta og sjöunda bekk var kennt saman. Og þar af leiðandi höfðu stelpurnar í sjöunda orðið vitni að því þegar Gróa dró mig afsíðis. Ég heyrði hvernig þær flissuðu og sá þær stinga saman nefjum. Það var leiðinlegt að láta hlæja að sér, en ég var orðin vön því. Auk þess vissi ég að þær ættu hvort sem er aldrei eftir að vilja leika við mig.
Ég átti betur heima úti á fótboltavelli hjá strákunum.
Á hádegi fór ég strax í sjoppuna. Ég hafði einhverju sinni boðist til að hjálpa Jónu í eldhúsinu, og nú var svo komið að ég var svo til fastráðin í eldhúsið. Starfið hafði svo sem engin fríðindi með sér. Fyrir utan það að ég hafði ótakmarkaðan aðgang að mat. Og það kom sér svo sannarlega vel þegar nestið að heiman var af skornum skammti. Vanalega fékk ég ekki mikið af nesti með mér í skólann. Endrum og eins fékk ég samloku með of miklu smjöri, eða epli. Stundum ekki neitt. Ég mátti heldur ekki búa til nestið mitt sjálf. Reyndar mátti ég bara alls ekki fá mér að borða heima nema mér væri boðið það.
Þegar við höfðum lokið við að afgreiða alla fór Jóna fram til að fá sér kaffi, líkt og vanalega. Á meðan notaði ég tækifærið og hnuplaði þremur jógúrtdósum. Ég stakk þeim varlega undir víða peysuna og passaði að hafa hendurnar þannig að engin hætta var á að ég missti þær. Ég kastaði á hana kveðju og flýtti mér inn á klósett að borða það sem mér hafði áskotnast.
Annars gekk dagurinn áfallalaust fyrir sig. Ég spilaði fótbolta með strákunum í frímínútunum og hjálpaði Evu þegar þeir tóku af henni húfuna. Ég var orðin frekar leið á þessu. Gátu þeir aldrei látið hana í friði!
Hún var öðruvísi, líkt og ég. En munurinn á okkur var sá að ég var stærri og sterkari og gat því auðveldlega varið mig. Strákarnir höfðu lært af biturri reynslu að láta mig í friði. Svo báru þeir líklega virðingu fyrir mér, þar sem ég var mjög góð í fótbolta og flestum íþróttum. Mér fannst það indælt, þar sem ég átti fáa vini.
Í hinum skólunum hafði ég oftast ekki átt neina vini.
Ég var samferða Gunnlaugu heim og hitti í leiðinni Heimi til að skila úlpunni. Gunnlaug horfði undarlega á mig þegar ég lét Heimi fá úlpuna, en sagði samt ekki neitt.
Rétt áður en við fórum í sitthvora áttina minnti hún mig á morgundaginn.
- Við mamma verðum komnar fyrir utan hjá þér tuttugu mínútur yfir sjö.
- Viljiði ekki bara ná í mig hingað.
- Ha? Afhverju? Gunnlaug virti fyrir sér útkrotað og illa lyktandi strætóskýlið með fyrirlitningu.
-Bara. Mér finnst fínt að labba smá á morgnanna.
-Jújú, við getum það svo sem alveg.
-Frábært. Takk kærlega.
Ég andaði léttar. Mest allur dagurinn hafði farið í vangaveltur. Hvernig átti ég að ráða fram úr þessu? Ef Alma kæmist að þessu. Mig hryllti við tilhugsunina. Hún hafði tekið það skýrt fram að ég mætti sko ekki fá far hjá þeim. Ég hafði áður spurt, því að þær höfðu jú áður boðist til þess að kippa mér með. En hún varð bara vitlaus og þvaðraði eitthvað um að ég væri á tólfta ári og tími til komin að ég lærði að hugsa um mig sjálf.
Ég fattaði þetta ekki alveg. Hún talaði um að ég ætti að læra að hugsa um mig sjálf, en svo mátti ég ekki einu sinni fá mér að borða þegar ég var svöng. Og hvað þá að fara í sturtu. Ég sullaði víst of mikið út að hennar sögn.
Ég gekk hægt og rólega og passaði mig á því að stoppa í hvert skipti sem ég sá kött nálægt. Eftir tuttugu mínútur í kattarleik þorði ég ekki að tefja lengur.
Annars yrði afsökunin mín ekki mikils virði.
Ég opnaði dyrnar heima varlega og reyndi að læðast inn. Óli, litli bróðir minn, sá mig strax og kom brunandi í göngugrindinni á móti mér. Hann keyrði beint á mig. Ég greip um sköflunginn á mér og gat ekki stillt mig um að æpa. Í því kom Alma askvaðandi, með sígarettu í vinstri hendinni og öskraði á mig að hætta þessu væli.
- Hvar í fjandanum varstu? Þú hefðir átt að vera komin fyrir löngu síðan!!
- Ég missti af strætó.
- Nei, andskotinn hafi það. Þú ert lygasjúkur krakkafjandi. Drullaðu þér inn í herbergi að læra. Hún losaði sig við sígarettuna í gamlan blómabott, sem innihélt ekki annað en úldið vatn.
Ég hafði hlotið mikla þrjósku í vöggugjöf. Ég vissi fyrir víst að þessi refsing var ekki réttlætanleg. Allir komu einhverntíman of seint heim og mér gramdist að dagurinn væri nú þegar ónýtur.
Ég vissi að þegar ég var send inn í herbergi, yrði ég að dúsa þar allan daginn. Þá skipti engu máli hvenær dagsins ég var send inn. Ef klukkan var tólf á hádegi, yrði ég bara að vera þar þangað til ég átti að fara að sofa.
- Ég fer ekki rassgat inn í herbergi. Ég gerði ekki neitt.
- Vertu ekki með þennan helvítis skæting. Þú veist vel hvað þú gerðir.
- Nei ég fer ekki neitt!!!! Ég ætlaði að freista þess að stökkva út, en hún var sneggri í þetta skiptið og reif í höndina á mér. Ég henti mér í gólfið og greip um fætur hennar með lausu hendinni. Ég vonaði að hún dytti kylliflöt, en ég var ekki alveg nógu sterk fyrir tæplega fertuga konu.
Hún losaði auðveldlega hendina mína og dró mig svo eftir gólfinu og inn í herbergi. Svo skellti hún hurðinni á mig en læsti ekki. Hún læsti eiginlega aldrei. Hún vissi nefnilega að ég myndi fyrr eða síðar reyna að laumast fram og þá gæti hún auðveldlega framlengt refsinguna.
Pabbi maldaði nefnilega stundum í móinn og þá gat hún notað viðleitni mína til að sleppa úr prísundinni sér til framdráttar.
Ég settist á rúmstokkinn og andvarpaði þungan. Djöfull hataði ég þetta helvítis herbergi. Ég lék mér nú orðið aldrei hérna inni nema ef ég hafði gert eitthvað af mér. Ég skoðaði bókaúrvalið, og leitaði að bók sem ég hafði ekki lesið oftar en fimm sinnum, og endaði á því að draga fram ágæta bók um hann Sherlock gamla Holmes.
Þegar ég hafði lokið við hana var komin matartími. Ég heyrði þegar þau slöfruðu í sig matinn og fann hvernig hungurverkurinn magnaðist. Ég var orðin vön honum og gat því leitt hann hjá mér í nokkra stund. En þar sem innihald magans var ekki mikið meira en þrjár jógúrtdósir missti ég fljótt einbeitinguna og henti frá mér Andrésblaðinu sem ég hafði byrjað á.
Ég lagðist í fósturstellinguna og vaggaði mér til og frá til að reyna að róa magann. Ég vonaði að ég fengi nú eitthvað að borða í kvöld.
Tíminn silaðist áfram. Ég fékk klósettleyfi, en ekkert bólaði á matarskammti þetta kvöldið. Ég hafði gefið upp alla von þegar pabbi kom inn og sagði mér að Alma væri að svæfa Óla og Ellu.
- Drífðu þig að éta. Það er matur á borðinu. Ekki láta heyrast mikið í þér. Hann forðaðist að líta í augu mín og gekk hröðum skrefum fram.
Ég tipplaði á tánum inn í eldhús og dreif mig að éta kornflekksið sem pabbi hafði útbúið handa mér. Svo fór ég aftur inn í herbergi og hélt áfram með Andrésblaðið þangað til Alma kom inn og sagði mér að drullast í háttinn. Ég spurði hvort ég mætti fara og tannbursta mig, en hún sagði mér bara að éta skít.
- Þú hefðir betur átt að hugsa til þess áðan, þegar þú fékkst að fara á kóstið. Svona, í rúmið með þig!
Ég klæddi mig í þunnan bol og lagðist upp í rúm. Hún stóð yfir mér á meðan, en fór svo fram þegar hún hafði gengið úr skugga um að ég færi nú örugglega að sofa. Ég var líka dauðþreytt og orkulaus. Það var nú ekki mjög mikil orka í kornflekksi og jógúrt. Ég fann hvernig tárin byrjuðu að brjótast fram.
Ég hugsaði um mömmu. Afhverju fór hún. Afhverju þurfti hún endilega að deyja. Ef hún hefði nú bara sleppt því að eignast mig, þá hefði hún ekki dáið.
Ég fæddist tveimur mánuðum fyrir tímann og var mér þá vart hugað líf. Mamma var þungt haldin af einhverskonar hjartasjúkdómi, sem ég kunni nú ekki almennilega skil á, og þess vegna þurftu læknarnir að skera hana upp. Til að reyna að bjarga mér.
En afhverju? Afhverju björguðu þeir ekki henni í staðinn? Mér hefði verið sama. Ég væri svo sem alveg til í að deyja bara. Þá gæti pabbi kannski fundið hamingjuna á ný. Þá væri hann laus við öll vandræðin sem fylgdu mér.
Þá væri ég frjáls. Frjáls eins og mamma.
———
Þetta eru fyrstu tveir kaflarnir í skáldsögu sem ég er að skrifa þessa stundina. Ég hef rétt lokið við fjórða kafla, en eins og gengur og gerist með skáldsögur er enn margt sem huga þarf að. Þið megið því endilega líta á þetta sem gróft uppkast, frekar en heildarútkomu.
——