Reglur lífsins. Ég held að þetta sé ekki einusinni setning. Hver og einn lifir lífinu á sinn eiginn hátt. Þú ferð þínar eiginn leiðir, en ert þó oftast nær samferða samfélaginu. Annars gætirðu átt það á hættu að týnast.
Ég týndist eitt sinn. Nú ætla ég að segja ykkur söguna frá því þegar heimurinn fann mig aftur.
Ég sit hérna í herberginu mínu niðri í miðbæ Reykjavíkur og hlusta á klingjandi tóna Hallgrímskirkju rembast við að vekja borgina, sem þó er vöknuð til hálfs.
Klukkan er óvinur minn, ég gjói augunum í átt að henni og gnísti tönnum. Langt gengin í ellefu. Orðin allt of sein í skólann, eins og vanalega. Hósta þurrlega í afsökunartón, jæja ég get þá bara alveg eins hringt mig inn veika og notað daginn í að lesa og læra fyrir næsta skóladag. Þegar ég staulast loks á fætur eru augun lokuð til hálfs og því er ég algjörlega varnarlaus gegn því sem mætir mér.
Ég hrekk í kút og næ með naumindum að kæfa ópið sem komið er langleiðina fram á varir mínar. Úfinn og rauðhærður lítill haus stendur í dyragættinni og horfir með undrunarsvip á mig.
- Viltu opna þetta fyrir mig kona?
-Hva, hver, ha!?
-Sona! Viltu opna þetta fyrir mig strax! Hann otar að mér kexpakka óþreyjufullur á svip.
Ég andvarpa þungan og tek að mér að opna þennan ómerkilega kexpakka.
- Veistu ekki að það er dónalegt að æða inn í herbergi ókunnugra? Spyr ég, eilítið höst á meðan umbúðirnar fá að fjúka.
- Þú ert ekkert ókunnug. Þú leigir af henni mömmu!
-Já, og hvar er svo hún mamma þín núna. Ég er orðin óþolinmóð og sýni það óspart. Þoli ekki krakka!
- Mamma fór út í búð og ég var svangur.
- Jæja, éttu þá kexið þitt og láttu mig í friði! Það kemur skeifa á frekknótt andlitið og hann hálf hleypur út.
Það var mikið muldra ég, en sé samt svolítið eftir því hversu köld ég var við strákgreyið. Verð að muna læsa herberginu. Konan sem keypti húsið á endalausan krakkaher.
Ég sting hausnum varlega fram á ganginn og svipast um. Ekkert kvikt virðist vera í sjónmáli svo að ég áræði að skokka niður á bað með sængina utan um mig. Þegar niður er komið læt ég sængina falla og skrúfa frá sturtunni.
Heitt vatnið bunar á skjálfandi líkama minn sem senn tekur þó við sér og ég finn hlýjuna læðast um mig alla. Ahhhh, þetta er indælt. Ég þvæ á mér hárið og virði fyrir mér silfurskottu sem þýtur skelkuð inn í holu sína. Ég fæ hroll. Ógeðslega gamla hús með ógeðslegum, eldgömlum og pödduétnum innanstokksmunum.
Þegar ég hef lokið við að klæða mig lít ég sem snöggvast í spegilinn og renni bursta í gegnum síða, þykka hárið mitt. Hef alltaf verið ánægð með þetta dökka hár, þó að sömu sögu sé ekki hægt að segja um afganginn af líkama mínum. Hef alltaf verið frekar há eftir aldri og nú þegar ég hef loksins hætt að vaxa er ég orðin tæpir 178 sentimetrar á hæð. Ekki sem verst. Mér fannst það að vísu frekar hvimleitt þegar ég var yngri en er farin að sætta mig við það svona á seinni árum. Nefið frekar smágert, en einhvernvegin ekki minn besti vinur þrátt fyrir ítrekaðar sáttartilraunir. Augun lítil, græn og einhverntíman sagði einhver mér að ég væri svolítið tileygð. Sá hinn sami hefði betur látið það ósagt því nú hef ég eytt seinustu tveimur árum í að spá í jafn lítilvægum hlut. Eða hvað? Mikilvægt. Lítilvægt. Hver er munurinn þegar um er að ræða manns eigin sjálfsmynd? Ég bursta í mér tennurnar og virði fyrir mér höfuðandsæðinginn. Skökku framtönnina! Enginn hafði nokkurntímann haft efni á því að láta rétta hana, og þannig var það bara. Ekkert hægt að gera í því núna. Margt annað sem gekk fyrir í lífinu en að láta rétta skakkar tennur. Ég tuða þetta upphátt, en veit samt ósköp vel að ég er bara að klóra í bakkann. Satt best að segja er ekkert mikilvægara í mínum huga þessa dagana.
Á leiðinni upp í herbergið mæti ég konunni sem ég leigi hjá.
Feitur líkaminn fyllir upp í þröngan stigan svo að ég kemst hvorki lönd né strönd.
-Heyrðu, átt þú ekki að vera búin að borga leiguna vinan? Spyr hún og vandlætingartónninn leynir sér ekki.
- Hélt að við hefðum samið um þann fimmtánda.
- Jú, ehhm.. Ég sýð saman einhverja afsökun um takmarkaða vinnu og lítinn pening og fæ hana loks til að vorkenna mér. Hún fellst með semningi á að leyfa mér að borga frekar um mánaðarmótin. Úff, þarna slapp ég naumlega, hugsa ég með mér og glotti út í annað.
Sannleikurinn er sá að ég er að reyna að koma mér upp smávegis fjárhæð til að mögulegt verði fyrir mig að sleppa einhverntímann úr þessari holu. En það vita allir að það jafngildir morði að skella sér bara si svona út á leigumarkaðinn í Reykjavík.
Ég ákveð að fara í smá göngutúr í þessu fallega gluggaveðri og dúða mig upp. Set á mig heyrnatólin og stilli á hæsta styrk.
Ég rölti niður Skólavörðustíginn í mestu makindum og virði fyrir mér allt stressaða fólkið í sínum stressaða hugarheimi,
algjörlega varnarlaust gegn heiminum sem senn mun gleypa það í örvæntingarfullri tilraun til að lifa af.
Myndarlegur, jakkafataklæddur maður, með gemsann í hægri hendinni og skjalatöskuna í þeirri vinstri, er ógnvænlegur að sjá þegar hann kemur stormandi á móti mér og ég næ með naumindum að forða mér frá árekstri.
Tveir útlendingar standa með myndavélina sína og eru að reyna að festa mannlíf Reykjarvíkurborgar á filmu með Hallgrímskirkju í baksýn. Alveg makalaust hvað þeir eru alltaf glaðir þessir útlendingar og auðþekkjanlegir á gulum vindjökkunum. Það er svo sannarlega auðvelt að þekkja þá frá önugum Íslendingum sem undantekningarlaust ganga allir í leðurjökkum og diesel buxum úr Sautján, sama hvernig viðrar.
Ég geng á ljósastaur. I-podinn flýgur í jörðina og harðir tónar Tool fjara út. Ég heyri kæfðan hlátur fyrir aftan mig og lít við. Tvær stelpur, varla meira en fjórtán ára, hnippa í hvor aðra og valhoppa yfir götuna. Ég nudda ennið annars hugar og beygi mig eftir mikilvægustu eign minni þessa dagana.
Það mátti ekki seinna vera. Veðurguðirnir móðgast yfir eigingirni okkar jarðarbúa.Það byrjar að rigna. Ég bölva í hljóði, og set á mig hettuna til að skýla nýþvegnu hárinu. Ákveð samt sem áður að láta ekki smávegis vætu draga úr mér kjarkinn og held því ótrauð áfram.
- Vera, ert þetta virkilega þú?
Ég rétt greini nafnið mitt í gegnum tónlistina og lít upp. Fyrir framan mig stendur miðaldra, dökkhærður maður.
Erfiðleikar hafa sett mark sitt á þreytulegt andlitið, og grá hárin sem víðast hvar eru orðin þeim dökku yfirsterkari gera það að verkum að hann virðst vera tíu árum eldri.
Ég sýp hveljur og herði á göngunni. Læt sem ég sjái hann ekki. Ég finn hvernig tárin byrja að brjótast fram og hvernig sem ég reyni get ég ekki haldið aftur af þeim.
Ég byrja að hlaupa og lít öðru hverju við, til þess að ganga úr skugga um að hann sé ekki að elta mig. En hann stendur bara þarna í sömu sporum, niðurlútur og strýkur á sér hrukkótt andlitið. Þegar ég hef hlaupið svo langt að hvorki sést tangur né tetur af honum lengur, stoppa ég til að kasta mæðinni. Svo held ég áfram.
Tárin streyma, og ég finn gamalkunnan sársauka magnast upp innra með mér.
Hinn falski léttir yfir hvarfi hans fyllir hug minn, en hin sönnu vonbrigði eru þó mun sterkari.
Í gegnum árin hef ég oft velt því fyrir mér hvort betra sé fyrir okkur mennina að standa frammi fyrir hinum ógurlega dauða, eða hinu miskunarlausa afskiptaleysi.
Og loksins eftir langa og stranga leit fann ég svarið, sem reyndist vera nær mér en ég hafði áður haldið.
Ekki verður deilt við dauðann. Og þar af leiðandi er enginn von. Þú getur ekki leyft þér að vonast eftir breytingu frá því sem orðið er.
En með algjöru afskiptaleysi fylgir algjör og stanslaus höfnun. Þú heldur að allt sé nú orðið gott. En á svipstundu er það allt rifið frá þér aftur og þú settur á byrjunarreit, til þess eins að ganga í gegnum þennan hrikalega sársauka aftur og aftur og aftur og aftur.
Þess vegna hafði ég fyrir nokkru síðan ákveðið að fyrir mér skyldi faðir minn dauður heita. Hann hafði ekkert gert til að verðskulda ást mína. Þvert á móti hafði hann með árunum eytt henni sjálfur, hægt og sígandi. Og nú var svo komið að tilhugsunin um hann fyllti mig viðbjóði, en þó sárum sökknuði sem þrjóskaðist við þrátt fyrir allt það sem á undan var gengið.
Ég lít yfir tjörnina. Rosalega hef ég hlaupið langt, hugsa ég með mér og reyni að brosa í gegnum tárin. Ég tylli mér á einn af bekkjunum hjá tjörninni og kveiki mér í sígarettu.
Ég finn hvernig hugur minn byrjar að reika. Ég streitist á móti, en allt kemur fyrir ekki.
Ég hverf aftur til fortíðar.