Rauða ljósið virðist springa í milljón eindir í regndropunum á framrúðunni. Helga stígur létt á bremsuna og kveikir á rúðuþurrkunum. Ógeðslegt veður, rok og rigning, og hversvegna um mitt sumar? Hún andvarpar lágt og lokar augunum, orðin sein, orðin sein, segir hún við sjálfa sig, opnar augun og lítur á mælaborðsklukkuna.

Auðvitað þurfti hún að vakna of seint, gersamlega ignora útvarpsvekjarann og sofa út, dreyma. Hún bölvar sjálfri sér í huganum, helvítis andskotans… Fyrir aftan hana heyrist hátt flaut, hún kippist til, lítur í baksýnisspegilinn og strax fram fyrir sig, komið grænt, af stað stelpa!


Bíllin höktir af stað og spólar í bleytunni þegar Helga stígur of hastarlega á bensíngjöfina og grípur um stýrið. Umferðarljósin og bílarnir þjóta framhjá eins og blaut strik þegar hún brunar yfir gatnamótin.
Bíll á vinstri akrein flautar hvellt þegar hún þýtur fram fyrir hann. Helga horfir aftur í baksýnisspegilinn til þess eins að sjá bílstjórann sýna henni fingurinn, djös dóni! hugsar hún með sér. Eða kannski ætti hún að hægja á sér áður en hún æki yfir einhvern. Hún fálmar eftir útvarpinu, stillir það og finnur FM, ooh, búin að missa af honum segir hún við sjálfa sig. Morgunþátturinn búinn og einhver lúði tekinn við og kynnir tónlist með þessa heimskulegu hressu röddu. Hún slekkur.


Næstu ljós, Helga hægir vel á sér, hún treystir bílnum aldrei sérstaklega vel þegar rignir og ekki núna þegar hálfgert monsúnskýfall er úti. Hún lítur aftur á klukkuna, 9:30, “andskotinn ég er allt of sein!” Æpir hún, “æjii!” Bætir hún við. Hún tekur upp gemsann, pikkar á tvo takka og bíður með tólið við eyrað. Svara svo, segir hún pirruð við hringisóninn.

Úff ég nenni þessu ekki segir hún aftur við sjálfa sig og stígur á bensíngjöfina. Mamma er sjálfsagt ekkert heima. Allt einu tekur hjarta hennar kipp, hún lítur upp, FOKK!! öskrar hún í huganum, rautt!

Út undan sér tekur hún skyndilega eftir björtu ljósi sem nálgast á ógnarhraða, hún lítur til vinstri nógu snemma eða of seint til að sjá eitt í sekúndubrot sem virðist teygjast í heila eilífð, grill á bíl stefna á hurðina hjá henni. Tvö orð þjóta í gegnum huga hennar “Ég dey”
Hár snögglegur hvellur eins og byssuskot heyrist og brothljóð úr öllum mögulegum áttum fylla eyru hennar. Nístandi sársauki bítur sundur taugarnar og henni finnst eins og líkami hennar kremjist innan í köldu járni og plasti sem umlykur hana og slítur vöðvana eins og lélegar gúmmiteygjur. Heimurinn snýst hring eftir hring og skerandi ískur bergmálar í eyrum hennar um leið og hún horfir á malbikið renna yfir bílþakið


Allt í einu þagnar heimurinn eins og gröf. Kaldur vindur blæs á blóðugt andlit, hönd lafir máttlaus eins og tuska ofan á innanverðu bílþakinu.
Helga opnar augun og stynur lágt er sársaukinn stingur í þau, hún blikkar nokkrum sinnum. Guð ég sé ekkert! hvíslar hún og reynir að lyfta höndunum en getur það ekki.

Fyrir utan heyrast raddir sem nálgast óðfluga, einhver þeirra kallar hátt.

“Guð minn,, hérna heyrirðu í mér þarna inni?”

Inni er næðingur. Helga reynir að svara en út kemur aðeins lágt hvísl sem drukknar í ört hækkandi röddum úti fyrir.

Af hverju er svona hræðilega kalt? spyr hún sjálfa sig í huganum, en henni er þó ekki kalt nema á höfðinu og hálsinum. Hún gerir tilraun til að hreyfa fæturnar en ekki einn einasti vöðvi virðist virka. Fáránlegri hugsun skýtur upp kollinum í huga hennar “ætli nýju skórnir séu í lagi?”.
Hún reynir aftur að sjá í kringum sig en særð augun stinga í hvert skipti sem hún blikkar augnlokunum. Eftir nokkrar sekúndur rennur það upp fyrir henni, hún finnur engan sársauka í fótunum, hún öskrar í huganum og reynir að brjótast um en líkaminn svarar ekki.
“Ó guð ég finn ekki fyrir þeim, ÉG ER LÖMUÐ!!”

Kalt loftið blæs um líkama hennar og sál. Heimurinn hefur kramið hana og skilið eftir. Upp í huga hennar kemur slæm minning frá því hún var 5 ára og týndi móður sinni.

Hún stóð ein í stórri matvöruverslun, allt í kring voru háar hillur fylltar marglitum hlutum, ókunnugt fólk labbaði framhjá henni, sumir horfðu niður á hana þar sem hún stóð hrædd og grét. Mamma var horfin, hún stóð áðan fyrir framan Helgu en svo allt í einu bara hvarf hún.
Helga hljóp milli hillnanna og kallaði og kallaði en mamma svaraði ekki. Var hún að fela sig? Henni fannst það soldið sniðugt fyrst en fljótlega áttaði hún sig á því að mamma hennar var ekki að fela sig fyrir henni, hún var bara hvergi.
Og Helga hætti að hlaupa, tárin byrjuðu að renna niður kinnarnar og ekkasog tóku við af köllum. Heimurinn var svo vondur og stór, og nú var hún týnd, kannski að eilífu.


“Mamma” heyrist ofurlágt í hásri kjökrandi röddu innan úr flakinu sem virðist blæða út á malbikinu. Olíubrák leiðir að næsta niðurfalli og glerbrot eins og eftir haglél þekja blautt malbikið. Í fjarska heyrist í kuldalegri sírenu og blá blikkandi ljós birtast í gegnum rigninguna.
—–