Ég hef lokað mig inni í líkamanum. Læst mig af í afskekktu eyðilandi hugans. Þar hjúfra ég mér saman einn í myrkrinu. Líkaminn sálarlaus er lokaður inni í litlu skjannahvítu herbergi. Þar er hann geymdur á víxl sitjandi eða liggjandi. Augun lífvana stara fram á það sem ég óttast mest. Martröð mína í eina tíð, veröld mína það sem eftir er. Ég er eins og lítill krakki aleinn í myrkrinu, skelf og titra í felum en þori ekki að gráta, eins sáran og ég vildi, af ótta við að það finni mig. Það situr fyrir framan búkinn hvæsandi af reiði að ég skuli vera farinn. Varnarlaus er ég læstur inni í þessum vistarverum, skilinn eftir á valdi þess. Yfirgefinn aleinn í myrkrinu.

<br><br>

Þegar ég var lítill ólst ég upp við kirkjugarðinn í Hafnarfirði. Lék mér þar í kring og þótti lítið tiltölumál. Á fjórtánda aldursári vakna ég upp um miðja nótt ískaldur með svífandi yfir mér ógreinilega veru. Ég horfi skelfingarlostinn, hrokkinn upp úr fögrum draumi fortíðar, inn í kaldan veruleikann. Líkaminn öskrar af hræðslu þó ég gefi frá mér engin hljóð. Það get ég ekki. Tárast og í þeim speglast óhugnaðurinn, óvættin, sem situr á andardrættinum svo ég get mig hvorki hreyft né sótt í súrefni. Ég næ ekki andanum! Það er eins og hún reyni að kremja í mér hjartað, svo þung situr hún yfir mér og hver snerting gustar skerandi kulda. Situr yfir mér svífandi, hangandi í loftinu og ísköld nærvera hennar nægir til að kvelja mig. Hún sekkur svört neðar og neðar og mig langar að reisa hendurnar mér til varnar en get mig hvergi hreyft. Rennur dökk ofan í mig, svo sárt sem að hún dragi úr mér sálina og ég engist og æpi í innviðunum af sársauka. En þá er hún jafnframt horfin. Skilin við mig en áfram verkjar mig í brjóstinu. Ég sest upp á rúmgaflinn, kveiki ljósin skjálfandi sitjandi og held um líkamann, faðma sjálfan mig með ekkahljóðum viljandi aldrei lifa þessa nóttu aftur. Reyni að tala mig inn á það að þetta hafi verið draumur. Sit fram á morgun með kveikt grátandi í lágum hljóðum. Um morguninn þori ég loksins inn á bað til að létta af mér. Ég rek upp angistaraugu við þeirri sjón sem er í speglinum. Ég er með rauð för um hálsinn sem einhver hafi reynt að kirkja mig. Þegar ég dreg niður hálsmálið á bolnum er ég rauður með þrútin mör á allri bringunni. Ég sagði aldrei nokkrum manni frá þessu, því þorði ég ekki, það skilur þetta ekki.

<br><br>

Ég sá ekki meir af slíku næstu árin. Ég sannfærðist meir og meir um að þetta hefði verið ímynduð upplifun. Þannig tókst mér með árunum að grafa meinið ofan í dimma kalda jörð illra minninganna, en aldrei losnaði ég alveg úr viðjum fortíðar. Óþægileg tilfinning af nærveru hennar heltók huga minn sumar nætur. Tilfinning eins og einhver sæti inni hjá mér, væki yfir mér sofandi. Þá fyrst þegar ég kveikti ljósin hvarf óttinn.

<br><br>

Árin liðu, ég lauk framhaldsskóla með árangri og var kominn í Háskólann. Var í sambandi við fallega stúlku og ljómaði af lífsgleði, eins og móðir mín var vön að segja, blessuð sé minning hennar. Mikið sakna ég þessa, mikið hugsa ég til baka í draumkenndum dagrullum, ég þrái sárast allra hluta að hverfa aftur, að fá breytt sögunni, að rata til baka upp úr þessu helvíti sem ég lifi í.

<br><br>

Ég er á leiðinni heim í afmæli systur minnar þegar mér finnst eins og eitthvað taki stjórn á bílnum, togi í stýrið og þó ég sleppi bensíngjöfinni eykur bíllinn jafnt og þétt hraðann. Það er eins og farskjóturinn sé andsetinn. Það er eins og pedalinn sé fastur ofan í golfinu. Ég missi stjórn á sjálfum mér, gömul mein eru rifin upp og ég þrusa niður bremsunni sem kastar bílnum útaf veginum utan í klettabjarg. Ég þeytist sjálfur útúr bílnum, mölbrýt framrúðuna, og ligg alblóðugur utan vegar þar til hjálp berst. Minnstu mátti muna að mér blæddi út og lengi vel óttuðust læknar að ég ætti ekki afturkvænt til mannheima er ég lág í þungu dái. Ég var meðvitundarlaus í sex daga þar til ég snéri aftur.

<br><br>

Á sjúkrahúsinu strax fyrsta daginn er ég dró aftur andann af sjálfdáðum, vissi ég að líf mitt yrði aldrei samt aftur. Þegar ég opnaði augun lág yfir mér hryllileg vera. Ekki af þessum heimi. Snúinn aftur úr martröð minni sem nú tók engan enda. Móðir mín sem sat yfir mér hrökk við af óhljóðum sem ég skrækti upp. Hún gladdist falskri hamingju að ég væri vaknaður úr dái, að ég væri á lífi. Ég hefði betur drepist í slysinu, eða lokið því verki sjálfur. Allstaðar sá ég skuggaverur.

<br><br>

Líf mitt varð aldrei samt en fjölskyldan mín stóð með mér í gegnum veikindin, það tók mig næstum heilt ár að ná mér líkamlega. Ég var talinn lánsamur að hafa ekki orðið fyrir neinum varanlegum búkskaða þó andlegu ástandi mínu hrakaði dag frá degi. Ekkert var samt við sig, form og litir í kringum mig voru flöktandi, fólk litað upp í skærum neonlitum, sérfræðingar sögðu mig vera að missa sjónina, litblindur og hvaðeina. Engin svör voru á reiðum höndum hvað væri að koma fyrir mig. Faðir minn og móðir og tvær systur mínar gerðu hvað þau gátu til að hjálpa mér. Mikið þótti mér vænt um þau og mikið sakna ég þeirra. En fallegu kærustuna mína, þá er ég hafði ort þúsund ástarljóð til handa, hana sá ég aldrei aftur. Ég var fordæmdur ásóttur af skuggaverum. Sat stjarfur í næturhúminu eða öskraði úr mér lungun þar til ég var sprautaður niður af velviljuðum sjúkraliðum. Það var ekki við neitt ráðið. Systur mínar voru á fimmta og ellefta aldursári, ég hafði verið einkabarn hálfa ævina og verið eilítið lengi að jafna mig á nýju hlutskipti er þær tóku að sér alla athyglina. Fáeinum dögum fyrir afmælisdag systur minnar, næstum ári eftir slysið, var ég útskrifaður af endurhæfingardeild landspítalans. Einskonar málamiðlun við ættingja. Foreldrarnir leiddu mig út undir örmum sínum en vissu vel að líf þeirra yrði aldrei samt við sig. Nú þyrfti að vaka yfir mér stundanna á milli. Ég var byrði á fjölskyldunni, svaf uppí með foreldrunum en hvergi var ég óhultur. Óvættirnar eltu mig hvert sem ég fór, ásóttu og kvöldu svo mér sveið af sársauka. Yfir öxlum fólksins hvíla skuggar og verur, en öllum virðist standa á sama nema mér, allir virðast blindir á hryllingsmyndirnar er málast í bakgrunn þeirrar ljósmyndar er guð hefur dregið fyrir augu okkar. Að lokum hafði skynjun mín á litum og formum að öllu leyti breyst, ég sá þar skýrar myrkar verur og svartar hulur. Vandist þeim með tíð og um síðir fór ég að skelfast minna þessar sýnir, lifði í þeirra veröld og vandist hryllingnum. Þær létu mig í friði framan af, kannski hefði þetta allt verið í lagi ef hún hefði ekki snúið aftur. Snúið til að sækja mig, svört veran, þekkt mig aftur og heimtað sálu mína sér til félagskapar um alla eilífð. Hún hvíslaði því að mér að hún hefði saknað mín, ég hafi horfið henni of lengi en nú yrðum við alltaf saman.

<br><br>

Ég yrti ekki á hana, kannski var þar mein. Ósætti er etjaði okkur saman. Ég sat stjarfur um morguninn í hjólastólnum, hreyfingarlaus að vanda og starði fram fyrir mig á stofuna þar sem kökur voru á borðum og skrautborðar lágu meðfram veggjunum. Blöðrurnar voru sex ára. Allt herbergið skreytt og eftirvænting í loftinu. Mamma var að baka köku allan morguninn, litla systir mín átti afmæli. Það var með komu fréttablaðsins að ég fann hvernig móðir mín fraus í skrefunum, skynjaði viðbjóðinn er fyllti hana, og svo var það símtalið. Þar var verið að spyrja um mig, það vissi ég. Hvar ég hefði verið á þeim tíma þegar morðið var framið. “Hann hefur verið hér, í guðanna bænum! Hreinn getur ekki einu sinni staðið í lappirnar!” öskraði móðir mín grátandi. Þetta var henni ofviða, falleg stúlkan mín bútuð niður og skilin eftir um alla íbúð, síðustu líkamsleifarnar fundust í þvottavélinni og á stofugolfið var nafn mitt ritað með blóði.
Það var því með þungum skrefum sem móðir mín undirbjó síðustu verkin fyrir veisluna. Hún gekk að mér og talaði til mín, þó hún efaðist um að ég heyrði í henni. Sagði mér að María kærastan mín hefði fundist dauð í íbúðinni sinni. Meira sagði hún ekki, nema það að lögreglan vildi fá mig upp á stöð á morgun til að yfirheyra mig. Ég sagði henni í huganum að hún ætti ekki að hafa af þessu áhyggjur, að ég elskaði hana. Allt myndi þetta fara vel að lokum.

<br><br>

En krakkarnir voru komnir. Það var enginn tími fyrir sorg. Hlaupandi um ærslafullir og kátir. Þeim var vísað til borðs og systir mín stóð á stólnum og blés á tertuna. Fimm kerti og það slokknaði á þeim. Bros hennar sólargeisli er litaði tilveruna. Það varð myrkur í lífi mínu eftir þetta. Móðir mín stóð fyrir aftan hana með frosið bros, með eldhúshnífinn á lofti tilbúin að skera sneið handa afmælisbarninu. Tíminn stöðvaðist. Það var sem hún væri víðsfjarri, rifinn af henni hnífurinn og þar þrýtur mér að mestu minni. Sé allt í ljóstrum, blossum minninga er verða samhengislausir að mestu. Ég græt og garga upphátt, en get mig hvergi hreyft. Ég er lamaður, haldið aftur meðan ég horfi á svarta veruna svífa yfir henni, rífa af henni hnífinn og renna eftir hálsinum. Höfuð hennar fellur með dynk á golfið en búkurinn lumpast ofan í parketið. Ég veit ekki hvort það hafi verið höfuðlaus móðir mín fallandi til jarðar eða ójarðnesk öskur úr viðjum mér, en krakkarnir grétu undir blóðugri sinfóníu myrkrahöfðingjans. Svört veran sveif um í takti hryllingsverksins og málaði blóð á blómadiskana. Óraunverulegt, svo ég var viss um að ég myndi vakna upp úr draumi, blóðið lak niður hvítan kjól systur minnar, svarthvít mynd sakleysis litast rauðum blóðslettum. Sker út dauðann á veggspjald, farkort mitt til eilífs vítiseldar. Tveimur tímum síðar var það ellefu ára systir mín sem kom að mér einum með líkum 13 ungabarna, og svo var það líka mamma. Ásóttur af dauða smástelpna hjúfra ég mig horfinn frá líkamanum og bíð aflausnar í dauðanum. Hnífurinn og járnblaðið og ég græt aleinn í myrkrinu.