Guðmundur. Ég hef alltaf liðið fyrir það að heita Guðmundur. Þó það hafi aldrei verið beint sagt við mig þá veit ég það. Allur heimurinn er að vinna að einhverju plani, að koma illa fram við mig, að láta mér líða illa, bara því ég heiti Guðmundur Dór Guðmundsson. Ég get ekki séð neina aðra skýringu á þessu.
Að vera næturhrafn er spes. Ég sé það á augnliti afgreiðslustúlkunnar að hún vill ekki fá okkur næturhrafnana inní búðina. Hún vill eflaust vera í friði, lesa tískublaðið sitt á næturvakt og vorkenna sér fyrir að eiga svona bágt.
689 krónur.
Andúð hennar í minn garð hefur tekið öll völd á mér, ég skjálfa af hræðslu. Loftið hér inni veitir mér ekkert súrefni, ekki meðan litla vonda afgreiðslustúlkan dælir hatri út í loftið. Slæm orka.
Næturhrafn númer 2 setur pressu á mig með því að henda öllum vörunum sínum á borðið. Missi þúsundkallinn á gólfið. Vandræðalegt. Vandræðalegi Guðmundur, kannski ekki skrýtið að allur heimurinn sé á móti mér. Ætli afgreiðslustúlkan stjórni þessu? ætli hún sé guð? djöfullinn? kona! ætli….
311 krónur, gjörðu svo vel.
aahhehh já takk. Bros. Fæ augnaráð. Brosti ég til hennar? ó nei af hverju var ég að því, nú er planið komið á nýtt stig: DING! Drepa sálina í Guðmundi með leiðindum og dónaskap, svikum og hatri. stig 67.
Er lífið það sama og dauðinn eða andstæðan? og hvað nákvæmlega er lífið? að vera maður? að vera kona? að vera til, að vera í líkama, að vera sorgmæddur í jarðarför, að hrapa í poll á reiðhjóli, að þurrka rigninguna, að dansa, að vera dáinn að innan en lifandi að utan, er það lífið? hvernig er þá dauðinn? andstæðan? hljómar vel.
Í draumum mínum er lífið öðruvísi. Mig dreymir oft sama drauminn. Ég sit á götunni, á miðri götunni og allur heimurinn er að horfa á mig. Það sjá mig allir en samt er ég týndur, því þannig líður mér í draumnum, ég skammast mín fyrir að vera ég en samt líður mér eins og sé týndur.
Núna þegar ég er að fara gera það sem ég er að fara gera get ég ekki annað en litið tilbaka. Minningar, um barnæskuna, um mömmu mína. Móðir mín er látin. Faðir minn er ekki til. Ég hef aldrei séð hann og aldrei reynt að finna hann. Ég hef verið of upptekinn í því að finna sjálfan mig. Svo sé ég heldur enga ástæðu til þess að vekja upp eitthvað sem er látið. Hann er bara hlutur sem er þar en ég sé ekki. Eitthvað sem ég heyri en er ekki þar.
Nú er ég kominn að krossgötum. Nú er tími til að snúa taflinu við. Klettur. Sjórinn. Ískaldur raunveruleikinn eða heillandi dauðinn? Bless ískaldi raunveruleiki. Bless heillandi dauði. Nú liggur leiðin heim, ég er að fara heim að sofa.
Já.
Halló heimur. Ég heiti Guðmundur og ég er næturhrafn. Þegar ég vakna á morgun mun ég finna tilgangs lífsins. Ég verð ekki lengur næturhrafn, á morgun verð ég venjulegur. Góða nótt.