Hann leyfir maríjúana lyktinni að umkringja sig, slakar á og lokar augunum í smá stund. Doberman hundurinn sefur í sófanum að vana, rokkið er á fóninum. Hér líður honum vel, hér finnst honum ekkert hefta frelsi sitt.

Af veggnum starir stór og ógurlegur dreki grimmdar augum á hann. Stundum, þegar hann situr þarna og horfir á vegginn, finnst honum eins og hann sé drekinn. Hann gerir það sem hann vill, svífst einskis. Samt er hann bundinn, bundinn af undirheimum Reykjavíkur.

Hann tekur upp sígarettu og kveikir sér í henni. Djöfull finnst honum heimskulegt núna hvernig þetta byrjaði allt saman. Þau höfðu átt heima erlendis, hann og pabbi sinn og mamma. Þau þrjú. Hann man eftir flugeldunum sem pabbi hans hafði selt og vatnsrúminu sem litli drengurinn hafði skorið gat á.

Af hverju hafði hann endað hérna? Þegar þau fluttu til Íslands, það var þá sem þetta fór allt að versna. Pabbi hans drakk og mamma hans dópaði, leikföng níu ára barns voru sígarettur. Á menntastofnun hverfisins gilti frumskógarlögmálið, hann var stöðugt lagður í einelti. Honum leið ekki vel í skólanum, honum leið ekki vel heima hjá sér. Hann ráfaði um göturnar, einn.

Svo kom verslunarmannahelgin um aldarmótin. Þá hafði lífið breyst. Þá hafði ellefu ára drengur kynnst sælunni. Hann þurfti ekki að finna sársaukann í sálinni lengur, hann gat gleymt honum í furðuheimi hassins. Skólinn gat allt í einu verið nokkuð skemmtilegur, ef hann reykti bara nóg áður en hann fór. Samt fór hann ekki alltaf, hann gat nokkurn veginn gert það sem hann vildi.

Tvö ár liðu en hann tók varla eftir þeim, vissi bara að tíminn leið. Síðan komu barnavernd, þunglyndisgreining og meðferð. Meðferðin tók tvö ár. Tveimur árum sóað til einskis.

Auðvitað voru ekki til peningar þegar hann kom út en auðvitað gat hann fengið lán. Þannig er það alltaf, það er alltaf hægt að fá lán. Skuldin stækkaði og unglingurinn dópaði. Allt seljanlegt hvarf úr bílum, fólk var rænt fyrir utan hraðbanka. Af hverju?

Síðan gekk hún inn í líf hans. Hún, þessi yndislega vera. Hún sveif um eins og dúfa himnaríkis- beint framhjá honum. Auðvitað vildi hún ekki umgangast vesælan þjóf og dópista. Auðvitað ekki.

Þá hafði ungur maður sest niður og hugsað. Svo hafði hann fundið það, lausnina. Hann hætti að reykja gras í nokkra daga, og viti menn! Stúlkan leit á hann, varð jafnvel vingjarnleg. En vaninn er vondur djöfull, eftir nokkrar vikur gat hann ekki meir og datt aftur í það.

Samt var það ekki gott lengur. Nú vissi hann hvað hann gat án dópsins, hvað það var gott að vera laus við það. Hann hætti aftur og hefur ekki reykt hass síðan, þótt hann sitji hérna í greni eins af stærri dópsölum Reykjavíkur.

Á veggnum á móti drekanum er mynd af leikkonu, svona leikkonu sem hefur eflaust leikið í mörgum svart-hvítum myndum.

Þegar hann hafði hætt í hassinu hafði kynþörfin aukist mikið. Hann gerðist bæjarhóra, reið öllum sem hann komst upp á. En gellan hafði sagt nei við því líka, þessi dúfa himnaríkis hafði fulla stjórn á honum. Svo flutti hún og eignast nýja vini. Hann hittir hana sjaldan núna. Lífið er víst ekki eins og í bíómyndunum

Hann drepur í stubbnum. Það hefur margt breyst síðan hann reykti fyrstu sígarettuna sína. Lífið er betra núna. Mamma hans eignaðist annað barn og pabbi hans flutti út. Honum líður ágætlega heima hjá sér þessa dagana. Hann er enginn engill, langt því frá. Hann gæti samt átt framtíð, hver veit?


Sönn saga.