BSÍ
Hérna sit ég á BSÍ,umferðamiðstöðinni, þar sem flóra landsins safnast ómeðvitað saman og fær sér hádegismat. Hérna fæ ég Ísland beint í æð.
Loftið er svo framandi hérna inni…fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins njóta sömu augnablikanna í matsalnum á BSÍ. Tveimur borðum frá mér situr útigangsmaður, með grá, sorgleg og gömul augu. Mér finnst eins og hann sé að biðja mig um að breiða sængina yfir sig, bara einu sinni, að geta sofið undir hlýrri sæng, í hlýju rúmi með einhvern sem þykir vænt um sig. En hann veit að það á aldrei eftir að gerast. Hann á eftir að deyja aleinn, úti í kuldanum og enginn á eftir að sakna hans.
Tveir menn á borðinu við hliðina á mér eru að tala um að það ætti að skjóta hunda sem ganga lausir. Þetta eru tveir miðaldra menn, einn gráhærður, hinn með skalla. Sá með skallann segist glaður mundi skjóta öll helvítis hundskvikindin, og hann hlær. Samt er eitthvað svo falskt við hláturinn hans, eins og hann sé með samviskubit yfir einhverju.
Á borðinu í horninu situr kona. Hún er að naga neglurnar. Hún er bólgin í framan og skelfur eittlítið. Við hvert einasta óvænta hljóð hrekkur hún við. Hún er hrædd við eitthvað eða einhvern.
Þetta er allt svo magnað og stórbrotið. Hér mætast andstæður, ríkir og fátækir. Maðurinn ská á móti mér er að reykja vindil, eftir stóra og dýra máltíð. Hann er í glansandi skóm sem líta út eins og hann hafi keypt þá í morgun, kannski á hann endalaust af nýjum skópörum heima hjá sér og fer í nýja á hverjum degi! Hann lítur þannig út! Hann er svona 55 ára, í jakkafötum sem bera vott af yfirlæti. Og klippingin er dæmigerð uppaklipping. Og hann er bersýnilega nýklipptur, það er ekki að spyrja að því. En það er samt eins og eitthvað sé að angra hann. Núna segist hann vera að fara til Akureyrar að kíkja á 280 fm húsnæði, sem er í sjálfu sér ekkert svo stórt segir´ann.
Hinumegin sitja þrír spekingar, voðalega spes einstaklingar. Eins og klipptir út úr Englum Alheimsins, kannski eru þetta Englar Alheimsins!! Hliðstæður hins “heilbrigða” sjálfs. Lifa í annarri vídd. Þeir eiga ekki mikið, en eru ánægðir vegna þess að þeim finnst þeir vera dæmigerðir hér inni, ekkert öðruvísi.
Sígarettureykurinn hérna inni fer alls ekkert í taugarnar á mér, því ég veit að fólkið sem situr hérna er að reyna að gleyma einhverju. Kannski sjálfu sér.
Ég tek ofan fyrir fólkinu sem hefur setið hér í algleymingi og fólkinu sem á eftir að sitja hér. Þetta eru allt saman hetjur, hetjur hversdagsins, hetjur tilgangsleysisins.
“Leið 21 til Grindavíkur
Leið 21 til Grindavíkur
Farþegar á leið til Grindavíkur, vinsamlegast gangið út í rútu, ég endurtek, vinsamlegast gangið út í rútu.”