Erla lá í hvítu rúminu á sjúkrahúsinu. Hárlaus kollurinn hvíldi á mjúkum koddanum.
Hún hafði haft sítt, dökkt hár áður en hún fékk krabbameinið og fór í allar aðgerðirnar.
Hjá rúminu sat fjölskylda Erlu, mamma, pabbi og systur hennar tvær.
Öll voru þau með tárin í augunum, nema Erla. Yfir andliti hennar var undarlegur friður.
Þau vissu öll hvert stefndi, en þau sögðu ekki orð. Það var ekkert eftir ósagt.
Erla opnaði munninn og sagði hás:
“Ég elska ykkur öll og ég mun alltaf vera með ykkur.”
Síðan lygndi hún aftur augunum. Erla var dáin.
Lítil sál sveif upp við loftið. Enginn gat séð hana, en þó var hún svo full af minningum, hugsunum og tilfinningum Erlu.
Við rúmið grét fjölskylda Erlu, en sálin stoppaði ekki lengi.
Hún sveif út um rifu á glugga á sjúkrahúsinu og út í bjartan sumardaginn.
Þar breytti litla sálin um form. Hún var ekki lengur ósýnileg, hún var í lögun lítillar maríuerlu.
Maríuerla var fugl sem Erla hafði alltaf haft gaman að. Þær voru litlar, grannar, fullar af lífi og leik, rétt eins og Erla. En litla, svarthvíta maríuerlan lék sér ekki lengi, heldur hóf hún sig á flug. Hún flaug hærra og hærra upp í ljósbláan sumarhimininn. Hún þreyttist ekki, heldur hélt hún áfram að fljúga. Hún var komin nógu hátt. Allt í einu var litla maríuerlan böðuð björtu ljósi.
Erla var stödd í stórum garði. Í kringum hana voru há tré, rósir í blóma og tjörn þar sem endur syntu um. Hún snerti höfuð sitt og fann að allt svarta hárið var komið aftur og líkami hennar var fullur af orku. Erla vissi að hún var í Himnaríki. Hún sá margt fólk og dásamlegt umhverfi, en hún skoðaði sig ekki um. Því það eina sem hún hugsaði um var að fá að sjá ömmu sína.
Hún sá hana labba á móti sér. Þær ljómuðu báðar og Erla hljóp til ömmu sinnar og faðmaði hana. Þó að Erla saknaði fjölskyldu sinnar, vissi hún að einhvern daginn fengi hún að sjá þau aftur.
Erla var virkilega hamingjusöm þegar hún gekk með ömmu sinni inn í sólarlagið.
Þetta er mín fyrsta smásaga hér. Endilega gagnrýnið.