Ég keppti fyrir stuttu í smásögukeppni Kópavogs með þessa sögu. Keppnin var fyrir 8-10 bekk og var haldin af Rótarý-klúbbi Kópavogs. Sagan átti að vera 1-3 bls og átti að gerast í Kópavoginum. Mér tókst að vinna og hér er sagan sem ég skrifaði:
Ískaldur vindurinn blés snjónum kvikindislega framan í þá fáu sem hættu sér út og blés alltaf upp á móti áttinni sem að maður gekk í. Kópavogurinn leit hálf dapurlega út, allur svona hvítur og kaldur. Snjómokarar höfðu gert hetjulega tilraun til að rýma gangstéttirnar en allt kom fyrir ekki, snjórinn var kominn til að vera. Himininn var dökkur og drungalegur þó að klukkan væri varla orðin fjögur.
Allt í einu rauf örvæntingarfullt bremsuhljóð þögnina. Næstu mínutur greip ofsahræðsla um sig. Það var hringt á sjúkrabíl og fólk hljóp út til að athuga hvað hafði gerst.
Þeir sem að ekki fréttu að harmleiknum frá vinum eða ættingjum eða voru vitni að honum sjálfir heyrðu um hann í sjöfréttunum: “Hræðilegt bílslys varð í Kópavoginum nálægt Hjallahverfunum. Maður á jeppa á 130 kílómetra hraða keyrði á fólksbíl. Í fólksbílnum voru fimm manns, einn fullorðinn og fjórir unglingar. Allir dóu.”
Seinasta setningin var aðeins tvö orð en engu að síður vakti hún óhug og grátur hjá flestum. Allir sem þekktu fjölskyldur fórnarlambanna þyrptust til þeirra, fullir af samúð.
En það var ekki sagt frá því að baksýnisspegillinn úr fólksbílnum brotnaði og lenti í ennina á vegfaranda. Hún skipti minna máli, hún lifði af. Enginn pældi í því að þessi atburður hafi skorið mun stærra sár í sál hennar en baksýnisspegillinn gerði á enn hennar.
Og þess vegna verður hún aðalviðfangsefnið í þessari sögu.
Margrét, Dagný, Sonja, Erna og Rósa lágu í sófunum heima hjá Sonju og gláptu út um gluggann.
“Ekki séns að við göngum upp í HK-húsið í þessu veðri,” sagði Erna og lokaði glugganum.
“Pabbi er að fara að koma heim,” sagði Sonja. “Kannski getur hann keyrt okkur.”
“Æi nei stelpur,” sagði Margrét. “Það er bara pláss fyrir fjórar af okkur í bílnum og þá þarf ein að ganga.
”Þá bara greyið hún,“ sagði Rósa og stóð upp.
Margréti langaði að mótmæla. Alltaf byrjaði Rósa með einhvern kjaft. Ein þeirra þyrfti að ganga og Margrét vissi að það yrði pottþétt hún. Hún var alltaf sú sem þurfti að fórna sér í einu og öllu bara út af því að hún var ekki jafn frek og hinar.
Hár skellur í útidyrahurðinni reif Margréti frá hatursfullum hugsunum sínum.
”Sonja mín, ertu heima?“ heyrðist pabbi hennar kalla úr forstofunni.
”Nei, ég er ekki heima,“ sagði Sonja stríðnislega og hljóp niður.
Stelpurnar heyrði ekki hvað þeim feðginum fór á milli en vissu að pabbi Sonju myndi láta undan. Sonja var einkabarn, augasteinn foreldra sinna og allt sem hún gerði var gott í þeirra augum.
Stundum varð Margrét dálítið öfundsjúk út í Sonju. Hún sjálf átti fimm systkini og enginn í fjölskyldunni var svo mikið sem búinn að taka eftir því að hún var orðin unglingur.
Sonja kom hlaupandi upp með bros á vör.
”Stelpur, við fáum far!“ hálfhrópaði hún og brosti.
Margrét renndi úlpunni lengra upp og setti húfuna betur yfir eyrun. Engu að síður blés ískaldur vindurinn svo kröftuglega að hún skalf af kulda. Hún skalf líka af reiði. Þegar þær voru að fara vonaðist hún til að ein af stelpunum myndi bjóðast til að ganga svo að hún fengi að sleppa við að vera neðst í forgangsröðinni í fyrsta skiptið.
En nei, stelpurnar tróðust bara allar inn í bílinn og svo kom Rósa með sinn kjaft aftur:
”Eins og ég sagði bara greyið sá sem er ekki nógu fljótur.“
Margrét og Sonja höfðu verið bestu vinkonur heimi þangað til að Rósa kom í bekkinn. Þá var eins og hún hefði stolið Sonju og gert hana að leiðinlegri gelgju. Dagný og Erna höfðu líka verið venjulegar, skemmtilegar stelpur en núna gekk grínið alltaf út á það að niðurlægja einhvern eða baktala.
Ef Rósa hefði aldrei komið í skólann sæti Margrét líklega núna við hliðina á Sonju á leiðinni á handboltaæfingu.
Leiðin frá Smáranum upp í HK-húsið var löng. Margrét hljóp alla leiðina upp að Hjallahverfinu en þar varð hún að stoppa til að anda í smá stund. Kalt loftið skar í hálsinn þannig að hún byrjaði að tárast. Hún leit upp og sá bláa Volfswagen Golf bílinn og stelpurnar veifa henni. Heppnu tæfur! Hún ætlaði ekki að hugsa þetta en þetta skaust bara skyndilega upp í huga hennar.
Hún lokaði augunum og þurrkaði tárin í burtu. Hræðilegt bremsuhljóð sem skar í eyrun heyrðist. Margrét leit upp.
Volfswagen-bíllinn bremsaði svo harkalega að gúmmíið í dekkjunum tættist upp. Á móti honum kom grár jeppi brunandi. Margrét trúði ekki eigin augum. Það var líkt og hún væri að horfa á þetta í sjónvarpi og væri að spila þetta hægt. Jeppinn skall á Volfswagen-bílnum og glerbrot þeyttust út um allt. Óhugnalegt hljóð heyrðist þegar járnið í bílnum beyglaðist í bland við öskur farþeganna.
Margréti langaði að öskra en það var líkt og ísköld hönd hefði gripið um hjarta hennar þannig að hún kom ekki upp hljóði.
Það seinasta sem að hún sá var partur af baksýnisspegli sem kom fljúgandi í áttina til hennar. Eftir það sortnaði henni fyrir augun og hún féll á snjóhvíta jörðina sem að brátt litaðist rauð.
Fólk kom hlaupandi. Andköf, öskur og örvæntingarfullur grátur blönduðust saman en allt í einu varð dauðaþögn. Meira að segja vindurinn þagnaði og það lægði. Gervöll veröldin hélt niðri í sér andanum til að votta hinum föllnu virðingu sína.
Margrét lokaði augunum eins fast og hún gat. Hún gerði þetta nokkrum sinnum en í hvert skipti sem að hún opnaði þau aftur blasti við henni hvítmáluð sjúkrastofan. Hún vissi allt en samt trúði hún því ekki. Sonja, Dagný, Erna og Rósa -allar dánar. Líka pabbi Sonju og ökumaður jeppans.
Margrét hataði alla þessa stundina. Ökumann jeppans fyrir að hafa keyrt allt of hratt, Sonju fyrir að detta í hug að spurja pabba sinn hvort hann gæti keyrt þær og Ernu, Rósu og Dagnýju fyrir að hafa sest upp í bílinn. En mest hataði hún þó sjálfa sig fyrir að hafa verið sú eina sem lifði þetta ógeðslega slys af. Hún hafði augljóslega fengið einhverja blessun eða verndun af einhverju tagi. Eitthvað sem að dauðinn og djöfullinn sáu og létu hana lifa. En hvað var það?
”EKKI NEITT!“ öskraði Margrét eins hátt og lungun leyfðu. Hana langaði að gráta, grenja og hnipra sig saman eins og lítið barn.
En það komu engin tár. Hún var frosin. Kalda krumlan sem hafði gripið um hjarta hennar þegar hún varð vitni að bílslysinu var þarna ennþá og frysti hana tilfiningalega.
Líkami hennar var á lífi en hún var jafn dauð að innan og hin fórnarlömb harmleiksins.
Baksýnisspegillinn sem lenti í enn Margrétar skyldi eftir sig ljótt sár og það tók marga klukkutíma að draga brotin af honum úr.
En sárið í sálinni greri ekki og Margréti leið eins og það væri fullt af glerbrotum í hvert skipti sem að hún mætti í skólann eða gekk um hverfið.
Alltaf blasti við henni sama staðreyndin. Stelpurnar voru dánar.
Í hvert skipti sem að hún mundi eftir því að þær voru dánar langaði henni að gráta og hnipra sig saman. En ísköld krumlan hélt enn heljartaki um hjarta hennar og virtist ekki ætla að sleppa. Margrét þráði að gleyma en óttaðist mest að vakna og muna.
Verst var að núna, þegar hún þurfti meira en nokkru sinni fyrr á stuðningi að halda var eins og hún væri ósýnilegri en áður. Annað hvort sá fólk hana ekki eða leit á hana með djúpri vorkunn. Henni leið eins og hún væri ekki partur af fjölskyldunni sinni. Hún hafði fjarlægst þau með árunum en slysið hafði rifið hana endanlega burt frá þeim.
Hún var ekki mennst lengur, bara einhver vofa sem sveimaði um og hræddi alla sem hún kom nálægt.
Þremur vikum eftir slysið var hún á leiðinni á handboltaæfingu. Henni hafði verið bannað það því að sárið á enninu var enn að jafna sig en henni var alveg sama.
Hún var komin upp að Hjallahverfinu.
Lítill, hvítur kross var skammt frá þar sem slysið hafði verið. ”Til minningar um Sonju, Rósu, Dagnýju og Ernu, hvíli þær í friði" var áletrað með gullnum stöfum á hann.
Skyndilega var eins og allt brysti. Ísköld krumlan sleppti takinu á hjarta hennar svo harkalega að hún tók andköf, bæði af létti og hræðslu.
Öll sorgin og reiðin blönduðust tárum sem láku úr augum Margrétar og hún náði varla andanum fyrir ekkasogum.
Sonja, Dagný og Erna, bestu vinkonur Margrétar voru dánar. Rósa, stelpan sem Margrét hafði hatað svo innilega hafði bjargað lífi hennar með frekjunni í sér og kjaftinum.
Í smá stund var eins og það birti smáveigis. Það gerðist ekki, himininn var jafn dökkur og hann hafði verið síðastliðna mánuði. En Margréti leið eins og lítill sólargeisli brytist út úr þessum þungbúnu skýjum og lýsti upp leiði stelpnanna fjögurra.
Að lokum voru tárin búin og Margrét var orðin of hás til að geta kjökrað meira. Hún þurrkaði sér í framan, stóð upp og leit á krossinn. Það var far eftir staðinn sem að hún hafði grátið því að tárin höfðu brætt þykkann snjóinn.
Hún gekk í burtu, léttstíg og mun hamingjusamari en hún hafði verið lengi.
Stelpurnar voru dánar en þær hefðu viljað að hún lifði sínu lífi og gleymdi sorginni. Auðvitað hyrfi sorgin aldrei algjörlega en þetta var allt spurning um hugarfar. Hún hugsaði um seinasta sumar og hvað það hafði verið gaman í afmælinu hennar Sonju.
Bara þær, vinkonurnar fimm höfðu verið þarna og gamanið stóð fram á nótt.
Þessi minning og býsna margar fleiri góðar hlýjuðu henni um hjartarætur og byrjuðu að lækna sárið ógurlega sem köld höndin hafði gert á hjarta hennar.
Það snjóaði í um viku í viðbót en þá byrjaði að vora og snjórinn bráðnaði. Löngu tímabært, enda var mars að vera búinn.
Alla seinustu vikuna sem snjónum kyngdi niður snjóaði aldrei yfir farið sem tár Margrétar höfðu myndað.
Til heiðurs hinum föllnu.