Ég er á næturvakt þar sem er helst lítið að gera og ákvað því að reyna að skrifa eina smásögu fyrir hverja vakt. Byrjaði á þessari fyrir réttum klukkutíma og þetta er það sem ég er kominn með núna. Endilega hafði það í huga þegar þið lesið hana en rífið hana samt í sundur með gagnrýni því það er það sem maður þarf.




Þú stendur í sandinum, í flæðarmálinu og horfir á sjóndeildarhringinn. Finnur fyrir sjónum gæla við iljarnar á þér og hvernig þú sekkur ofan í sandinn. Þú smellir upp boxinu og tekur tvær Zoloft.
Sjá einnig : Seról
Sjá einnig : Rimarix
Andar léttar eftir að hafa kyngt þeim báðum í einu, áður en þú manst að þú hefur ekki náð honum upp síðan þú byrjaðir á lyfjunum.
Sjá einnig : Munnþurrk
Sjá einnig : Hárlos.
Þú stendur í sandinum og sekkur dýpra og dýpra niður í hann. Það er ekkert sem getur stöðvað þig í að sökkva neðar, það er ekkert sem grípur þig, ekkert sem tekur á móti þér. Þú manst eftir því þegar þér var haldið uppi, þegar einhver tók á móti þér. Þegar systir þín hélt þér í fanginu og sneri þér hring eftir hring í garðinum. Þegar þú brostir til hennar og hlóst barnalegum hlátri og skríktir. Þegar hún missti þig niður á jörðina en tók þig strax aftur upp og huggaði. Öryggi. Ást. En núna stendurðu fyrir framan sjóndeildarhringinn og þú veist hvað er næst á dagskrá. Veist að þú vilt vera elskaður. Þegar þú varst hérna seinast lástu í ströndinni með stelpunni þinni og þið hlóguð að hvor öðru. Hlóguð að því hvað þið voruð miklir ástfangnir kjánar. Hlóguð að því hvað ekkert annað skipti máli. Þið hélduð hvor öðru uppi, þið sukkuð ekki niður í sandinn. Þú manst næst þegar þú hljópst út í sjóinn og ætlaðir að veifa til hennar frá baujunni. Þú ætlaðir að veifa til hennar og hlæja. Þú gast ekki synt alla leið, fékkst salt í augun og fylltir munninn af sjó, fékkst krampa í fótinn, misstir andann.
Sjá einnig : Andlát
Sjá einnig : Himnaríki
Næst þegar þú manst eftir þér lástu í sandinum og bráðaliðinn var að blása í þig lífi. Þú hóstaðir og opnaðir augun. Þú ældir upp sjó og galli en hún kyssti þig samt, kyssti þig og sagðist elska þig. Þú gast ekki sagt neitt en hún sá allt í augunum á þér. Hún sá þau glitra og hversu vænt þér þótti um hana. Hversu heitt. Þetta var það besta sem þú hefur upplifað. Þótt þú hafir dáið og séð himnaríki. Svo manstu þegar þið fluttuð inn saman, hlóguð saman, elskuðust saman. Þú manst líka þegar þið byrjuðuð að fjarlægast. Hættuð að hlæja, hættuð að elskast, hættuð að horfa, hættuð að snerta.
Sjá einnig : Framhjáhald.
Sjá einnig : Besti vinur þinn.
Þú öskraðir, hún grét, þú grést, hún sótti ferðatösku og næst heyrðirðu af henni með tvö börn og sex hunda. Þér leið eins og hún hefði slitið úr þér hjartað og gefið hundunum það í morgunmat.
Sjá einnig : Hádegismat
Og núna stendur þú fyrir framan sjóndeildarhringinn og þú veist hvað er næst á dagskrá. Þú vilt vera elskaður. Vilt ekki gleymast. Þú syndir í átt að gömlu baujunni til þess að veifa í átt að stelpunni þinni. Veifa henni og brosa í áttina til hennar. Þú veist þú færð krampa á leiðinni og að þú munt sökkva í sjóinn. Sökkva í sjóinn og falla í dá. Þegar þú vaknar aftur mun hún svo taka á móti þér í sandinum, kyssa þig á kynnina og segjast aldrei ætla að fara frá þér aftur. Þegar þú ætlar að segja henni hvað hún sé falleg, segir hún þér að segja ekkert, segir að allt sé í lagi og að hún elski þig. Þér er svo annt um hana. En þegar þú vaknar liggurðu aleinn á ströndinni, aldann skolaði þér á land. Þú hóstar og ælir upp sjó og galli og býður eftir stelpunni þinni, býður eftir henni til þess að stökkvi á þig og faðma þig. Býður eftir því að fá að hlæja með henni. En hún kemur ekki, hún á aldrei eftir að koma, þú veist það og þú finnur það um leið og þú sekkur dýpra og dýpra ofan í sandinn.