Bifreið nam staðar við gangstéttarbrún, og úr honum stigu þrír garpar, hver með eina tösku. Þeir voru staddir í fínu miðstéttarhverfi sem var úr alfaraleið. Þeir litu vel í kringum sig og gengu rösklega upp götuna. Þó sólin væri enn lágt á lofti, voru fáar manneskjur á ferli.
Garparnir námu staðar hjá á banka einum, og handan við götuna var ríkmannlegt hótel. Nokkrir leigubílar stóðu auðir fyrir framan það, en bílstjórarnir sátu við borð rétt hjá og spiluðu rommí, en þeir veittu görpunum þremur enga athygli.
Áður en garparnir gengu inn í bankann opnuðu þeir töskurnar, settu lambhúshettu á höfuð sín og tóku upp byssur. Þeir litu aftur á leigubílstjórana, til þess að tryggja að þeir fylgdust ekki með þeim, en hurfu svo inn í bankann.
Ránið sjálft gekk snurðulaust fyrir sig. Starfsmenn bankans voru óvanir vopnuðum ránum og gátu ekki annað gert en gefið görpunum það sem þeir báðu um. Í bankanum var aðeins einn öryggisvörður, en hann var aldraður mjög og nánast blindur. Garparnir þrír fylltu því töskurnar af peningaseðlum og gengu út. Þeir höfðu ákveðið að ganga beint niður götuna og láta sig hverfa með hjálp fararskjótans sem þeir höfðu komið á, en fengu betri hugmynd.
- - -
Bandaríkjamaðurinn ætlaði aftur til höfuðborgarinnar – hann hafði upplifað ósvikna menningu nægilega lengi, og saknaði stranda höfuðborgarinnar, sem voru þær bestu í álfunni. Hann hafði nægan tíma til þess að koma sér á flugvöllinn, og gekk því í skugga um að hann væri með allt. Peningaveskið var í öðrum buxnavasanum og vegabréfið í hinum. Flest annað geymdi hann í stórri ferðatösku. Hann tók úrið sitt, sem kostað hafði morðfjár, upp af náttborðinu og festi örugglega á úlnliðinn.
Hann sá leigubílanna sem stóðu auðir fyrir framan hótelið, en leit því næst til bílstjóranna þar sem þeir sátu við borðið, einbeittir á svip. Hann kallaði til þeirra, og sá sem fremsta leigubílinn átti stóð upp og gekk rólega í átt að Bandaríkjamanninum. Bílstjórinn setti ferðatöskuna í skottið en settist sjálfur í bílstjórasætið. Bandaríkjamaðurinn kom sér fyrir í aftursætinu.
Er leigubíllinn var í þann mund að fara af stað sá Bandaríkjamaðurinn þrjá grímuklædda menn nálgast óðfluga. Einn þeirra settist í framsætið, beindi byssu að leigubílstjóranum og hreytti einhverju út úr sér. Hinir tveir köstuðu töskunum þremur í skottið og settust sitt hvoru megin við Bandaríkjamanninn.
Á augabragði var bíllinn kominn á fleygiferð og garparnir þrír með grímurnar fögnuðu ákaft. Bandaríkjamaðurinn hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast. Hann snéri sér við og sá leigubílstjórana einbeitta á svip, spilandi.
- - -
„Hvern fjárann eigum við að gera við Kanann,“ spurði Carlos. Hann sat vinstra megin við Bandaríkjamanninn.
„Drepum hann bara,“ svaraði Nelson, og hló. Hann leit til vinstri á Bandaríkjamanninn, sem skildi bersýnilega ekki portúgölsku. „Fjandans ferðamenn, þeir eru heimskari en naut.“
„Nei, ég vil engar blóðsúthellingar í þessum bíl,“ sagði Ricardo rólega, og hallaði sér aftur í framsætinu. „Bílstjórinn yrði ekki ánægður með það.“ Hann horfði glottandi á leigubílstjórann. „Við afklæðum hann bara og skiljum eftir fyrir utan borgina. Hann lifir ekki lengi í hitanum.“ Ricardo skrúfaði niður rúðuna, leit út og sá sólina nánast beint fyrir ofan sig.
Þeir voru komnir langt út fyrir borgarmörkin og sáu ekkert nema óspillta náttúruna. Carlos og Nelson rifu Bandaríkjamanninn fyrst úr sandölunum, og því næst úr buxunum, en það var vandasamt verk. Er þeir ætluðu að afhneppa skyrtuna sagði félagi þeirra „Nei, þetta er nóg, við þurfum að drífa okkur. Leyfum honum að halda fjandans skyrtunni.“ Hann leit á leigubílstjórann sem stöðvaði bílinn. Því næst hentu þeir Bandaríkjamanninum út og héldu áleiðis.
- - -
Bandaríkjamaðurinn sat við veginn og trúði varla því sem gerst hafði. Hitinn var að verða óbærilegur, og fór hann því úr skyrtunni og þurrkaði af sér svitann sem lak niður andlitið. Þá fyrst fór hann að hugsa um leið burt úr þessum fáranlegu aðstæðum.
Hann ákvað að bíða eftir næsta bíl sem var á leið til borginnar. Þar myndi hann selja úrið sitt, sem kostað hafði morðfjár, kaupa föt fyrir peninginn og finna sendiráðið. „Skynsamleg hugmynd,“ hugsaði hann.
Hann sat við veginn í dágóða stund eða alveg þangað til hann heyrði vélarhljóð. Hann hefði getað soðið pott af hrísgrjónum á meðan. Bandaríkjamaðurinn sá lítinn pallbíl nálgast, sem staðnæmdist að lokum fyrir framan hann. Ökumaðurinn, sem í raun var smákrakki, leit á hann en steinþagði. Á pallinum sátu gamlingjar tveir og kölluðu til hans. Annar þeirra sagði ekki orð, en hinn talaði ágæta ensku – þeir voru reiðubúnir til þess að hjálpa honum, en virtust ekki taka eftir því að hann var á nærbuxunum einum.
Á pallinum sá Bandaríkjamaðurinn alls kyns vörur. Nóg var af ávöxtum og grænmeti, en einnig stóð þar eldavél, riðguð vélsög og nokkrir heybaggar. Maðurinn leit á gamlingjana tvo. Báðir voru þeir dökkir á brún og grannir, en sá enskumælandi var heldur myndarlegri en hinn.
„Ég heiti Gilberto og þetta er félagi minn José. Barnið við stýrið er mállaus Indverjasonur,“ sagði gamlinginn á ensku, og brosti breitt. Á milli mannanna þriggja myndaðist fljótt ágætur vinskapur, og sagði Gilberto Bandaríkjamanninum frá ævintýrum félaganna tveggja. Hann nefndi einnig tungumál José. „Það tók mig langan tíma að skilja José. Tungumál manna hans er samsuða úr portúgölsku, spænsku, frönsku og tungumálum negranna.“
Bandaríkjamaðurinn trúði fæstu því sem Gilberto sagði, en spurði svo um aldur þeirra. „José er 130 ára gamall en sjálfur er ég 115,“ svaraði Gilberto. Bandaríkjamaðurinn hló, en Gilberto var ekki að fara með neina gamansögu. Þó móðgaðist hann ekki, og fór yfir í annað; hann spurði Bandaríkjamanninn hvaða erindi hann ætti í sveitina, með hvorki farangur né ljósmyndavél. Þá sagði Bandaríkjamaðurinn honum sögu sína og áætlun. Gilberto hlustaði af mikilli athygli. „Þú segir nokkuð,“ sagði hann svo, en kippti sér ekki upp við eitt einasta atriði er Bandaríkjamaðurinn nefndi.
Sólin var farin að síga og Bandaríkjamaðurinn geispaði, enda að niðurlotum kominn. Svo sofnaði hann. Þegar hann vaknaði voru þeir auðsjáanlega komnir inn fyrir borgarmörkin. Pallbíllinn hægði á sér og staðnæmdist hjá lítilli verslun. „Þarna ættirðu að geta selt gripinn þinn,“ sagði Gilberto. Bandaríkjamaðurinn þakkaði gamlingjunum innilega fyrir hjálpina og gekk inn í verslunina.
Er hann ætlaði að losa úrið sitt, sem kostað hafði morðfjár, til þess að sýna afgreiðslumanninum, sá hann að það var horfið. Hann hljóp út en sá pallbílinn hvergi. „Bölvaðir gamlingjar!“
- - -
Gilberto og José voru á leið til borgarinnar með ránfeng sem þeir hugðust selja. Sonur Indverjans keyrði hægt en örugglega, en gamlingjarnir tveir voru ekki á neinni hraðferð. Báðir voru þeir meira en hundrað ára gamlir og því vanir rólegu lífi.
Sólin var farin að brenna heybagga þeirra þegar José stóð upp og sá leigubíl nálgast. „Hvern fjárann er leigubíll frá borginni að gera hér,“ spurði hann og leit á Gilberto, sem vissi að sjálfsögðu ekki svarið við þeirri spurningu.
Rétt áður en bílarnir mættust hljóp göltur í veg fyrir pallbílinn. Sonur Indverjans var snöggur, en beygði af gáleysi í veg fyrir leigubílinn. Leigubílstjórinn var enn sneggri, svo bíllinn rétt slapp undan pallbílnum og fór út af veginum. Hann var hins vegar óheppinn, þar sem bíllinn keyrði beint á stórt og mikið tré.
Sonur Indverjans snarhemlaði og gamlingjarnir tveir gengu að gjöreyðilögðum leigubílnum. Auk bílstjórans sátu í honum þrír grímuklæddir menn, en enginn þeirra virtist hafa lifað af áreksturinn. Göltinn sáu þeir hvergi. José horfði á bílinn í dágóða stund. „Guð blessi þessa menn. Ef við finnum eitthvað nothæft í bílnum, hlýtur að minnsta kosti einhver góðs af þessu slysi.“ Gilberto kinkaði kolli.
Þeir földu peningatöskurnar þrjár á pallinum. Ein var inni í eldavélinni, en hinar tvær földu þeir undir ávaxtakörfunum. Ferðatöskuna geymdu þeir í framsætinu hjá syni Indverjans, og breiddu yfir hana lak. Svo héldu þeir áleiðis, og gerðu ekki hlé á ferðalaginu fyrr en þeir sáu hálfnakinn mann sem sat við veginn.