Ragnar beygði inn í litlu götuna, hann skoðaði fínu húsin með litlu grindverkunum í kring. Lítill garðálfur með öxi starði glottandi til hans, hann minnti Ragnar á brjálaðan axarmorðingja.
Bíllinn hélt áfram sinni hægu göngu niður götuna, hægt en örugglega nálgaðist hann húsið á endanum, áfangastaður dagsins.
Ragnar lagði bílnum á gangstéttarbrúninni fyrir utan húsið.
Þetta starf fór stundum illa í hann, ekki það að hún angraði samviskuna hans eitthvað mikið, gerði það fyrst en eftir nokkur skipti var hann orðinn vanur maður.
Nei, það var eitthvað annað, eitthvað sem hann var ekki enn búinn að komast að hvað væri.
Hann ákvað að byrja gera sig tilbúinn, hann byrjaði á því að ná í hanskana úr hanskahólfinu, þetta voru fínir leðurhanskar sem höfðu ætíð reynst honum vel.
Næst komu sólgleraugun, af einhverjum ástæðum fannst honum auðveldara að gera það sem gera þurfti með sólgleraugu á sér. Var ekki jafn persónulegt.
Að lokum dró hann upp verkfæri dagsins, eitt stykki svört, köld en glæsileg níu millimetra Beretta skammbyssa með hljóðdeyfi. Ítölsk hönnun, gæða vara. Ekkert alltof frumlegt en Ragnari var sama um allt slíkt.
Nú var hann nánast alveg reiðubúinn, þurfti bara að gera nokkrar öndunaræfingar og stíga svo út úr bílnum.
Ragnar stóð nú fyrir framan þetta fína hús. Það var samt ekki jafn fínt og viðskiptavinurinn hafði lýst, en kannski var það þannig áður fyrr en hafði bara orðið skítugra með árunum sökum vanrækslu. Skipti ekki öllu, ekki eins og Ragnar færi svo að selja hús mannsins sem bjó þar ennþá.
Nú stóð hann þarna klæddur svörtum jakkafötum. Svört jakkaföt, svört skyrta, svart bindi, svartir skór, svartir sokkar, svört sólgleraugu, hann var svo sannarlega drungalegur. Klæddur eins og Dauðinn sjálfur, viðeigandi, fannst honum, enda mikið fyrir svona smá listræn áhrif í daglegu lífi.
Það eina sem skemmdi fyrir var ljósa hárið á höfði hans, hann hafði íhugað að lita það svart en gerði aldrei neitt í því. Aldrei var hann framtakssamur maður, þetta fékk hann svo oft að heyra hjá mömmu sinni þegar hann var yngri.
Hann strauk sér svo rólega einu sinni um hárið en gekk svo af stað, kominn tími til að vinna.
——————–
Ekkert spes, ég veit. Vantar oft betri tengingar milli setninga, kann það ekki alveg nógu vel. Myndi vel þyggja góð ráð ef einhver hefur þau.