Hann er hræddur. Hann skelfur af hræðslu. Hann felur sig undir rúminu sínu. Í 30 daga hann sveltir sig næstum til dauða og deilir hörðu köldu gólfinu með ryki og rottum. Lítill sólargeisli finnur leið sína í gegnum skemmdar gardínur hans og lýsir upp andlit hans. Hann finnur styrk, hann stendur upp, hann finnur styrk á ný til að berjast fyrir lífi sínu. Hann finnur pillur á gólfinu, hann gleypir allar pillurnar, gular pillur með broskalli á, hann étur pillur í 3 daga. Rottuískrin sem eitt sinn voru bara venjuleg ískur í herberginu hafa breyst í raddir í höfði hans, raddir sem ganga næstum fram af honum. Hann öskrar í 4 daga, honum tekst að losna við raddirnar úr höfðinu sínu með öskrunum, honum fannst þær vera að éta heilann sinn. Hann brosir, hann dansar, í 6 daga dansar hann, hann lyftist uppá gólfinu og dansar útum allt herbergið, á sjötta degi hann fellur niður. Fallið er hart og hann fær skurð á ennið þegar hausinn skellur í kalt gólfið. Hann rotast, hann liggur í roti í 17 daga. Hann heyrir músík, hann heyrir trommutakt, gítar og bassa. Hann hreyfir hausinn, fram og aftur, í takt við músíkina, hann syngur með, hann er tilbúinn að stíga trylltan dans á ný. Músíkin hættir, hann fussar og svei-ar. Hann þagnar, hann sest niður á grænan stól. Hann sofnar á grænum stól. Hann sefur í 3 daga. Hann vaknar veikur, honum líður illa, hann veit að eitthvað er að, allur þessi styrkur sem hann fann fyrir áður er horfinn, það er eins og það hafi verið laminn allur kraftur úr honum. Hann gubbar blóði. Í 7 daga gubbar hann blóði.
Hann rífur sig upp úr blóðpollinum sem hafði myndast, hann nær að standa uppréttur en lappirnar hans eru við það að gefa sig og líkami hans er kaldur sem snjór. Fyrir framan hann er gamall maður, hann sér gamlan mann í gulum jogginggalla og með derhúfu, gamli maðurinn tekur utan um hann og gengur burt. Gamli maðurinn veitir honum styrk á ný. Hann lifnar allur við, tekur tvö dansspor og hoppar einu sinni hátt upp í loftið, til að fagna gleði sinni. Hann er staðráðinn í að ganga alla leið núna, hann skal sigra öll kvikindin í kringum sig, hann öskrar á rotturnar að hann skuli sýna þeim hver stjórni öllu hér. Hann breytist úr litum dreng í fullorðinn mann. Hann verður af manni, hann telur gamla manninn hafa hjálpað sér að þroskast.
Hann dregur upp nál og tvinna, hann saumar föt á sig, hann saumar í 16 daga. Hann setur á sig klæðin, kóngaklæðin. Hann er tilbúinn, hann hleypur af stað. Hann brýst með látum útúr herberginu vopnaður skærum, hann sveiflar skærunum hátt á loft og kallar lifi ég lifi ég. 4 menn í hvítum sloppum koma hlaupandi á móti honum, hann öskrar og öskrar, hann neitar að stoppa, hann er tæklaður niður en nær að koma útúr sér áður en hann er sprautaður niður að rotturnar séu að skipuleggja samsæri gegn sér.
Honum er hent inní einangrað herbergi, dyrnum er skellt og læst fyrir þær. Hann grætur í 16 daga. Á hádegi 17 dags deyr sál hans, sál hans deyr eins og gamall maður í elli sinni. Og allur sársaukinn deyr með sálinni, í 3 sekúndur áður en sál hans flýr burt finnur hann fyrir nýrri tilfinningu, í nokkur augnablik finnur hann fyrir völdum, sigurtilfinning.