Þegar Kristófer Santíago fæddist, gjörbreyttist lífið í þorpinu, en þar hafði ekki fæðst barn í heil tuttugu ár. Bæjarbúar héldu því stóra og mikla hátíð til heiðurs barninu.
Hátíðin stóð yfir í tuttugu daga. Á síðasta degi hennar lést móðir Kristófers, en menn komust aldrei að hvers vegna. Pedró Albert García, sem var læknir þorpsins og virtur af öllum íbúum þess, taldi líklegast að vesalings konan hefði drukkið einhvern fjanda og kafnað. Sólarhring eftir lát móður Kristófers lést faðir hans er hann var að temja eitursnák. Hins vegar var það eigi snákurinn sem beit manninn, heldur öfugt. Hvers vegna var mönnum hulin ráðgáta, en margir sögðu augljóst að greyið maðurinn hefði sturlast.
Pedró hafði verið góður vinur hjónanna og bauðst því til að taka við Kristófer. Árin liðu og Kristófer eldist og þroskaðist, og þegar hann fagnaði átján ára afmælinu sínu sást í fyrsta sinn að hann var gjörbreyttur maður. Kristófer hafði hvorki erft útlit föður síns né móður, en þau voru bæði kynblendingar, heldur var hann nánast eftirlíking af Pedró, sem auðsjáanlega átti rætur sínar að rekja til Spánar. En um það ræddu hvorki afmælisgestirnir né aðrir næstu fimm hundruð árin.
Sama ár var Kristófer kallaður til herþjónustu, og kom ekki aftur heim fyrr en tuttugu árum síðar; hann eyddi nokkrum mánuðum á hersjúkrahúsi á Spáni, en ferðaðist svo um gjörvallan heiminn, ýmist í slagtogi með sígaunum eða hirðingjum. Frá Spáni fór hann inn í hjarta Evrópu, suður til Ítalíu og Sikileyjar. Þaðan tók hann ferju til Afríku, ferðaðist yfir Sahara og hélt áfram niður að austurströnd Afríku. Þaðan sigldi hann norður til Arabíu. Hann fór yfir landsvæði bæði Araba og Persa, og niður til Indíalands. Þaðan gekk hann yfir Himalayafjöllin og til Kínaveldis, og gekk á Kínamúrnum austur til stranda. Því næst fór hann yfir Kyrrahafið og til meginlandsins, og svo heim í Karíbahafið.
Hann lenti í ótal ævintýrum og hlakkaði mjög til að geta sagt Pedró og öðrum íbúum þorpsins frá þeim. En sá draumur varð að engu, því á leið sinni heim í þorpið glataði Kristófer minningum síðustu tuttugu ára þegar ónytjungur henti í hann grjóthnullungi.
Íbúar þorpsins töldu Kristófer hafa sturlast í átökum og forðuðust hann, svo hann einangraðist gjörsamlega inni í sínu gamla herbergi heima hjá Pedró, sem hafði látist nokkrum árum fyrir heimkomu Kristófers. Þar lá hann í rúmi sínu og reyndi árangurslaust að rifja upp flakk sitt um heiminn og ævintýri.
- - -
Mánuðum síðar snéri Kristófer Santíago blaðinu við og ákvað að rekja slóð sína um jarðarkringluna og endurlifa minningar þær er glatast höfðu. Hann fór til höfuðborgarinnar í leit að vísbendingum um eigin ferðir, og þegar mánuður var liðinn hafði hann spurt nægilega marga að ábendingarnar voru óyggjandi. En þær náðu fáar lengra en eitt eða tvö ár aftur í tímann, og því neyddist Kristófer til þess að rekja ferðlag sitt í öfugri röð. Hann fór því með skipi vestur á meginlandið, þar sem hann hafði dvalið síðast. Hann hafði uppi á ófáu fólkinu sem vissi sitthvað um ferðalag hans og gjörðir, og því lá leið hans næst til Kínaveldis.
Kristófer fór vestur yfir Kínamúrinn, suður til Indíalands, yfir landsvæði Persa og niður skaga Arabanna. Þaðan tók hann ferju til austurhluta Afríku og ferðaðist norður yfir Sahara. Með ferju sigldi hann til Sikileyjar, fór norður í gegnum Ítalíu og inn í hjarta Evrópu. Þaðan lá leið hans til Spánar. Þangað hafði hann komið frá Karíbahafinu, til þess að vinna á hersjúkrahúsi, og því næst farið þá leið er hér var lýst, nema nákvæmalega öfuga.
Á ferðum sínum hitti Kristófer fjöldann allan af mönnum, konum, börnum, dýrum og ýmsum öðrum kvikindum, og öll hafði hann hitt nokkrum árum eða áratugum áður. Hann lenti einnig í sömu ævintýrunum og lærði upp á nýtt framandi tungumál, nema aðeins í öfugri röð. Það sem hins vegar vakti hjá honum mesta undrun voru þunganir þær er hann hafði valdið. Kristófer hafði dvalið í lengri tíma í tuttugu borgum, og í hverri þeirra hafði hann eignast einn son með innfæddri fegurðardís. Nú, þegar hann var að endurlifa ferðalagið, tók hann þá alla tuttugu með sér og heim í Karíbahafið.
Yngsta soninn, Santíago Wing, hafði Kristófer eignast með kínverskri fegurðardís, en þann elsta, Santíago Salvador, með undurfagurri spænskri stúlku af sígaunaættum. Santíago Salvador var nú orðinn fjörtíu ára, en Santíago Wing tvítugur. Allir voru synirnir myndarlegir mjög og keimlíkir föður sínum.
Á leiðinni heim í hitabelti Karíbahafsins eyddi Kristófer dögunum sofandi inni í káetu einni sem í skipinu var. Synirnir nýttu hins vegar tímann vel, lásu bækur og spjölluðu við fólk. Þeir voru allir einkar lagnir við kvenfólk, og gátu á örfáum mínútum komið þeim í bólið. En allir voru þeir þjófar miklir, og þegar skipið sigldi í höfn höfuðborgarinnar höfðu þeir rænt og ruplað öllum þeim verðmætum sem í því voru, og þetta gerðu þeir af svo mikilli snilld að engan grunaði neitt.
Kristófer hélt ásamt sonum sínum tuttugu heim í þorpið. Þeir þurftu að kaupa asna þrjá til þess að bera föggur þeirra, en synir Kristófers áttu í minnstu vandræðum með að borga þá. Á leiðinni heim gerði Kristófer sér í hugarlund hvernig viðtökur hann og synir hans myndu fá; hann hlakkaði mjög til að segja íbúum þorpsins frá ævintýrum sínum og sona sinna.
Þegar feðgarnir áttu innan við kílómetra eftir af göngu sinni heim, réðst á þá hópur bandóðra fljúgandi kvikinda. Við það misstu þeir stjórn á ösnunum, og með allar föggurnar datt einn þeirra á hliðina, og lenti Kristófer undir og steinrotaðist. Þegar hann rankaði við sér, lá hann í rúmi sínu heima hjá hinum látna Pedró Albert García lækni, og hafði ekki hugmynd um hvað tuttugu fullorðnir menn voru að gera í kringum sig, hverjir þeir væru, eða hvað hann hefði gert síðustu tuttugu árin.