Ég verð bara að deila þessari lífsreynslu minni með ykkur. Kannski passið þið ykkur betur en ég.
Ég lá einn í baðinu. Að liggja einn í baðinu er það allra skemmtilegasta sem að ég hef nokkurn tímann prófað. Varminn umlykur mann gjörsamlega, og þú getur verið alveg afslappaður. Ahhhh…
Vegna þess hversu vel mér líður í baði, hef ég innréttað baðherbergið mitt nokkuð sérstaklega. Ég læt sjónvarp hanga neðan úr loftinu á móti baðinu, og vegna þess hversu gott mér finnst ristað brauð, þá er ég með brauðrist við hliðina á baðinu, og geymi þar yfirleitt nokkra lítra af appelsínusafa. Náttúrulega brauð líka. Annars gæti ég aldrei ristað mér brauð, því ég nenni engan veginn að standa upp og ganga inn í eldhús til þess. Þennan dag var miðvikudagur, og ég hafði verið búinn í vinnunni snemma. Ég hafði klárað að flokka skrárnar klukkan rétt rúmlega 5, og í stað þess að vera alveg til 6, fékk ég leyfi hjá yfirmanni mínum til þess að fara heim. Ég hafði engin sérstök plön fyrir kvöldið. Ég ætlaði bara að liggja í baðinu, horfa á sjónvarpið og borða ristað brauð, ásamt því að drekka appelsínusafa með. Klukkan var orðin sex mínútur í sjö. Það var komið að því. Það var Víkingalottó. Ég horfi alltaf á Víkingalottó. Ég vona statt og stöðugt að mínar tölur komi upp. Mínar tölur eru einn, tveir, þrír, fjórir, fimm og sex. Þulurinn les upp.
“Sex”
Flott, mín tala.
“Einn”
Mín tala.
“Þrír”
Vá, 3 réttar.
“Fimm”
Ha? Fjórar réttar? Hvað er að ske?
“Fjórir”
Fimm réttar! Gerðu það, segðu tveir!
“Tveir”
JÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁ! Sex réttar! 130 milljónir íslenskra króna! Ég hoppa upp og niður af kæti í baðkarinu. Upp og niður. Upp og niður. Upp og niður. Upp og ni…
SPLASS! Brauðristin, sem var einmitt að rista brauð, féll ofan í baðkarið. Ég var steindauður. Þvílíkt raflost.
Ég vona að þetta kenni ykkur lexíu. Aldrei, aldrei nokkurn tímann, kaupa miða í lottói. Það er lífshættulegt.