Ótímabært morð
Sjitt, andskotin, sjitt…
Sjitt, hugsaði Arnar. Í fyrsta sinn á ævinni skyldi hann hvernig Jósef bróður hans leið.
Jósef var stóri bróðir Arnars, einu sinni höfðu þeir báðir verið saman í bíl. Arnar var ekki nema tíu ára gamall og Jósef var nýorðin sautján ára. Þar af leiðandi nýkominn með bílpróf.
Þeir voru tveir saman í bíl og Arnar sat þreyttur og ánægður í framsætinu. Honum fannst gaman að sitja í framsætinu, honum fannst leiðinlegt að hann skyldi alltaf þurfa að sitja aftur í þegar mamma og pabbi voru í bílnum. Og þegar öll fjölskyldan var saman þá þurftu hann að sitja í miðjunni, troðinn á milli stóra bróðurs og stóru systur. Þess vegna var hann ánægður að hann og Jósef væru einir í bíl að keyra í þessari hellidembu.
Klukkan var hálftíu og það var kolniðamyrkur. Jósef hafði sótt hann á Karate æfingu. Og nú voru þeir á leiðinni heim.
Og svo bamm! Jósef snarhemlaði og Arnar kipptist til í sætinu. (Hann hefði flogið á gluggann ef hann hefði ekki verið í belti).
En of seint. Jósef hafði keyrt yfir kött. Helvítis kattarkvikindið hafði staðið upp við gangstéttina og beðið með að hlaupa yfir alveg þar til Jósef og Arnar voru í þann mund að keyra framhjá.
Jósef stoppaði á miðri götunni og hljóp út úr bílnum. Arnar leysti sig úr beltinu og elti hikandi stóra bróður sinn.
Kötturinn var með tvöföld dekkjarför yfir sér, ekkert blóð eða neitt en líkaminn var algjörlega kraminn og beinin sum standandi út úr molnuðum líkamanum.
Hún hét Mjallhvít.
En Jósef var eflaust löngu búin að jafna sig nú. Núna var hann tölvufræðingur í Danmörku og Arnar var að læra verkfræði í THÍ, orðin tuttugu og tveggja ára gamall. Eigendur Mjallhvítar höfðu fyrirgefið Jósef. Hann mætti meira að segja í jarðarförina, í smóking.
En svona heppinn var Arnar ekki, og það myndi engin fyrirgefa honum fyrir það sem hann hafði gert. Hann gerði sér í hugarlund hvernig hann myndi líta út á forsíðu DV við hliðina á einstæðum mæðrum og barnaperrum.
Morðingi.
En hann var eins og Jósef, hann hafði ekki ætlað sér að myrða einn né neinn, og allar getgátur sem voru uppi um að hann hefði verið handrukkari að krefjast skuldar eða einhver dópisti að reyna að ræna af manninum peninga voru allar gjörsamlega rangar. Hann ætlaði ekki að drepa neinn, hann þekkti manninn jú ekki neitt.
Birgir Níelsen. Birgir fukking Níelsen.
Nú mundi hann eftir vídjóspólunni sem hann hafði leigt með Palla og Völu. Einhver fáránleg kóresk mynd. Maðurinn gengur um og slátrar fólki til að hefna sín og tekur hverju högginu á fætur öðru. Og allan þann tíma hrósar Palli myndinni fyrir að vera raunsæ.
Raunsæ? Í alvörunni þá stendur engin uppréttur eftir að hafa verið laminn með kylfu. Það er meira að segja hægt að drepa fólk í einu í höggi.
Hver hefði haldið að hann hefði haft svona rétt fyrir sér. Það er hægt að drepa fólk með einu höggi, og hann hafði gert það. Hann sem ætlaði sér ekki einu sinni að slást.
Birgir Níelsen var strákur svipaður Arnari á hæð. Aðeins yngri eflaust, talsvert ruglaðri og í leðurjakka. Eða var það allavega þegar hann dó. Þeir hittust í röðinni fyrir utan Gaukinn.
Eða hittust, það er nú varla orðið. Rákust á hvorn annan svona meira.
Arnar stóð þarna með vinum sínum, þeim Palla, Sigga, Söru, og Völu. Í skítakulda eins og hefðin er hjá veðurguðunum á laugardagskvöldi. Það er náttúrulega ekki við öðru að búast í febrúar á landi sem heitir Ísland. En svo eru allar stúlkurnar í minipilsum, hver hefði búist við því?
Arnar var búin að hanga í röðinni í tíu mínútur, og tíu mínútur geta orðið langur tími út í íslensku roki. Og svo skyndilega ruddist hann fram fyrir hann í röðinni. Þessi gaur og tveir aðrir gaurar, allir ósköp svipaðir, en það var bara Birgir sem var í leðurjakka.
„Hey!” Sagði Palli. „Drullið ykkur úr röðinni.”
„Já, við erum búin að bíða í hálftíma” sagði Sara.
Þorpararnir þrír litu við og hóparnir stóðu andspænis hvor öðrum. Birgir sem var í miðjunni hélt augljóslega að það hefði verið Arnar en ekki Palli sem hefði kallað til hans. Hann sneri sér að Arnari og horfði djúpt í augun á honum. Birgir var mjór og náfölur, og augun hans voru stór. Þau titruðu.
„Veist þú hver ég er?” Spurði hann.
„Nei og mér er drullusama” svaraði Arnar. „Hverjir haldiði eiginlega að þið séuð” sagði Palli samtímis við hina tvo.
„Ég er Birgir” sagði maðurinn hægt. „Birgir Níelsen.”
Maðurinn virtist greinilega halda að nafn hans væri einhverskonar töfraorð. Eitthvað eins og Abrakadabra, opnist sesam eða James Bond. Bond, James Bond. Arnar var smeykur við þennan mann. Hann var eitthvað furðulegur.
Og þá skyndilega tók Birgir fram hníf, eða svo virtist það vera þetta augnablik fyrir Arnari. Þetta var hnífur. Hann var allavega það fullur að hann hélt að þetta væri hnífur. En í raun var þetta bara kveikjari, einn af þessum stóru sem fást í fríhöfninni. Birgir ætlaði að líta kúl út, fá sér einn smók sem hann myndi blása ögrandi í áttina að Arnari.
En Arnar sá hann bara horfa illilega í áttina að sér og stinga höndinni inn á leðurjakkann og draga út einhvern málmhlut.
Svo bamm. Rétt eins og þegar Jósef keyrði yfir köttinn, þá tók tíminn risastórt stökk framm á við og skyndilega lá Birgir á gangstéttinni eftir að hafa fengið hnefahögg beint í andlitið. Og ef Arnar hefði ekki verið svona fullur þá hefði hann séð blóðpoll leka út undan höfuðkúpunni. En það var enginn tími, tveir af dyravörðunum stukku fram til að skerast í leikinn og skyndilega var Arnar á harðaspretti frá Gauknum á leiðinni í einhverja aðra biðröð á öðrum stað, með Palla skellihlæjandi og stúlkurnar skíthræddar í eftirdragi.
En hvorki dyraverðirnir né félagar Birgis eltu þau og eftir að hafa svitnað yfir hlaupum hálfa húsaröð, stakk Sara upp á að þau myndu kíkja heim í vesturbæjaríbúðina hennar. Og þar eyddu þau nóttinni, þar sem Palli hló og rifjaði upp höfuðhöggið tíuþúsund sinnum meðan Sara og Vala skömmuðu Arnar fyrir að hafa verið svona fljótur á sér. Og Siggi fékk eitthvað milt þunglyndiskast og vildi fara heim, en að lokum sannfærði Palli hann og Völu um að kíkja aftur niður í bæinn. Eftir það sat Arnar í smástund einn innni með Söru þar sem þau spjölluðu saman. Og það endaði á því að þau kysstust rétt fyrir að klukkan sló sex og enduðu á því að prófa rúmið í nýju íbúðinni hennar eftir að hún útskýrði að hún hefði hætt með Ragga í seinustu viku.
Arnar var ekki frá því að þetta hefði verið andskoti vel heppnað kvöld þegar hann tók strætóinn heim, klukkan tvö um miðjan daginn, fór í sturtu og skrapp í vinnuna.
Helvíti var hann ánægður. Allt þar til Palli hringdi.
„Hæ.”
„Hæ hvað segirðu?” sagði Palli og hljómaði eitthvað furðulega.
„Allt gott. En þú? Þú hljómar eitthvað undarlega” sagði hann við Palla.
„Ertu búin að hlusta eitthvað á fréttirnar?” Spurði Palli.
„Nei, ég er bara nýkominn í vinnuna, en heyrðu, giskaðu hvað ég gerði í gær?”
„Hvað?” Spurði Palli og hljómaði óþolinmóður.
„Vissir þú að Sara hafði hætt með Ragga? Hún var ekkert búin að segja mér…”
„ARNAR.”
„Já.”
„Þú ert ekki búin að hlusta á fréttirnar?” Spurði Palli, og Arnar vissi ekki hvort hann hljómaði áhyggjufullur eða pirraður. Það var þögn í smá tíma.
„Nei. Hvað?”
Hann hafði farið fyrr úr vinnunni. Gert sér upp veikindi. Og nú sat hann inn í herbergi hjá Palla, kassagítarinn hangandi á veggnum ásamt Hendrix og Kurt Cobain plakötum sem höfðu verið þarna frá upphafi táningsáranna. Þeir sátu saman í stóra vatnsrúminu hans Palla, hlið við hlið, starandi á gítarinn.
Sjitt, andskotinn sjitt.
„Hvað eigum við að gera?” Spurði Arnar.
„Ég veit það ekki, ég meina þetta var ekki þér, okkur að kenna” svaraði Palli.
„Nei, augljóslega ekki, en samt, en samt.”
„Þeir vita að minnsta kosti ekkert um hver gerði þetta” sagði Palli. „Þeir halda að þetta hafi verið handrukkari af því að hann var með svo mikið amfetamín í blóðinu.”
„Andskotinn” sagði Arnar. Hann var á mörkum þess að fara að gráta. Alveg eins og Jósef. „Ég meina ég gerði ekki neitt, ég rétt svo snerti hann.”
„Ég veit það”. Palli tók utan um hann. „Þeir sögðu líka í fréttunum að hann hafði áður fengið höfuðkúpubrot, að þetta hefði líklega verið manndráp af misgáningi.”
„En samt manndráp.”
„Ég veit.”
„Finnst þér að ég ætti að tala við lögregluna?”
Palli þagði, hann horfði út um gluggan og dróg djúpt inn andann. Eftir smástund sagði hann loks.
„Nei.”
Nei?
„Mér finnst það ekki. Það veit enginn að það varst þú. Ég meina, þessi gaur, þetta var bara einhver lúser. Óþarfi að eyðileggja þitt líf yfir einhverjum skíta dópista. Þú ert að fara í háskólann í haust og…”
Síminn hringdi. Arnar stakk höndinni í vasann og dróg upp gemsann sinn. Þetta var Sara.
„Hæ” sagði Arnar og gerði sér upp glaðlegan róm.
„Já ég er laus í kvöld….Hvar er ég?….Ég er heima hjá Palla….Já auðvitað….Eigum við að segja það?….Ok…Ok…Ég tala við þig á eftir…Ég hringi rétt strax….ok bæ.”
Arnar leit á Palla og í fyrsta sinn í þessi samtali á milli þeirra þá horfðust þeir í augu.
„En hvað með stelpurnar?”
„Fylgjast þær með fréttunum” svaraði Palli. „Þær voru pissfullar, við erum örugglega þeir einu sem tókum eftir nafninu.”
„Nei, Palli, við búum á Íslandi. Einhverntímann í þessari viku þá á ég eftir að rekast á fyrir tilviljun einhvern sem var á staðnum, einhvern sem sá þetta gerast….” Hann andvarpaði. „Djísus Kræst.”
„Djísus Kræst” sagði Jósef.
Arnar horfði á hann. Á milli þeirra lá dauði kötturinn Mjallhvít.
„Hvað á ég að gera?” spurði stóri bróðir hans. „Hvað á ég að gera?”
Rigninginn hrundi niður á þá. Arnar hafði aldrei séð stóra bróður sinn gráta, honum hafði aldrei fundist hann vera svona miklu stærri en bróðir sinn.
„Þú verður að skila honum” sagði hann.
„Já” sagði Jósef. „Ég verð að skila honum.”