Sænskt landslag


Það var á lestinni á leiðinni heim sem ég heyrði englaraddir inn í höfðinu á mér. Þetta var einfaldur fiðlusynth sem ég gat vel séð fyrir mér spilaðan á hljómborð eða jafnvel af nokkrum fiðlum. Í rúma klukkustund var ég búinn að sitja í lestinni starandi þögull út um gluggan. Ég var búinn að gleypa í mig sænskt landslag, kletta og tré, og nú var innblásturinn farinn að spýtast út úr mér. Þetta byrjaði í A-moll, hæg byrjun, eins og dögun. Rólegt píanóinnspil kemur inn, klisjukennt rafmagnsgítara feedback, engar trommur og enginn bassi. Bara fiðlurnar, gítarinn og píanóið.Enginn söngur heldur, Mogens yrði bara að sætta sig við það. Ég vissi alveg að Anders og Christian myndu taka það með jafnaðargeði ef ég kæmi með lag án línu fyrir þá. Ekki Mogens. Söngvarar eru tilfinninganæmar verur. Þeir líta á allt sem maður segir sem eitthvað persónulegt.
En hvað um það, þarna sat ég, uppfullur innblásturs. En ég var ekki með blöð eða penna. Ég var búinn að fylla út nótnaheftið mitt. Ég hljóp fram á klósett, enda þurfti ég að míga líka. Ég reif klósettpappír út í hrönnum og hljóp með heila rúllu aftur í sætið mitt. Það voru ekki margir í lestarvagninum, en þeir sem voru þarna störðu á mig eins og ég væri eitthvað klikk.
Ég hrópaði: „Hefur einhver penna!!!” því að ég var búinn að týna pennanum mínum.
Mér leið eins og þetta væri spurning upp á líf og dauða. Þetta gæti verið meistaraverk, algjört stórvirki, ég bara fann það á mér. Í árhundruð hafði sænskt landslag gefið innblástur í léleg júróvisíon lög, miðlungspopp og keimlíkar þungarokkssveitir. Bíðandi eftir því að snillingur eins og ég sæji fegurðina í skógunum, klettunum og litlu bæjunum í þessu græna landi. Það var ekki vafi á því þetta var stórverk sem með lagi, viðlagi og píanósólói gæti mögulega náð að túlka allt landið í heild sinni.
„Á einhver penna!!!” Öskraði ég.
Enginn bauð fram pennan sinn. En ég sá að einn gamall maður sat þarna með penna í gamaldagsvestinu sínu svo ég stökk yfir á borðið hans og kippti pennanum úr vasanum. Ég stökk niður og tók að rita á klósettpappírinn.
Englaraddirnar slokknuðu. Ljósopið frá himnum lokaðist.
„Nei!!!” Öskraði ég og sló mig í hausinn. Eftir á að hyggja þá hef ég sennilega virst varhugaverður. Í hamagangnum sá ég ekki hversu undrandi fólkið var á hegðun minni, en það er kannski ekki hægt að búast við því að það skilji snilling.
Ég er sko að skrifa lag útskýrði ég fyrir gömlu konunni sem horfði agndofa á mig skríðandi á gólfinu.
En lagið var horfið!!!
Nei, ekki horfið ennþá, en það var á flótta. Ég tók að rita. Fyrir flestum hefur nótnaspark mitt virst meira ruglið en ég hef með tímanum vanið mig á að skrifa lögin mín í nótum. Þegar maður venst á að skrifa í nótum, getur maður samið lög fjarri hljóðfærunum sínum. Jafnvel þótt maður sé hinum megin við eyrarsund og enn ekki komin til Kaupmannahafnar.
Ég var um það bil búinn að endurheimta innlifunina þegar lestarvörðurinn svokallaði kom inn og fyrirskipaði mér að setjast.
Ég sagðist vera sitjandi. En þá var hann bara með hortugheit og sagði mér að óleyfilegt væri að sitja á gólfinu, ég ætti bara að haga mér eins og fullorðinn manneskja og setjast í sætið mitt. Ég var um það bil að fara að hlýða, þegar varðahelvítið hrifsaði af mér klósettpappírinn. Það augljóslega gekk ekki svo ég reif af honum klósettpappírinn.
Með þeim afleiðingum að hann rifnaði í tvennt.
Lestarvörðurinn sneri sér við og gekk tilbaka. Ég hrópaði að honum að skila mér laginu mínu svo ég gæti klárað það. Hann virtist ekki skilja almennilega beiðni mína, annað hvort það eða hann var bara svo heimskur í varðmennsku sinni að þrjóskast við. En kannski var hann bara klár og vildi stela laginu mínu?
Hverju sem því leið þá var vörðurinn á leiðinni í burtu, án þess að svara mér eða gera sig líklegan til að skila Svíþjóð. (Því það var það sem lagið átti að heita).
Samtímis því að ég stökk í áttina að varðhelvítinu þá gelti gamli karlinn eitthvað um að ég ætti að skila pennanum. En þess í stað stökk ég á vörðinn og tróð pennanum upp í eyrað á fíflinu. Þessi bjáni sem átti að heita lestarvörður og átti að ganga úr skugga um hvort allir væru með miða, hafði gengið í burtu með klósettpappírinn án þess að sinna starfi sínu almennilega. Svo hann átti það svo sannarlega skilið að ég sprengdi í honum hljóðhimnuna svo það blæddi. Þó ekki væri nema bara fyrir hreina vanrækslu á skyldum sínum sem lestarvörður.
Eftir á að hyggja hefði eflaust verið skynsamlegra að vera kurteisara. En hefði Beethoven ekki gert það sama ef fimmtu simfóníunni hefði verið rænt af sænskum miðaeftirlits-manni? Hann var nú aldeilis þekktur fyrir skapillsku sína. (Sem þó er mjög skiljanleg þar sem maðurinn var bæði heyrnarlaus og þjáðist ofan í kaupið af niðurgangi.)
En það sem er gert, er gert og ekkert er við því að gera. Það næsta sem ég veit er að hópur farþeganna ráðast á mig og rífa mig af lestarverðinum sem skríður upp eftir gólfinum. Mér var lyft upp og ég var næstum því farinn að halda að þau ætluðu að fleygja mér út um gluggan.
Nei, þess í stað sótti lögreglan mig í næsta forpokaða smábæ og mér var hent inn í fremur villta vesturslegt einangrunarherbergi. Sem er í sjálfu sér ekkert slæmt.
Þarna sat ég einn og í góðri þögn. Að auki var ég með klósettpappírsnóturnar mínar og nóg af klósettpappí til að nota þar til ég kæmist í aðra nótnabók.
En árinn sjálfur.
Ef ég hefði bara ekki skilið pennan eftir í eyranu á helvítis lestarfíflinu.