Hún vaknaði snemma á þessum morgni, sem virtist ætla verða eins og allir venjulegir dagar. Hún klæddi sig og fór inn í eldhús, hellti upp á kaffi og settist við eldhúsborðið með heitt kaffi í bolla. Eftir tíu mínútur heyrði hún rumsk úr svefnherberginu. Hún brosti með sjálfri sér og stóð á fætur. Inn í eldhúsið gekk maður á hennar aldri, í náttbuxum og með úfið hárið. Hann geispaði og brosti svo til hennar. Hún hellti kaffi í uppáhalds bollan hans og lagði á borðið. Hann greip utan um hana og kyssti hana. “Ég elska þig, þú veist það?” Sagði hann og hún kinkaði kolli, brosandi. Hann féll niður á hné og kyssti á henni magann. “Ég elska þig líka” Hvíslaði hann og lagði andlitið þétt að kvið hennar.
Þau nutu þagnarinnar saman með kaffibollana áður en hann fór til vinnu. Hann yrði væntanlega of seinn enda þurfti hann að faðma hana þétt að sér áður en hann fór. Hún strauk hendinni yfir kviðinn, ánægð, og gekk svo út í garð með þvottakörfuna. Hún setti svart sítt hárið upp í tagl og fór svo að hengja upp þvottinn.
***
Hann vaknaði við það að móðir hans ýtti við honum. Hún hafði tekið fötin til fyrir hann, smekkbuxur og peysa, jakki og húfa. Hann borðaði morgunmat með litlu systur sinni, sem yrði 5 ára á morgunn. Eftir matinn röltu þau saman út á leikvöllinn og hann horfði á systur sína klifra upp í rólu og heimta að stóri bróðir sinn ýtti sér. Þó hann væri tveimur árum eldri en hún gaf hann sér alltaf tíma til að vera með henni. Hann vissi ekki hvað hann myndi gera ef hann myndi missa hana. Hún var honum allt, jafnvel þó hún væri bara litla systir hans. Hann vissi líka að á meðan þau væru þarna á leikvellinum, væri mamma hans heima hjá þeim að undirbúa afmælisveislu fyrir hana.
“Geturðu ýtt mér svo hátt að ég fari upp í himininn?” Spurði systir hans. Hann játaði því og fór að ýta henni. “Hærra! Hærra!” Hrópaði hún hlæjandi. “Ég vil komast eins hátt og þessi flugvél!” Hann stöðvaði og horfði á flugvélina fljúga yfir leiksvæðið.
***
“Þau eiga þetta skilið” Hugsaði hann er hann horfði út um gluggann á flugvélinni. “Þau eiga þetta skilið, helvítin. Þau eiga ekki skilið að lifa eftir það sem þau gerðu”.
Hann stikaði að stórri sprengjunni. Félagar hans stóðu í kringum hana með penna og veltu fyrir sér hvað þeir gætu skrifað á hana, hvaða skilaboð þeir gætu sent með henni. Hann gekk upp að John, sem hélt á pennanum. “Leyfðu mér” Sagði hann og horfði einbeittur á John. Félagar hans í kringum hann þögnuðu. John horfði á hann um stund en rétti honum svo pennann. “Auðvitað, Pete. Veldu nafnið.”. Pete tók pennann og lét hann upp að sprengjunni. Hann starði á þetta gríðarmikla ferlíki en skrifaði svo: “Little Boy”.
Hann lét pennann falla niður á gólfið og gekk svo að glugganum. “Þau eiga þetta skilið.” Hugsaði hann aftur. “Þau eiga þetta skilið fyrir það sem þau gerðu syni mínum…” Muldraði hann svo.
***
Hann var þreyttur og lúinn þegar hann settist loks niður á stein á hæðinni rétt fyrir utan borgina. Hann var orðinn of gamall fyrir svona göngur en hann varð að koma aftur á þennan stað áður en hann yfirgæfi þennan heim. Það var hér sem hann kynntist konu sinni. Það var hér sem þau trúlofuðust og komu með börnin sín í lautarferðir á sumrin.
Hún hafði birst honum í draumi um nóttina. Eiginkona hans dó fyrir 5 árum og hann hafði ekki enn jafnað sig almennilega á því. Þau gerðu allt saman. Hún birtist honum í draumi, umvafin hvítu, og hvíslaði að honum að brátt yrðu þau saman á ný. Hann hræddist ekki dauðann. Fyrir honum var dauðinn byrjun á nýju ævintýri, nýju lífi á betri stað.
Hann leit yfir borgina sem hann hafði búið í svo lengi. Hún var öll að koma til lífsins eftir svefn næturinnar. Hann lét upp gleraugun og fylgdist með flugvél sem flaug yfir borgina. Hann dró upp klukkuna sína og leit á hana. 8:15 á þessum ágústsmorgni. Hann leit upp í tæka tíð til að sjá flugvélina varpa einhverju niður til jarðar.
Þetta var það síðasta sem hann sá. Í síðasta sinn sem hann sá borgina sína, Hiroshima.