Hún hljóp niður tröppurnar og út á götu. Þar stoppaði hún eitt andartak. Hvert gat hún farið? Hver gæti hjálpað henni núna? Tárin láku niður kinnarnar á henni. Hún heyrði skruðninga innan úr húsinu, hafði ekki mikinn tíma til umhugsunar. Hún hljóp út götuna og upp á Hringbraut, Jónas, Jónas gæti hjálpað henni. Jafnvel eftir allt sem hafði gerst, hann myndi hjálpa henni.
Á Hringbrautinni beygði hún til hægri og hélt áfram að hlaupa í átt að miðbænum. Hún reyndi að átta sig á því sem hafði gerst. Hvað hafði eiginlega gerst?
Hún hafði komið heim seint, mamma hafði ekki sagt henni að koma ekki seint heim eins og hún hafði alltaf gert áður en hann birtist. Hann hafði eyðilagt allt. Þær voru hamingjusamar áður en hann valsaði inn í líf þeirra og eyðilagaði allt.
Í fyrstu leit hann út eins og fínn náungi, vinalegt útlit, flottur bíll og góð vinna í banka, allt sem hafði þurft til þess að fá mömmu til þess að falla kylliflöt fyrir honum. Hann borgaði líka píanótímana hennar og kom í veg fyrir að þær þyrftu að selja píanóið hennar ömmu.
Hún rak tánna í brúnina á niðurfalli og hrasaði. Hnéð á gallabuxunum rifnaði og rautt blóð litaði efnið í kringum gatið. Í birtunni frá ljósastaurnum sá hún að hendur hennar voru hruflaðar og hana sveið. Hún hafði ekki tíma til að hugsa um þetta, hún yrði að komast til Jónasar. Jónas myndi hjálpa henni, hann gat ekki hafa meint það sem hann hafði sagt fyrr um daginn. Þetta um barnið, barnið þeirra.
Hún hafði verið orðin heilli viku of sein, hún sem var alltaf á hárréttum tíma. Varð hrædd og fór í apótekið til þess að kaupa þungunarpróf. Mundi eftir rifna smokkinum 3 vikum áður. Hún vissi ekki hvernig hún átti að taka því þegar prófið var jákvætt. Þetta var eitthvað svo fjarlægt. Hvernig gat hún verið ófrísk? Hún var bara 17 ára. Hafði farið til Jónasar og sagt honum frá því, hann vildi að hún færi í fóstureyðingu, sagðist ekki vera tilbúinn að verða pabbi. Af hverju vildi hann ekki eignast barnið þeirra? Að lokum hafði hún sagt honum að hann gæti þá bara sleppt því að sjá barnið, hún gæti bara séð um það sjálf.
Síðan hafði hún farið í bíó með stelpunum. Heim til Unnar eftir það. Vildi ekki fara heim, vissi að hann væri þar. Gunnar, eins og hún þekkti hann nú, dópsalinn.
Hún var orðin móð. Hægði á sér og reyndi að labba rösklega upp Hofsvallagötuna. Blóðið lak niður legginn á henni.
Hana hafði grunað að Gunnar væri ekki sá sem hann sagðist vera. Allar dularfullu símhringingarnar og skrýtnu vinnutímarnir. Bankar lokuðu alltaf kl. 5. Grunurinn hafði verið staðfestur í kvöld þegar hún hafði komið heim og lokað hurðinni hljóðlega á eftir sér, vildi ekki vekja þau ef ske kynni að þau væru farin að sofa. Þegar upp kom hafði hún heyrt raddir þeirra innan úr eldhúsinu. Heyrt angistina í rödd mömmu, hótanirnar í rödd Gunnars. Síðan hafði hún heyrt hann játa, hann hafði játað að hafa logið að henni allan tímann, smyglað inn dópinu og selt það. Síðan hafði hún heyrt mömmu biðja hann grátandi um að leggja hnífinn frá sér, spyrja af hverju hann horfði svona einkennilega á sig. Maðurinn var brjálaður. Mamma hafði veinað og Sunna hafði kíkt inn í eldhúsið. Blóð, hún sá blóð. Hún hafði hlaupið niður stigann og skellt útidyrahurðinni á eftir sér.
Hún beygði inn í götuna hans Jónasar. Hljóp síðasta spölinn að húsinu hans, hringdi á bjöllunni. Hann kom til dyra á nærbuxunum, hafði greinilega verið farinn að sofa. Hann leit á Sunnu. ,,Hvað gerðist?"