Hæ, bíddu eftir mér!
Ég sný mér við.
Þetta er hann. Hinn eini sanni. Hann sem ég hef elskað svo lengi en aldrei þorað að hafa nokkur samskipti við.
Ég horfi á hann með aðdáun í augunum þegar hann gengur framhjá mér og lætur eins og ég sé ekki til. Hann veit heldur ekki að ég er til.
Hann stoppar og fer að tala við vin sinn smáspöl hjá. Það gefur mér færi á að virða hann betur fyrir mér.
Ég hef séð hann áður í skólanum. Þetta var ást við fyrstu sýn. Ég þurfti ekki annað en að horfa í augun á honum til að sjá það. Hann var sá sem mér var ætlað að eiga.
Hann er eldri en ég. Hann útskrifast í vor. Þá missi ég hann að eilífu ef ég læt hann ekki vita af mér fljótlega. Leyfði honum að heyra hvernig mér líður. Að hjartað mitt hoppi um allan líkamann í hvert skipti sem við hittumst á göngunum. Að hann sé það eina sem ég hugsa um.
Ég renni augunum yfir hann eins laumulega og ég get. Hann er hávaxinn, með þykkt, dökkbrúnt hár, blá, tær augu og sólbrúnn eftir mikla útiveru. Spilar örugglega íþróttir. Fótbolta frekar en eitthvað annað. Ég veit ekki með hvaða liði. Kannski KR. Það spila svo margir með KR.
Ég fylgist með honum. Þarf ekki að fela mig því ég veit að hann sér mig ekki.
Hann hlær.
Vildi óska að ég hefði svona mikið sjálfstraust eins og hann. Það myndi einfalda málin svo mikið. Bara að ég gæti…
Hann kemur aftan að mér. Ég tek ekki eftir honum fyrr en hann stendur alveg við mig.
- Hæ, elskan!
Hæ sjálfur!
- Saknaðirðu mín spyr hann og kyssir mig á kinnina
Alveg rosalega. Það er ekkert að gera hérna.
Hann hlær glaðlega
- Komum!
Hann teymir mig í burtu. Ég held í hönd raunveruleikans. Sný mér aðeins við til að sjá að ástin mín gengur í burtu með vini sínum.
Ég geng líka í burtu.
———————————————
Þetta er ein af mínum fyrstu smásögum svo gagnrýnið af vild. Vil endilega heyra hvað ykkur finnst.