Hann stóð á gatnamótum, á aðra hönd gata sem var bæði svo freistandi og falleg, en samt svo… svo óspennandi og fyrirsjáanleg út í óvissuna. Á hina var síbreytilegur vegur sem var eina stundina grár og einlitur malarvegur, þá næstu myrkur og drungalegur vegur alsettur hindrunum og þá þriðju gönguvegur í björtum og hlýjum skógi.
Á sama tíma var stelpa að leika sér í boltaleik með nokkrum strákum. Hún hljóp upp völlinn, sólaði einn, annann, vippaði yfir þann þriðja og náði skoti á markið, hún á móti markinu… …og stöngin út!
Beint út á götu, og stelpan hljóp á eftir boltanum, tautandi og röflandi og sá hann ekki koma.
Þetta var Scania vörubíll, og ökumaðurinn var að pússa gleraugun.
Strákarnir öskruðu og æptu en hún var og spennt og svekkt að hún heyrði ekki í þeim.
Svo hættu strákarnir að öskra, og ökumaðurinn að pússa gleraugun.
Og stelpan að ná í boltann.
Ökumaðurinn snarstoppaði, lét upp gleraugun og steig út. Á grillinu voru blóðslettur, og blóðrák lá undir bílinn.
Ökumaðurinn sýndi skjót viðbrögð og dró stelpuna undan bílnum og fékk einn strákinn til að hringja í neyðarlínuna. En tíminn var naumur. Hún var að líða útaf.
Hann hélt henni samt vakandi þar til sjúkrabíll kom á staðinn með tilheyrandi lífhjálp og lyfjum. Tvisvar þurfti að lífga stelpuna við á leiðinni á spítalann.
Á spítalanum var henni komið strax á sjúkrarúm og flýtt á skurðarborðið.
En allt kom fyrir ekki. Hún leið útaf í þriðja og seinasta skiptið á leiðinni á skurðstofuna.
Hann var ekki lengur einn.
Hún var þar líka núna.
Þau voru þar.
Hún horfði á hann með fagurgrænu augunum sínum og spurði, “Hver ert þú?”.
“Ég er… Vernharður Zweiler” Svaraði hann eftir smá umhugsun en spurði á móti,
“Hvernig komst þú hingað?”
“Ég… ég veit ekki. Það eina sem ég man er ég var í fótbolta… skaut, í stöng… boltinn fór út á götu, og ég náði í hann, eða… nei, ég man bara eftir að hafa verið á götunni og svo, ekkert, nema…ljósin. Ljós eftir ljós eftir ljós. Endalaus röð af ljósum.”
“Og, já, áður en þú spyrð þá er ég Hanna …en hvar erum við?” Bætti hún svo við.
“Veit ekki, en ég veit að við getum ekki verið hér endalaust. Við verðum að velja.”
Svaraði Vernharður fullviss um að engin gæti verið hér endalaust.
Rétt í því birtist þriðja persónan í hópinn, kona á sínum heldri árum og hún gekk rakleiðis í átt að fallegu götunni. Vernharður hljóp að henni, forvitinn.
“Sérðu ekki hina leiðina, þessa sem getur ekki ákveðið sig?”
“Hvaða leið?” Konan leit í kring um sig. “Ég sé enga aðra leið en þessa gullfallegu götu hér, með ólífutrjám í blóma og birtu og englum.” Svaraði hún og gekk aftur af stað, muldrandi nógu hátt svo hin tvö heyrðu það hátt og skýrt: “Maður má ekki verða of sein í himnaríki!”.
Vernharður var ekki lengi að átta sig á þessu og gekk að Hönnu, brosandi út af eyrum og sagði, geislandi af sjálfsánægju, “Við erum dauð!” en var ekki lengi að bæta við,
“En fáum annað tækifæri!”
Hanna áttaði sig ekki alveg á þessu, sem sást á svipnum, svo Vernharður fór að útskýra.
“Sjáðu nú til, ef þessi leið er eins og konan sagði, himnaríki,”
“Þá er þessi leið helvíti.” Greip hún fram í og benti á veginn síbreytilega.
“Nei, ekki alveg, held ég, þótt kaflar af honum geti verið það, já. Þetta er síbreytilegt, rétt eins og, ekki helvíti, heldur…” hann stoppaði og ætlaðist til að hún myndi klára setninguna en það gekk ekki alveg upp þar sem hún var ekki enn búin að átta sig alveg á þessu. “Lífið!” hrópaði hann, spenntur, eftir þögnina.
“Við fáum annað tækifæri á lífinu sjálfu! Ímyndaðu þér það!” öskraði hann og hoppaði um af kæti.
Nú var þetta farið að sökkva inn hjá Hönnu, en í staðinn fyrir uppljómunarsvipinn á andliti Vernharðs varð hún bara eitt spurningamerki í framan.
“En verðum við við, eða verðum við einhver alltönnur við, ég meina ef þetta er millistopp fyrir himnaríki þá erum við örugglega dauð, er það ekki? Verðum við þá draugar, eða rísum við upp úr gröfinni eða er tíminn bara stopp hérna og það er ótrúlega stutt síðan við dóum?!?” spurði hún, allt í belg og biðu.
Vernharður tók því bara rólega, alsæll eins og hann var yfir því að fá annað tækifæri og svaraði einfaldlega, “Ég veit ekki, við verðum bara að ganga þennan veg og sjá hvert hann leiðir okkur.”