Ég er ekki búin að senda inn lengi en ætla að gera smá tilraun og gá hvað ykkur finnst um þessa litlu sögu sem ég skrifaði fyrir nokkrum mínútum. Endilega gagnrýnið hana á gagnlegan hátt, takk.


HÁLF MANNESKJA
eftir Fiona LeCruz


Mér finnst ég vera svo heilalaus. Svo heimsk. Ég veit að ég er að það ekki, en mér finnst það. Stundum haga ég mér heimskulega, en það er oft bara gaman. Fólk á ekki að taka mig alvarlega. Mér leiðast þessar augnagotur, fólk hefur gaman af því að gagnrýna mig og ég, ég hef einstakt lag á því að gagnrýna sjálfan mig.

Sólin rís og ég opna augun hægt. Morguninn er risinn enn og aftur. Ekki að það sé eitthvað slæmt. Þessi morgun var reyndar bara með ágætum. Ég dreif mig á lappir, enginn svaf við hliðina á mér. Mér fannst það undarlegt og ég hef ósjálfrátt teygt mig til að kúra að einhverjum í nótt, en enginn var þar. Ég óska þess að ég gæti fengið hann aftur, en ég veit að það er ekki rökrétt hugsun. Ég gerði svolítið slæmt, mjög slæmt. Ég veit að ég á ekki skilið lengur. Ég fór fram á klósett og horfði í spegilinn, nývöknuð. Hárið stóð út í loftið og augun sýndust pínulítil. Ég brosti. Ég var alltaf hálfasnaleg á morgnanna. Honum hafði alltaf þótt það svo sætt. Ég var alltaf falleg í hans augum, í langan tíma skildi ég hann ekki en að lokum sá ég það, hvað var fallegt við mig. Þá var ég ánægð, enda með honum.

Lífið snerist í hringi á degi hverjum. Ég vissi ekki hvernig ég átti að haga mér lengur. Leið hálf undarlega í kringum vini mína, því hann var ekki þar. Hann hafði verið miðdepill lífs míns í svo langan tíma. Mér fannst ég ekki vera heil, aðeins hálfur líkami gekk um göturnar. Hálf sál. Stundum sá ég hann labba í skólanum, hárið faldi augun hans þannig það var enginn möguleiki að ég gæti upplifað augnasamband við hann aftur. Hann hafði heldur ekki minnstu löngun til þess, ímyndaði ég mér. Hver vill stelpu sem svíkur? Enginn. Stundum fékk ég þá tilfinningu að ég þyrfti að finna sjálfan mig aftur, ég hafði fundið sjálfan mig með rangri manneskju. Nú var ég komin aftur á byrjunarreit.

Ég burstaði tennurnar í flýti, enda orðin svolítið mikið of sein. Það var svosem ekkert nýtt. Ég kom aldrei á réttum tíma í skólann lengur, enda hafði hann alltaf keyrt mig. Hann bar ábyrgð á mér í svo langan tíma. Mér fannst ég hafa misst of mikið af sjálfum mér. Hann hafði alltaf hjálpað mér þegar ég var í vanda. Hann var æðislegur en ég vissi að ég var orðin of háð honum. Það var kannski ástæðan sem leiddi mig í þennan gjörning. Ég var vond stelpa, en ímyndaði mér að þetta hefði kannski verið nauðsynlegt. Kannski er það bara heilaleysið sem er að fara með mig í hringi. Plata mig. En hverju skiptir það, þessu er lokið og ég mun ekki breyta því sem nú þegar hefur verið gert. Aðeins sætta mig við það.

Ég gekk yfir nokkrar götur, stoppaði og starði á sólina. Ég fann fyrir myndavélinni í vasanum og kippti henni upp og tók nokkrar myndir af landslaginu, konu með poka frá bakaríinu og litlum hvolpi sem fór óvart fyrir myndavélina. Hann var nú hálf sætur, en ég kom ekki við hann því ég vissi að ég átti það ekki skilið. Allir hugsuðu að ég ætti að vera lokuð inni. Ég fann hugsanir annarra liggja þétt yfir mér, ég bar þetta á hverjum degi, þessa þungu slæðu af illum hugsunum. Stundum fékk ég gífurlegan höfuðverk undan henni en hann lagaðist þegar ég byrjaði að taka myndir.

Ég mætti í skólann fjörtíu mínútur of seint. Ég fór inn í rauða herbergið og byrjaði að framkalla myndirnar. Kennaranum mínum var trúlega sama, hann var örugglega feginn að ég var ekki þarna. Þá þarf hann ekki að horfa upp á mig. Sem er auðvitað bara nokkuð fínt fyrir fólk sem finnst það svona erfitt, að fá tækifæri til að sleppa því. Ekki gleyma að ég sleppti líka við að horfa upp á hann, sköllóttan með grátt tagl niður á bak, lítil gleraugu og alltaf starandi á mann. Óhugnalegur.

Þegar ég var í rauða herberginu heyrði ég alltaf í fiðlum, uppáhalds hljóðfærinu mínu. Margar fiðlur sem hljóma saman er eitt af því fallegasta og sorglegasta sem ég get ímyndað mér, fyrir utan þann gífurlega missi sem varð á vegi mínum. En hverjum er ekki sama um hann, ég verð að læra lifa án hans. Honum gengur víst vel, trúlega komin með aðra upp á arminn. Hann var líka alltaf að horfa á aðrar stelpur þegar við vorum saman, eins og hann væri að leita af einhverju betra. Hann gat svosem léttilega fengið eitthvað betra og er örugglega núna með einhverri gáfaðri, fallegri stelpu sem hann hefur haft auga á lengi. Helvítis ræfillinn. Hvað er ég að hugsa? Ég er ekki skömminni skárri.

Ég vissi að á morgun ætti ég að mæta í kistulagninguna, nú var einhver búinn að farða hann svo hann liti ekki út eins dauður og hann er. Ég ætti ekki að vera þarna, enda vita allir afhverju. En ég var víst svo heppin að vera greind “veik á geði” eftir þetta þannig ég slapp við fangelsisvist. Ég fékk þó að vera á forsíðu DV, það var samt eiginlega það eina sem ég fékk út út því að myrða helvítið.