Eitt sinn var bjó lítill e-strengur í gítar sem ungur námsmaður átti. Námsmaðurinn leigði kvistherbergi undir súð og undi vel við sitt, einkum þegar hann æfði sig á gítarinn milli þess sem hann las heilu kaflana af algebrugreiningu.

Þessi e-strengur hafði verið nýsettur í gítarinn og var þess vegna yngsti og jafnframt minnsti meðlimurinn í strengjafjölskyldunni. Hann þjónaði þeim tilgangi að vera hæsti tónninn í gítarnum og fannst það bara ágætt hlutskipti, jafnvel þótt hann öfundaði stundum dýpri strengina þar eð þeir gengdu ívið mikilvægari hlutverkum við að ljá hljóðfærinu þá töfra sem það bjó yfir. Þegar námsmaðurinn skellti stóru stærðfræðibókinni aftur söng lágt í strengjunum vegna tilhlökkunar því nú vissu þeir að stúdentinn ætlaði að spila á gítarinn og þeir að þenja sig til hins ítrasta til að þjóna tilgangi sínum til fulls.

Djúpi E-strengurinn, sem var jafnframt efstur í goggunarröðinni, tók til máls. ,,Hann ætlar án efa að æfa fúguna eftir Bach sem hann byrjaði á í síðustu viku,“ sagði hann, enda var strengurinn mikill Bach-aðdáandi og vissi fátt betra en þegar stúdentinn sló á sig djúpu bassanóturnar sem fúgurnar eru svo einkennandi fyrir. Þá lét hann vel í sér heyra, þrátt fyrir að yfirgnæfa stundum hina strengina.

,,Æ, ætli hann sé ekki bara að fara út í göngutúr,” sagði þá d-strengurinn. Hann var einn af þessum í miðjunni sem þjónaði hvað minnstum tilgangi nema þá helst að fylla upp í hljóma. Fyrir nokkru síðan ætlaði stúdentinn að skipta um d-streng og tók hann því út úr gítarnum, en átti síðan ekki peninga fyrir nýjum streng. Hann hélt þó áfram að spila án strengsins í þó nokkurn tíma þangað til hann lét hann aftur í. D-strengurinn beið nokkurn álitshnekki vegna þessa enda virtist námsmaðurinn varla taka eftir því að hann vantaði. Eftirvæntingin var því ekki eins rík hjá honum og hjá hinum strengjunum vegna þessa atviks.

En námsmaðurinn var ekki á leiðinni út í göngutúr, enda létu skýin ófriðlega og dembdu vatnsflóði yfir kvistinn og höfðu gert allan þennan dag. Þess í stað tók hann hljóðfærið upp úr gítartöskunni þar sem hún lá opin á gólfinu og byrjaði að stilla gítarinn.

,,Nú verður sko fjör!“ sögðu allir strengirnir til samans og létu ófriðlega af æsingi. Námsmaðurinn þurfti því að endurstilla gítarinn í annað skipti því strengirnir beygðust til og frá, réttu úr sér og sveigðu til skiptis því tilhlökkunin var það mikil.
Sá eini sem lét þetta sem vind um eyru þjóta var litli e-strengurinn. Það var verið að nota hann í fyrsta skiptið og hann vissi ekki alveg hvernig átti að hegða sér. ,,Skyldi þetta vera nokkuð sársaukafullt, að láta plokka sig og slá til og frá?” spurði hann með sjálfum sér þar sem hann stóð lengst úti í kanti og sneri baki í hina strengina.

Að lokum hafði stúdentinn stillt gítarinn og hóf að spila fúguna sem hann byrjaði á í síðustu viku. Fyrst í stað spilaði hann einungis djúpa tóna í drunalega innganginum á tónverkinu og stóri E-strengurinn lét fara nokkuð fyrir sér svo ekki nokkur vafi léki á hlutverki hans. ,,Ég hef beðið eftir þessu óralengi,“ sagði hann um leið og hann sveiflaði sér til og frá svo glumdi í.
Litli e-strengurinn horfði ögn smeykur á. Þegar laglínan í fúgunni byrjaði loksins var röðin komin að honum. Nú þjónaði hann veigamesta tilganginum en stóri E-strengurinn var svo frekur að brátt heyrðist nær eingöngu í honum.

Námsmanninum þótti þetta skrýtið. ”Ætti ég kannski að láta skipta um E-streng?“ hugsaði hann og spilaði þeim mun hærra á hina strengina svo það heyrðist betur í þeim. Það líkaði E-strengnum ekki par við og sveiflaði sér nú með enn meiri krafti en áður. ”Ég skal sýna þessum óreyndu heybrókum hvers ég er megnugur,“ sagði hann og þandi sig nú til hins ítrasta.

Að lokum var hamagangurinn orðinn svo mikill að gítarhálsinn var farinn að sveigjast til og frá og stúdentinn plokkaði efstu strengina til hins ítrasta í fúgunni, enda skiptu þeir hvað mestu máli svo laglínan heyrðist.
Litli e-strengurinn var nú farinn að þreytast nokkuð enda var þetta í fyrsta skipti sem hann var notaður. Hann engdist til og frá í tónverkinu sem engan enda ætlaði að taka. Hann reyndi að halda út lengur, en með hverjum taktinum sem leið dvínaði þróttur hans. ”Ef ég bara næ að þrauka aðeins í viðbót…“


Þegar námsmaðurinn var að ljúka fúgunni slitnaði e-strengurinn skyndilega með svo miklum krafti að hann small í vinstri hönd hans og skarst þar inn.
”Skrýtið, ég var að láta þennan í gítarinn," hugsaði hann um leið og hann horfði á blóðrisa höndina á sér. Síðan lét hann gítarinn í töskuna, lokaði henni og náði sér í þerripappír til að þurrka blóðið. Svo settist hann aftur niður við námsbækurnar.

Í niðadimmu myrkrinu í gítartöskunni lá litli e-strengurinn örendur. Hann hafði ekki þolað álagið út af offorsinu í stóra E-strengnum.

D-strengurinn andaði léttar.