Sundur og saman, yfir brúnna.
Göngum og hlæjum. Hlaupum og öskrum af hlátri. Allt tengt.
Tröllin okkur ekki hræða.
Daginn. Eða kvöldið, fer auðvitað eftir því hvar í heiminum þið eruð stödd.
En hvort sem þið eruð í Sahara eða París þá get ég lofað ykkur að þessi saga er sönn.
Nafn mitt er Ágúst og ég er dýr. Ég er reyndar moldvarpa ef þið viljið fara út í smáatriðin. Líf mitt hefur ætíð verið mold. Örugglega vegna þess að ég hef verið neðanjarðar síðastliðin 20 árin.
Ekki veit ég í hvað tíminn hefur farið. Hvort hann hafi farið til einskis veit ég ekki. Hvort ég sé til einskis veit ég ekki. Reyndar veit engin af hinum moldvörpunum neitt um tilveru þeirra né mína. Þetta er eitthvað sem enginn getur sagt mér. Mig grunar að þetta sé eitthvað sem ég aðeins get ákveðið sjálfur. Og mig langar að ákveða þetta sjálfur.
En það er fyrst núna sem ég uppgötva það að mig langi að ákveða þetta sjálfur. Líf mitt hefur verið uppfullt af mold síðan ég fæddist. Aðrir hafa séð um að ýta mér áfram gegnum moldina. Aðrir hafa séð um að hreinsa mold frá vitum mínum. Aðrir hafa séð um allt mitt líf. Ég hef ekki þurft að gera handtak. En núna er ég tvítugur. Hvað breyttist þegar maður varð tvítugur?
Svarið er einfalt, ekkert breyttist. Ekki strax að minnsta kosti. Það leið tæpur mánuður áður en eitthvað gerðist. Ég var semsagt tuttugu ára og tuttugu daga þegar ég byrjaði að leita. Byrjaði leit mína að eiganda þeirra róta sem ég fann í jarðveginum.
Já, róta.
Það höfðu liðið tuttugu dagar síðan ég hafði fagnað degi fögnuðar barna. Já, börnin fagna þegar ár er liðið. Það gerði ég ekki. Enda þýddi sá fögnuður aðeins það að ég hafði verið gísl moldar í ár að auki.
En þar sem ég lá í moldinni og lét aðra um að strjúka mold frá mér þá uppgötvaði ég hlut í gangnaloftinu. Þessi hlutur var ólíkur moldinni að því leitinu til að þessi hlutur var fastur í sér. Auðvitað vakti þetta áhuga minn. Aldrei hafði ég séð slíkar rætur áður. Enda voru þær allt öðruvísi en aðrar rætur. Á einhvern hátt voru þær fallegar, óútskýranlega fallegar á sinn einstaka hátt.
Og er ég rak loppuna mína til að hreyfa við þessum rótum þá gerðist undarlegur hlutur. Ræturnar hreyfðust í sömu átt og loppan. Er ég snerti ræturnar þá gældu þær við loppuna.
Og tilfinningin var yndisleg. Forvitni mín vaknaði um leið. Hvaða yndislega tré átti þessar frábæru rætur?
Það var komið á hreint. Líf mitt sem markað hafði verið mold og gangnagerð hafði tekið nýja stefnu. Nú skyldi ég eigi fela mig lengur. Ég skyldi taka ljós sólarinnar í fangið og gæla við það. Gæla við það meðan ég leitaði að eiganda rótanna. Og þá hóf ég ferðalag mitt á vit nýrra og óþekktra heima.
Ég byrjaði rólega.
Nærgætinn var ég er ég sópaði moldinni létt af rótunum. Nærgætinn var ég er ég tók mína fyrstu stungu með loppunni minni mjúku í jarðveginn. Ákveðinn var ég í að komast að hinu sanna í þessu máli. Ákveðinn var ég að finna hið yndislega tré. Meðan ég bjó mér til göng til hliðar við ræturnar þá gældu þær við mig. Þetta voru öðruvísi rætur. Þær voru mjúkar í sér og vissu hvað mér líkaði. Mér leið eins og nýfæddum. Þetta var eins og nýtt líf. Ekkert þessu líkt hafði áður komið fyrir mig.
En lifi fararheill eða eitthvað álíka
Ræturnar gældu enn við mig og ég var í sjöunda himni. Yndislegri varð tilfinningin eftir því sem göngin urðu lengri. Stöku sinnum hættu ræturnar að snerta mig og drógu sig í hlé líkt og þær hefðu brennt sig. En ég hélt ótrauður áfram, handviss um að þær myndu halda þessu áfram, sem og þær gerðu. Auðvitað var það erfitt. Þetta var mikið strit að grafa þessi göng. Og ég átti jafnvel erfitt með að halda áfram er ræturnar ekki voru þarna til að hvetja mig.
Og svo voru það steinarnir.
Já, steinarnir sem lágu utaní rótunum fallegu. Ég reyndi að hreinsa þá á brott og tókst það að mestu leiti. En ræturnar vildu ekki losa sig við alla steinana og tók það á í brjósti mér. Bæði þar sem steinarnir augsjáanlega ullu rótunum særindum og einnig þar sem ég þurfti að grafa aukalega til að komast hjá þeim. Sums staðar skildu þeir eftir svöðusár á rótunum. Gerði ég mitt besta til að lækna þessi sár. Ég veit ekki enn hvort mér hafi tekist upp. En ég vona það.
Ég vona.
En ég er heimsk moldvarpa.
Mér þótti gangnavinnan engan endi ætla að taka. Er ég reikaði í blindni í göngunum mínum og reyndi að þreifa mig áfram gerðist ég óþolinmóður. Moldarlíf mitt hafði kennt mér að vera frekur og það gerðist ég. Hóf ég að taka stærri og stærri sundtök í jarðveginum. Það endaði vægast sagt illa. Er ég tók þessar stærri skóflur í tilraunum mínum til að fjarlægja moldina í flýti, beraði ég klær þær sem ég ekki vissi að ég hafði.
Það hlaut að enda illa.
Já, það endaði illa. Ég rak klærnar í mínar elskuðu rætur og særði þær djúpu sári. Ákafinn kom sér vægast sagt illa. Ræturnar drógu sig í langt hlé.
Ég lá kyrr. Lá kyrr og hugsaði um hvað ég hafði gert. Ég hafði sært það sem mér fannst gott í heiminum. Fyrir mér var þetta eins og að deyða sál. Sært hafði ég rætur þær er ég elskaði. Og ég, moldvarpan, saug upp í nefið án þess að vera kvefuð.
Og þarna lá ég áfram, kyrr. Enganvegin vissi ég hvernig ég átti að geta haldið áfram greftrinum.
En eitthvað hvíslaði að mér. Orðin skildi ég ekki. Til þess voru þau of lágvær. Ég reyndi að hlusta en gat ekki heyrt. Það var ekki fyrr en ég lagði eyrað að rótunum að ég loksins heyrði eitthvað. En hljóðið var bull.
Var ég viss um það? Bullið ?
Hljóðið var nefnilega ekki bara bull. Það tók bara tíma að venjast þessu hljóði. Og þar sem ég lá og hlustaði þá skildi ég loksins hluta af því sem ræturnar reyndu að segja mér.
Og mig langaði að heyra meira.
Gröfturinn hélt áfram.
Ég hafði lært af mistökum mínum og reyndi að skafa moldina varfærnislega burt.
En það var erfiðara sagt en gert. Eftir því sem ég komst lengra þá urðu steinarnir fleiri. Og ræturnar ákváðu líka að þær vildu halda fleiri steinum eftir en áður. Hindranirnar hrönnuðust upp.
En ég neitaði að snúa við. Ekki aftur niður í moldarlífið.
Ég ætlaði mér á yfirborðið.
En eftir því sem ofar dró, þeim mun kaldari urðu ræturnar. Ég varð hræddur.
Virkilega virkilega virkilega hræddur. Hvað gat þetta þýtt? Var ég að róta moldinni of hratt á brott? Var ég að færa of marga steina? Gat ég nuddað lífi í ræturnar á ný?
Ég var alveg að springa. Springa af óvissu. Starði og rýndi í óvissuna en var engu nær.
Það var þá sem ég ákvað að taka mér hlé á greftrinum og fylgjast með rótunum.
Ég hélt mig nálægt rótunum og reyndi sem ég hvað best gat að taka utan um þær.
Þær gáfu oftast hljóð frá sér og það koma mér á bragðið með líðan þeirra.
Það var verst þegar þær hættu að gefa hljóð frá sér.
Þá var óvissan sem mest. Ekki gat ég vitað neitt um líðan þeirra. Og kannski var það bara ég en mér fannst einnig sem ræturnar kólnuðu á ný við þessa þögn. Ræturnar hitnuðu nú samt þegar á leið og ég gat haldið áfram greftrinum.
Það var mánuði eftir að ég fyrst hafði hitt ræturnar að ég ákvað að taka sénsinn og koma mér á yfirborðið. Fyrir mér blasti risastórt svart tré. Þar sem ég er einungis vesæl moldvarpa þá átti ég auðvitað í erfiðleikum með að nafngreina tréð. Ég gafst allavega upp á að reyna að nafngreina það. Fannst mér nafngreiningin lítilfjörleg og tilgangslaus.
Mér nægði að vita það að tré þetta var nokkuð það fegursta sem ég hafði augum litið.
En er ég fór nær trénu byrjaði vindurinn að blása. Og mér varð kalt. Mér var ekki ætlað að komast nær trénu. Ekki veit ég hvers vilji það var. Ég kallaði á tréð en það svaraði mér ekki. Hvað var ég annars að hugsa? Hvernig átti ég að geta talað við tré? Tilhugsunin var auðvitað ekkert nema fáránleg.
Ég reyndi nú samt, en sama hvað ég öskraði þá fékk ég ekkert svar.
Og það byrjaði að snjóa.
En ég, moldvarpan, bíð enn í snjónum eftir einhverju tákni.
Sama er mér um kulda og vosbúð, enda hafa ræturnar gefið mér svo miklu meira en ég gæti nokkurntíman farið fram á. Eina sem ég vil er að hljóðin frá rótunum nái upp á yfirborðið svo ég geti virkilega hlustað á þau og skilið.
Ég er moldvarpan Ágúst og ég horfi á tréð þögulega og bíð eftir hljóðum.
Það besta sem guð hefur skapað er nýr dagur.