,,Skarpi, Skaaarpiiii! Andskotinn hafi það Skarpi drullastu til að vakna við erum í skólanum ekki fokkin draumalandi ungi maður!” öskraði Karl íslenskukennari bara til að gera honum lífið leitt. Hann lá aðeins fram á borðið og var strax skammaður. Hákon hinsvegar mátti liggja alveg eins og hann vildi, aldrei var hann skammaður. Bara Skarpi. Skarpi var að verða búinn að fá nóg af þessu. Allir hafa sín takmörk, núna var mælirinn fullur. Hann gat ekki verið hérna lengur. Hann var of reiður og of niðurlægður til að vera þarna sekúndu í viðbót. Dúndraði pennaveskinu ofan í töskuna og rauk út án þess að segja orð. Hurðin skelltist hátt.

,,Pff.. farið hefur fé betra, ekki sammála krakkar?” sagði Karl kennari.
Allir kinkuðu kolli eða gáfu frá sér einhverskonar samþykkjandi hljóð. Það var öllum alveg drullusama.

,,Djöfulsins andskotans helvítis hóra!” Skarpi labbaði inn, heyrði þetta og svo ekkasog móður sinnar á milli fúkyrðanna frá þessum manni. Hann gekk aftur niður stigann.

Andskotans tilgangslausa líf. Hann ráfaði um. Einn. Sá krakkana úr skólanum stefna í sjoppuna í hádegismat. Nennti ekki að mæta þeim og labbaði niður götuna. Sá ungan föður með son sinn, sennilega þriggja ára. Gat ekki horft á þá lengi. Fékk tár í augun. Djöfull var það sársaukafullt að sjá þetta. Sársaukafullt að sjá hamingju annarra. Hversu kaldhæðið er það? Hann átti ekki skilið neina hamingju. Ekki hann.

Honum var kalt og hann var orðinn helvíti blautur. Það höfðu verið skúrir þennan dag. Hann vissi um gott skjól fyrir nóttina. Hann gat ekki afborið að fara heim. Heim til helvítis. Hann labbaði upp með götunni sem að hann þekkti svo vel. Hérna var hans annað heimili. Hann kunni betur við sig hér. Reyndar mundi hann eftir fæstu sem fór hér fram. Hann var svo heppinn að þekkja fólk sem að þekkti fólk. Það voru sóðalegar dýnur út um allt. Sumar útbrundaðar. Aðrar brúnar af drullu. Hann fann sinn stað. Lagðist niður. Hugsaði um allt. Allt sem var, er og mun aldrei verða. Svo sveif hann á sinn uppáhaldsstað. Þar sem að allir voru saman á ný. Í lífi og dauða, eða þar rétt á milli. Hann fékk heit faðmlög frá föður sínum. Ástríkt augnaráð frá móður sinni. Góða, heita máltíð svona til tilbreytingar. Allt þetta hafði verið tekið af honum eina stormasama apríl nótt. Þegar að heimurinn svaf og allt lék í lyndi. Þá kom þessi alda. Feykti honum burt, í greipar hafsins. Svo byrjaði endirinn..