Ungt par situr og horfir yfir vatnið þar sem sólsetrið speglast rauðgullið í léttum gárunum og þar sem fuglar sitja sem svartir skuggar og teygja úr vængjunum. Pilturinn og stúlkan kyssast innilega og loftið er titrar af rómantík.
Þau líta yfir vatnið og brosa.
Hans lítur aftur á Ylfu og horfir á hana í smá stund áður en hún lítur við. Þá tekur hann laust um höku hennar og horfir í augun á henni um stund. Og svo:
- Ylfa.
- Já?
- Hefurðu verið með öðrum strákum?
Ylfa verður hvumsa, hún bjóst ekki við þessari spurningu núna. Hans heldur áfram:
- Hefurðu kysst einhvern annan?
Ylfu fynnst spurningin ekki við hæfi á þessu augnabliki en ákveður að láta það ekki fara í taugarnar á sér.
-Ja, já. En bara einn.
-Hver var það?
-Hann heitir Einar.
-Ég drep hann.
Hans fjarlægir höndina og lítur af henni. Hann hallar sér aftur og styður sig við hendurnar meðan hann horfir yfir vatnið enn á ný og á sólsetrið bak við trén. Ylfu er brugðið, þetta fannst henni ekki fyndið og alls ekki við hæfi á svona yndislegum stundum.
-Hans…?
-Ég hef aldrei kysst neina aðra en þig. Þú ert fyrsta kærastan mín. Hann brosir til hennar. Ylfa brosir á móti og bros Hans breikkar.
-Þetta var ekki fyndið, Hans.
-Mér er alvara! Þú ert mín eina! svarar Hans og Ylfa hlær og danglar lauslega í hann en svo fallast þau í faðma og kyssast á ný.
Hans stígur út úr bílnum og tekur með sér það sem þarf. Hann gengur að dyrum að húsi og hringir dyrabjöllunni. Honum er hleypt beint inn. Á leiðinni upp stigaganginn mætir hann konu sem ávarpar hann:
-Varst þú að hringja hjá okkur?
-Já.
-Það er opið, þú getur farið beint inn. Má ég samt biðja þig um að fara úr skónum áður en þú ferð inn, ég var að þrífa.
-Auðvitað, ég geri það.
Konan brosir og gengur fram hjá en Hans heldur áfram upp.
Hann kemur að réttu íbúðinni og gengur inn, án þess að taka af sér skóna. Allt er snyrtilegt og greinilega nýþrifið hátt og lágt. Hann heyrir að það er einhver heima. Hann tekur skothylki úr vasanum á úlpunni sinni og hleður haglabyssuna. Svo ákveður hann að fara úr úlpunni og leggur hana á stólbak við dyrnar sem hann hallaði aftur. Hann gengur nokkur skref og kallar á Einar.
-Er að koma!
Það heyrist fótatak og Einar kemur gangandi með handklæði um höfuðið án þess að líta upp.
-Ég kom til að kveðja. Einar.
Einar lítur upp og í sama mund reisir Hans byssuna. Einar lítur beint í byssuhlaupið og nær að hvá áður en Hans tekur í gikkinn. Hvellur bergmálar og andlit Einars splundrast og blóð og heilaslettur þeytast í allar áttir. Einar fellur aftur fyrir sig og liggur kyrr á bakinu, andlitslaus með öllu.
-Jæja, þá er því lokið.
Hans lítur í kringum sig.
-Ansans, ég má ekki gera mömmu hans þetta, hún sem var að þrífa alla íbúðina.
Hann leggur frá sér byssuna upp við vegginn og nær í tusku og þurkar upp það blóð sem hann getur og hendir höfuðkúpubrotunum sem hann finnur. Hann stynur við þegar hann kemst að því að það er aðeins erfiðara að þrífa blóðið en hann bjóst við. Hann bleytir tuskuna og nuddar blettina, bleytir og nuddar, aftur og aftur þar til hann er búinn að þrífa allar sletturnar og sporin eftir skítuga skóna. Þá skolar hann tuskuna eftir bestu getu, vindur hana og skilur hana eftir á vaskinum. Hann klæðir sig aftur í úlpuna og ætlar að renna upp þegar:
-Nei, oh!
Hann hristir höfuðið yfir gleymskunni í sér. Þvínæst gengur hann nokkur skref að vaskinum og nær í tuskuna, bleytir hana einu sinni enn og reynir að strjúka blóðblettina úr fötunum. Það gengur ekki.
-Ojæja, skiptir ekki svo miklu.
Hann skolar tuskuna í síðasta sinn og gengur frá henni, rennir upp, grípur haglabyssuna á leiðinni út og lokar á eftir sér.