Bára var ákveðin og sterk manneskja, mjög greind og skemmtileg. Hinir nemendurnir hópuðust að henni til að heyra hennar sögur sem voru svo fyndnar að þeim varð illt af hlátri.
Einn morgunn, á mánudegi, kemur deildarstjórinn inn með tilkynningu. Hún Bára hringdi í morgun. Hún var að missa pabba sinn og kemur ekki meira í skólann. Nemendunum bregður og það verður dauðaþögn. Hugsanirnar streyma og andrúmsloftið verður samúðarfullt. Aumingja Bára! Vinkona hennar, hún Sólveig vissi hvað Bára og pabbi hennar voru náin. Þau áttu sinn húmor og skemmtu sér vel. Heimili þeirra fylltist alltaf af gestum því þetta var svo bráðskemmtileg fjölskylda sem gaf svo mikið af sér. Fólki leið eins og heima hjá sér og meira til.
Fjórum dögum eftir tilkynninguna koma minningagreinar um pabba hennar og þær voru ófáar. Þau voru svo vinamörg og þá sérstaklega faðir Báru, hann Friðbjörn.
Sólveig fann svo mikið til með henni að henni fannst eins og hún sjálf væri að lenda í þessu, þetta tengdist henni auðvitað líka því þær voru ágætisvinkonur en ekki æskuvinkonur.
Bára mætir einn daginn í skólann. Nokkrir nemendur votta samúð sína og faðma hana að sér en hinir vita ekki hvernig þeir eiga að taka þessu og segja ekki neitt við hana…þeir vita bara ekkert hvað á að segja við svona hörmulegri sorg.
Hann var bráðkvaddur. Gæti það þýtt það sama og vöggudauði hjá börnum? Sólveig var lengi búin að velta því fyrir sér en komst auðvitað aldrei að niðurstöðu því vöggudauði er líka ólýsanlegur.
Sólveig átti svo erfitt með að sjá þennan sorgarsvip, því mæddari svip hafði hún aldrei á ævinni séð, henni varð illt og hún táraðist og fékk kökk í hálsinn en ekki jafnfastan kökk og Bára hlaut að vera að reyna að kyngja. Allir létu Báru í friði þennan dag, en Sólveig var viss um að það þurfti að gera eitthvað meira en það til að sýna meiri en samúð. Lífið heldur auðvitað áfram en þetta verður alltaf stórt ör í lífi Báru og annarra sem eftir standa. Hún var svo sterk og hugrökk að koma í skólann. Hver nennir að hanga heima í þessu tómarúmi sem ekkert fyllist í og leggjast í sorgarþunglyndi í langan tíma? Það myndi gera illt verra. Það verður að dreifa huganum til að halda heilsunni í aðeins meira jafnvægi. Sólveigu fannst tími til kominn að bæta úr þessu og láta ekki eins og Bára væri ekki þarna. Hvað ætti hún að gera?? Hún gæti gengið að henni og faðmað hana en hvað ef hún færi að hágráta? Myndi hún vilja tala um sorgina? Var hún tilbúin til þess svona fljótt. Sólveig hafði aldrei farið í jarðarför og átti sínar ömmur og afa ennþá. Hún hafði aldrei átt samskipti við fólk sem hafði misst ástvini. Bára fór snemma heim og treysti sér ekki til að vera lengur. Hún vildi taka eitt skref í einu.
Sólveig fór heim frekar mædd fyrir hönd Báru og sagði fjölskyldu sinni að Bára væri svo sterk að mæta í skólann.“Ég get ekki ímyndað mér hvað ég brygðist illa við að missa foreldri, það væri hræðilegt því fjölskyldur standa svo mikið saman og hjálpar hvert öðru þegar eitthvað er að. Svo þegar merkisviðburður gerist í fjölskyldunni, þá viljum við að allir séu að fylgjast með. Margir segja:”Nú hlýtur afi heitinn að vera stoltur af mér þegar hann sér niður til okkar". En ef hann sér svo ekkert til okkar og er bara alls ekkert til nema í okkar huga? Það er leitt að vita ekki hvort er satt. Hvort þeir látnu sjái til okkar eða ekki. Afi Sólveigar safnar t.d. ljóðum eftir hana sjálfa. Hvað ef hún semur eitthvað meistaraverk þegar hann er svo farinn frá henni? Hún er mjög náin afa sínum og ömmu og getur ekki ímyndað sér líf án þeirra. Þau eru ómissandi á jólunum! Þau eru svo skemmtileg og afi segir svo fyndnar sögur. Hver á að segja þessar sögur næst?
ENDIR