Það sem maður gerir í dag, er oft ekki það sem maður lagði af stað með. Þegar ég var ungur stráklingur vissi ég í raun og veru ekkert um lífið, hvað mig langaði, hvað ég ætti að gera eða hvað myndi verða um mig.

Æskan mín er hálfgerðu móki, man að ég hugsaði mikið, var mikið að búa til sögur og ímynda mér hitt og þetta. Hvernig líf mitt væri ef ég væri ríkur, hvernig það væri ef ég væri öðruvísi, hvernig líf mitt væri ef foreldrar mínir létust. Já, hugur minn flaug um víð og dreif þegar ég var ungur.

Þegar ég varð táningur eyddi ég miklum tíma í tölvuleikjum og að horfa á sjónvarp. Auðvitað gerði ég hluti eins hinir, lék mér í fótbolta, körfu, fór á fyllirí, kyssti stelpur og allt þetta. En ég kunni aldrei við það að hanga lengi með hópi af krökkum, leiddist það alveg óskaplega. Átti mér alltaf einn besta vin sem ég gerði allt með, auðveldara að treysta einum en mörgum.

Mér var als ekki sýndur mikill agi og fékk að gera flest allt það sem ég vildi. Svo að þegar ég fór í framhaldsskóla, og þurfti að taka ábyrgð á náminu, gerði ég það sem mig langaði, frekar en það sem ég þurfti. Eftir nokkur ár fékk ég leið á þessu og fór að vinna, komst að því að mig leiddist það álíka mikið og skólann. Svo að ég gerði það sem flestir hefðu gert í mínum sporum, fór að selja landa.

Keyrði um bæinn nokkur kvöld í viku með vin minn með mér, fann bestu partíin og djammaði mikið. Eftir nokkra mánuði var ég farinn að þéna hátt á annað hundrað þúsund á mánuði og eftir hálft ár var ég farinn að selja nokkrum sölum sjálfur svo að ég þurfti varla að gera neitt sjálfur. Í gegnum landasöluna kynntist ég nokkrum krökkum sem voru í dópinu.

Ég komst að því að alvöru gróða var að finna annars staðar. Ég komst í góð sambönd. Ég gat keypt gramm af spítti á tvö þúsund og selt það á fjögur, ég gat keypt gramm af kóki á níu þúsund og selt það á fimmtán. Í stað þess að kaupa lítir af landa á fimm hundruð og selt á eitt þúsund og fimm hundruð.

Ég passa mig alltaf á því að nota aldrei sjálfur, drykkjan nægir mér. Það er bara nóg að sjá þessa dópista væla um að fá lánað, skítuga, illa lyktandi. Nei, ég hef önnur plön, stærri plön.

Ég geri það sem ég vill, á flottan bíl, flotta íbúð og get keypt mér ný föt þegar mér sýnist. Hvað með siðferðið, gæti einhver spurt. Líður þér ekki illa að vita að því að þú ert að græða á ógæfu annarra? Þá spyr ég, hætta þau að nota ef ég hætti að selja? Við vitum öll svarið. Og hvaða siðferði eigið þið eiginlega við. Það er ekki eins og það sé til eitthvað alheimslögmál um hvað er rétt og rangt. Siðferðislögmál eru sprottin frá aldargömlum trúarbrögðum, hugmyndum sem eru löngu úreltar. Það er aðeins eitt sem skiptir máli, hamingjan, og það eru hundrað þúsund milljón mismunandi leiðir að henni, sér leið fyrir hvert mannsbarn. Ég fann mína leið, en hvað með þig, hefur þú fundið þína? Látum ekki aðra hugsa fyrir okkur, fylgjum eigin sannfæringu, því þá fyrst erum við frjáls.