Ég vil taka það fram að þetta er bullsaga.
Það var einu sinni bóndi sem hafði það furðulega áhugamál að safna hænum. Frá því að hann sá mynd sem fjallaði um hænu sem verpti gulleggjum var hann staðráðinn í því að finna hænu með svipaða hæfileika. Það var einn sólríkan veðurdag sem hann fékk sendingu af hænum frá Vopnafirði sem hann hafði verið búinn að bíða eftir í nokkrar vikur. Hann var mjög spenntur og opnaði gáminn strax en þá spruttu hænurnar út og hlupu út um víðan völl. Hann elti þær langa lengi þar til hann gat ekki meira og hné niður örmagna.
Hann vissi ekki af sér um langa hríð, en þegar hann opnaði augun heyrði hann ráma rödd tala og tala og hann skildi ekki neitt. Hann reis upp og sá sér til mikillar furðu að hann var umkringdur símasandi hænum sem virtust eiga við hann brýnt erindi. Hann rak upp óp og þá sló þögn á hænuhópinn. Tóku nú hænurnar að þrengja hringinn utan um bóndann þar sem hann sat á túninu. Hann var viss um að hann væri að dreyma svo hann kleip sig fast í kinnina. En engu breytti það, og hænurnar nálguðust hann með óhugnanlega eggjandi augnaráði. Hann staulaðist á lappir og ætlaði að labba gegnum hænuþröngina en þá stöðvaði höfðingi hænanna hann og hrópaði eitthvert óskiljanlegt heróp. Svo baðaði hún út vængjunum og gerði sig líklega til að fljúgast á við hann. Vinkonur hennar gögguðu hvatningarorð sem hljómuðu eins og: “áfram, Lofthæna!” Hann tók eftir því sér til skelfingar að hænan var vopnuð eggvopni. “Bannsettur Vopnafjörðurinn,” stundi hænusafnarinn og bretti upp ermarnar. Hann velti því fyrir sér hvort þetta væri venjulegt hænueggvopn eða gulleggvopn. “HANA NÚ! hrópaði hann og reyndi að afvopna hænuna. Áður en hann vissi af birtust hanar fyrir aftan hann í hundraðatali. Þar sem hænurnar voru bara um 50 talsins áttu hanarnir auðvelt með að koma vitinu fyrir þær. Þeir smöluðu hænunum inn í hænsnahúsið og eftir örlítinn tíma var allt komið í ró á ný.
Hænurnar urðu brátt ansi hændar að hönunum og eftir að bóndinn hafði skellt í lás hrópaði hann til hænanna með djúpri röddu:
“Heppilegast er að hænurnar dúsi
í hænsnahúsi!”
Eftir að hann hafði látið þessi gullkorn falla heyrði hann málmhljóð innan úr hænsnahúsinu. “Getur það verið?” sagði hann, gekk að húsinu og opnaði það. Það blasti við honum undursamleg sjón. Það lá skínandi fagurt gullegg í heyinu. Hann tók það upp og þefaði af því. Gulllykt!!!
“Ég lét gullkorn falla, ég lét gullkorn falla! Þessar hænur nærast ekki á venjulegu korni. Ef þær eru fóðraðar á gullkornum þá skilar það sér í gulleggjum!” Hann hoppaði upp af gleði og lét dæluna ganga af allskyns fagnaðarópum.
Eftir þetta atvik las bóndi fyrir hænurnar málshætti og orðtök á hverju kvöldi og árangurinn var stórkostlegur. Græddi hann mikið fé á þessum iðnaði og varð fljótlega einn ríkasti bóndi á Íslandi.
Lýkur hér sögu af bónda þessum og hænum hans.
kv. Jói P