Stóð við gluggann og horfði út, ég var að skoða fólkið sem var
að labba framhjá, ótrúlegt hvað það er ólíkt, fólkið sem labbar Laugaveginn dag hvern.
Ég var nokkuð vel stemmd þennan dag, var búin að vera dugleg allan morguninn og var bara nokkuð stolt af sjálfri mér. Fyrsti dagurinn sem ég stjórna þessum stað, svo til ein.
Ég var að skera niður agúrkur þegar þú labbaðir inn, það vantaði meira í dolluna og það er gott að vera búin að skera niður allt grænmetið þegar næsta vakt kemur og tekur við. Mér var ótrúlega heitt, bolurinn límdist við bakið á mér, samt var viftan á fullu spani.
Sólin var búin að skína miskunnarlaust í nokkra daga og ég , eins og allir íslendingar,elskaði þessa daga. Endilega fá meira af þessu. Hlakkaði til að komast út í sólina þennan dag, nú er sko komið almennilegt sumar! Hlakkaði til að geta rölt áfram niður
Laugaveginn og fengið svona útlandafílíng. Til hvers er fólk að fara til sólarlanda þegar veðrið er svona?
Ég sá þig labba framhjá glugganum, upp tröppurnar og svo opnaðir þú hurðina.
Þú sagðir halló, réttir mér hálfslíterflösku um leið og þú spurðir hvort það væri möguleiki á því hvort þú gætir fengið smá vatn í hana.
Ég leit á þig og sagði þér að það væri nú bara ekkert sjálfsagðara, í öllum þessum hita. Spurði hvort
þú vildir ekki klakavatn sem ég var með í könnu á borðinu. Þú játtir því, örugglega mjög feginn.
Ég sá líka að þú varst einn af þessum ógæfumönnum sem búa í miðborginni. Einn af þeim sem
hvergi eiga heima. Það var þó ekki vond lykt af þér og þú varst þokkalega vel til fara, miðað við félagskapinn sem menn eins og þú, eru oft í. Menn sem eiga frelsið og eru engu háðir, nema þá veðrinu.
Þú kvartaðir yfir því hversu sólbrunnin þú værir, hvað sólin væri miskunnarlaus þeim sem hvergi eiga höfði sínu að halla og hvergi ættu skjól. Áður en ég vissi af, og áður en þú gast blikkað auga, var ég rokin inn í eldhús. Í bleiku töskunni minni geymdi ég sólarvörn með faktor 20, ég greip hana með mér í morgun,
af því að ég vissi að það ætti að vera sól í dag. Ég er svo ljós á húðina nefnilega.
Ég rauk að þér með appelsínugulan brúsann í hendinni. Þú sagðir ekkert, mótmæltir engu. Ég spurði ekki einu sinni.
Ég spreyjaði góðri slummu í lófann á mér, greip svo í hendina á þér og fór að bera áburðinn á þig.
Sagði að þú myndir ekki brenna mikið meira þennan dag. Þyrftir að halda þig í skugga þar til vörnin færi að virka.
Þú fylgdist bara rólegur með, alveg sáttur við það að einhverjum væri ekki sama um þig, hálfhissa, en ánægður.
Þú spurðir bara hvort þú mættir smakka á kalda kjúklingnum á borðinu, ég sagði að það væri nú minnsta málið.
Ég hafði skorið niður kjúklinginn í indverskan rétt sem ég ætlaði að gera aðeins seinna.
Þú varst greinilega svangur, sagðir að þér þætti þessi kjúklingur góður. Hvor þú mættir fá pínu meira? Jú, mér
þótti ekkert sjálfsagðara.
Meðan þú tuggðir kjúklinginn, bar ég kremið á kollvikin. Þú er með há kollvik sem eru orðin skaðbrennd í sólinni,
hugsaði með mér að þú þyrftir að eiga hatt.
Ég sagði þér að þú glansaðir, þú spurðir mig hvort þú værir eins og glanspía, ég játti því og hló.
Þegar ég var búin að setja á þig kremið spurðir þú hvenær ég lokaði. Ég sagði þér að ég lokaði klukkan átta. Þá sagðiru
við mig að þú ætlaðir að koma fimm mínútur í átta og biðja mín. Ég hló við og sagði þér að ég væri lofuð, þú hlóst
líka og sagðir að þú værir að grínast, þú værir líka lofaður.
Ég óskaði þér góðs dags og þú labbaðir ánægður með vatnið og vörnina út í sólina.
Hurðin skall aftur um leið og bjallan hringdi, bjallan sem lætur mig vita af umferð um þessa hurð.
Það var eins og bjallan vakti mig, hvað hafði ég verið að gera?
Greip ég í róna og bar á hann sólaráburð? Og alveg án þess að spyrja?
Já það hafði ég gert… og fyrirgefðu að ég skyldi hafað kallað þig róna, herra maður sem býr utandyra allan ársins hring.
Herra maður sem ég veit ekki hvað heitir.