Um vorið var allt breytt, einhvernveginn. Hann var farinn og tók víst barnið með sér.
Ég sit hérna í stofunni heima hjá mér á nærbuxunum og reyki. Er ekki búin að gera neitt annað síðustu daga.
Ekki einu sinni farið í vinnuna. Eða skólann. Ekki vaskað upp, ekki skipt um rusl, ruslið flæðir útum allt í eldhúsinu hjá mér.
Er held ég búin að vera í sömu nærbuxunum í þrjá daga. Annars man ég það bara ekki.
Það er dregið alveg fyrir. Gluggatjöldin eru þykk og það kemst ekki ljóstýra innfyrir þau. Ég heyri í krökkum fyrir utan gluggann hjá mér. Þau tala hátt, skríkja og syngja. Það fer í taugarnar á mér. Vildi að ég hefði kjark í að fara útí glugga til þess að öskra á þau. “Einn, tveir, þrír, fjórir fimm, dimmalimm” heyri ég í gegnum gluggann.
Hárið á mér er klesst við vangana af skít og það er súr svitalykt af mér, en mér er sama. Mér er sama um allt.
Hvað átti ég að gera núna? Þegar hann er farinn?
Ég lít á gólfið og sé kubba og litla bók sem hún á. Litla yndið mitt. Bókin er lítil og er úr plasti, henni þótt ofsalega gaman að hafa hana með sér í baði. Það eru myndir af dýrum á henni og hún var farin að geta sagt nöfnin þeirra. “Huddu, tisa, fílli….” Sagði hún. Ég fæ aldrei að heyra þetta aftur. Aldrei. Er ég viss um.
En ég ætlaði aldrei að særa hana. Meiða hann. Veit ekkert af hverju þetta fór svona. Hvernig ég endaði á því að sitja hér innan um tómar kókflöskur og yfirfulla öskubakka. Með hárið klesst við mig. Ekki farið í bað í þrjá daga.
Hann sagðist elska mig, hann sagði að ég væri sú eina fyrir hann. Ég trúði honum alltaf. Líka þegar ég var vond.
En þá sló hann mig á kinnina og ég lofaði að gera það ekki aftur. Aldrei aftur.
Hún horfði á. Hún horfði alltaf á og ég er alveg viss um að hún hafi alveg vitað það að mamma hennar hafi verið vond kona. Sem kunni ekkert. Og gat ekkert.
Hann vissi alltaf af því ef ég gerði eitthvað af mér, þegar ég var óþekk. Veit ekki alveg hvernig hann vissi það, en hann vissi það bara alltaf. Ég passaði alltaf að koma heim á réttum tíma, passaði að hafa alltaf allt tilbúið fyrir hann þegar hann kom heim, þegar hann vaknaði, þegar hann kom úr sturtu eða þegar hann kom heim eftir að hafa farið í heimsókn til vinar síns. Þá kom hann heim, angandi af viskíi og ilmvatni. Vinur hans er ,,besti” vinur hans. Mátti ekki samt ekki vita hvað hann heitir sá, það kostaði mig handleggsbrot, en ég átti það skilið. Ég átti ekki að spyrja.
Ég kveiki í annari sígarettu með hinni. Sýg fast að mér reykinn og finnst það gott. Ég stend upp og finn til sársauka í mjöðminni og bakinu. Þegar hann fór þá átti ég að fara með, hún átti að vera hérna hjá mér. En hann tók hana.
Hann sparkaði í mig, sparkaði svo fast að ég datt niður. Hann sparkaði í bakið mitt, og hann sparkaði í höfuðið á mér. Ég setti ekki einu sinni hendurnar fyrir mig, ég átti það skilið. Ég átti ekkert að reyna að stoppa hann, hefði mátt vita það að hann myndi reyna að drepa mig.
Ég lít á hendurnar á mér, lít niður á brjóstin og rifbeinin. Hann brenndi mig með sígarettu, sígarettum. Öll þessi ör tók hann langan tíma að gera. En það var svosem gott að finna sársaukann, því þá var ég til, þá fann ég til.
Vissi að ég hefði verið vond, ofsalega vond.
Hann lét mig vera þegar ég átti stelpuna. Bara þá, ég var nýbúin að jafna mig eftir skurðinn á maganum á mér, það var nýbúið að taka úr mér saumana þegar hann sló mig aftur. En það var allt í lagi, því ég hafði ekki verið tilbúin með matinn þegar hann kom heim, átti það skilið.
Ég lít niður á líkama minn og sé hvað ég er orðin grönn, eða grönn er kannski ekki orðið, horuð væri kannski meira í áttina. Mjaðmabeinin standa langt útúr mér og bringubeinið og rifbeinin út fyrir flöt og pokaleg brjóstin.
Ég er búin að hugsa um það, en reyni að bægja hugsuninni frá mér. Þetta er orðið yfirþyrmandi. En mér finnst það gott. Hlakkar smá til.
Teygi mig í glasið og opna það, heyrist smá smellur og um mig fer smá hrollur. Gleypi hratt í mig innihaldið og velti því fyrir mér hvort ég eigi að skola því niður með kókinu eða vodkanu sem hann skildi eftir. Leiði hugann aðeins að Þeim, en bægi þeim hugsunum hratt frá mér.
Þetta er búið.