"Innan gæsalappa" Þetta er stílæfing sem ég gerði fyrir Frásagnartækni uppi í háskóla í vetur. Stikkorðið fyrir æfinguna var “Gæslappir”…



„Þegar ég vakna stendur slanga upp úr hálsinum á mér. Tvö lítil rör liggja sitt úr hvorri nösinni. Ég þarf að gubba.
Ég veit hvað ég þarf að segja þeim. Fór yfir það margoft í höfðinu áður en ég bar pilluglasið skjálfhentur að munninum.
Ég var með hausverk. (Innan gæsalappa). Hann fór ekki, svo ég gleypti fleiri og fleiri verkjatöflur þangað til ég sofnaði. Óvart. (Innan gæsalappa).
Ég reyni að snúa hausnum, en er of máttfarinn. Ég finn slönguna nuddast upp við barkann á mér og kúgast.
Hefurðu einhverntíma kúgast með slöngu ofan í hálsinum? Mæli ekki með því.
Þeir eiga eftir að koma með geðlækni, sem á eftir að spyrja mig allskyns spurninga sem ég mun að sjálfsögðu svara eftir bestu getu. (Innan gæsalappa).
Ég er sáttur við sjálfan mig.
Sáttur við lífið.
Myndi aldrei láta mér detta í hug að svifta mig lífi.
Ég hef stjórn á lífi mínu.
(Allt innan gæsalappa).
Sígarettu. Kaffibolla. Valíum. Núna.
Ég horfi upp í loftið á stofunni og tel vatnsbólurnar í málningunni. Flúorperan er að klárast, blikkar eins og stróbljós.
Ég elska konuna mína. (Innan gæsalappa).
Hjúkrunarkona bograr sig yfir mig og aðgætir hvort allar slöngurnar séu í lagi. Þykk slanga liggur inn í handarbakið á mér. Ég er tengdur við hjartasírita og vél sem segir ping! í sífellu.
Ég reyni að benda hjúkrunarkonunni á að taka slönguna úr nefinu á mér. Að draga rörið úr hálsinum á mér.
Hún klappar mér á handarbakið. Brosir taugaóstyrk. Hringir á lækni.
Ég er búinn að vera með verk í höfðinu í viku. (Innan gæsalappa). Verk í sálinni kannski.
Ég ruglaðist á töflum. (Innan gæsalappa). Er það tilviljun að sterku verkjalyfin líta alveg eins út og allar aðrar töflur sem ég á? Vægar vöðvaslakandi töflur. A og D vítamín.
Geðlæknirinn spyr mig hvort það sé geðveiki í ættinni.
Kannski í orði, innan gæsalappa, en það hefur aldrei truflað mig.
Ég er í góðu andlegu ástandi.
Innan gæsalappa.“

Ég opna augun. Margir mánuðir síðan læknirinn las tilvitnanir í sjúkan huga en ekki milli línanna. Ég horfi á svartklæddan mann, sem heldur á bók. Hann hendir mold framan í mig. Ég reyni að hreyfa mig en get það ekki. Svo síg ég ofan í jörðina.
Ég er ekki dáinn. Ekki nema innan gæsalappa.
We're chained to the world and we all gotta pull!