Þetta er stutt smásaga sem ég sendi í smásagnakeppni fyrir ekki svo löngu. Hún vann að vísu ekki en mér fannst samt nægilega varið í hana til að leyfa ykkur að kíkja á hana og segja hvað ykkur finnst. Þetta er ekki alveg sama útgáfa og ég sendi í keppnina heldur fékk ég vin minn til að fara yfir hana og hún kom með ýmsa góða punkta sem ég síðan notaði hér. En endilega lesið yfir þetta og segið mér hvað ykkur finnst.
———————————————- ———–
Stundarbrjálæði
Hann stóð yfir henni þar sem hún lá í rúminu. Lakið krumpað, annar púðinn lá á gólfinu og sænginn huldi ekki nema hálfan líkama hennar. Hann horfði á hana. Hún var jafn falleg og þegar hann hafði hitt hana fyrst. Hann mundi eftir því eins og það hefði gerst í gær.
Vinur hans hafði fengið hann til að fara á blint stefnumót. Hún var vinkona kærustu vinar hans. Hann hafði aldrei hitt hana áður en hann óskaði þess daglega að hann hefði gert það, bara til þess að hafa lifað með andliti hennar í huganum aðeins lengur. Hún var fegursta manneskja sem hann hafði nokkurn tíman kynnst. Augu hennar ein gátu fyllt dapran huga hans af gleði.
Þau héldu svo áfram að hittast, stundum fóru þau út og stundum voru þau heima. Ást þeirra var, að hans mati, óendanleg. Ekkert skyldi nokkurn tíman aðskilja þau. Aldrei.
Svo gerðist það. Mesta hamingjustund hans. Hún tilkynnti honum að hún ætti von á barninu hans. Í þrjá mánuði vann hann yfirvinnu til þess að geta keypt hinn fullkomna hring, og í maí bað hann hennar. Þau giftu sig svo í ágúst og í byrjun desember mánaðar eignaðist hún son. Þetta var fyrir fjórum árum.
Þau áttu einnig sínar döpru stundir, þó svo að hann vildi ekki muna eftir þeim núna. Ekki eftir það sem hann hafði gert. Hann gat samt ekki ímyndað sér hvers vegna þetta hafði farið svona. Hvers vegna hafði þetta farið eins og það fór? Hvers vegna? Hvers vegna? Þessi orð bergmáluðu í huga hans. Hefði þetta gerst hefði hann ekki komið fyrr heim úr vinnunni? Hefði hann getað haldið áfram sínu eðlilega lífi ef hann hefði ekki komið að þeim saman? Nei, hann hefði komist að þessu fyrr eða síðar. Ekkert hefði getað breytt því.
Hann leit á vin sinn þar sem hann lá við hliðina á henni, jafn nakinn og hún sjálf. Hann leit á þau bæði og velti fyrir sér hvenær þetta hefði byrjað. Byrjaði þetta í áramótaveislunni þegar þau kynntust fyrst? Eða í jólaboðinu sem hann hafði haldið í nýja, fína húsinu sínu? Hann vissi það engan veginn. Hann vildi ekki vita það.
Hvað gat hann gert? Hvað átti hann að segja lögreglunni þegar hún kæmi? Hvað gat hann sagt konu vinar síns? Hvað gat hann sagt syni sínum? Hvað gat hann gert? Hvað átti hann að gera? Hann settist grátandi út í eitt hornið á herberginu og lagði hendurnar um höfuð sér. Hann leit aftur á það sem hann hafði gert með tárin í augunum. Hann leit á ástkæra eiginkonu sína og besta vin sinn, saman upp í rúmi.
Hann brotnaði niður. Hann hafði aldrei grátið eins mikið og einmitt nú. Hann vissi ekki hvað hann gat gert eða hvers vegna hann hafði gert það sem hann gerði. Hann leit einu sinni enn á konuna sína. Hann gat ekki lifað án hennar, ekki eftir það sem hann hafði gert.
En hvað með soninn? Hann gat ekki bundið enda á líf sitt, ekki á meðan sonur hans væri svona ungur. Hann mundi eflaust enda á munaðarleysingjahæli þar sem líf hans yrði óbærilegt. Sem faðir gat hann ekki látið það gerast. En hann gat ekki haldið lífi sínu áfram.
Hann sat lengi í horninu. Hugsaði hvað hann ætti að gera, hvað hann hafði gert og hvað hefði getað orðið. Einbeitiningin var engin. Hann gat bara ekki hugsað um nokkurn skapaðan hlut án þess að hugsa um eitthvað annað. Hvers vegna þá að hugsa nokkuð? Væri ekki best að drífa bara í þessu?
Hann stóð upp og gekk að konunni sinni þar sem hún lá svo friðsæl. Hann faðmaði hana að sér og sagði að það sem hann myndi gera væri öllum fyrir bestu. Hann tók því næst byssuna sem lá á náttborðinu, dróg djúpt andan og gekk því næst inn í barnaherbergið.

Óskar Örn Eggertsson, aka lundi86