Þetta gerðist í ágúst árið 1995. Ég var 19 ára, hávaxinn, stæltur og herðabreiður og talinn mjög myndarlegur. Mér og vini mínum hafði verið boðið í partý til kærustu vinar okkar vegna þess að hún var að fara í nám erlendis.
Við mættum þarna um 9 leitið og fengum okkur sæti inni í stofu. Það voru nokkrir krakkar þarna líka og þegar mér var litið yfir hópinn þá sá ég fallegustu mannveru sem ég hafði augum litið.
Hún var 18 ára, tinnusvart hár og dökk brún augu, frekar lágvaxin en samsvaraði sér mjög vel og var mjög vel vaxin.
Allt kvöldið sat ég bókstaflega frosinn og starði á hana. Ég var dáleiddur af þvílíkri fegurð. Allt í einu leit hún á mig og þar sem ég var með störu þá hrökk ég við og leit undan. Hún hafði tekið eftir því að ég var að horfa á sig.
Ég er sjálfur frekar feiminn og ég sá að hún var það líka en á endanum áræddi ég að tala við hana. Það samtal var nú ekki upp á marga fiska en ég komst að því hvað hún hét og í hvaða skóla hún var.
Þegar líða tók á kvöldið fór fólk að týnast út en ég og 3 aðrir strákar urðum eftir.
Ég sá að hún horfði til mín og reyndi að kveðja mig feimnislega. Þegar þau voru farin sat ég eftir í sæluvímu. Þetta var allra fallegasta stelpa sem ég hafði nokkurntíman séð. Ég spurði kærustu vinar míns hvernig hún þekkti hana og hún sagði mér það og gaf mér símanúmerið hjá henni.
Það var ekki fyrr en um miðjan október sem ég hafði loksins byggt upp nægan kjark til þess að hringja í hana. Ég hafði hugsað mér að bjóða henni í bíó en fann svo út að þá yrði sennilega ekki mikið talað saman á því stefnumóti þannig að ég bauð henni í bíltúr.
Ég hafði með aðstoð föður míns flutt inn 1994 árgerð af BMW og var mjög ánægður með hann. Með kúkinn í buxunum keyrði ég heim til hennar á laugardagskvöldi. Ég flautaði létt og hún opnaði útidyrnar. Og þarna stóð hún! Hjartað mitt stoppaði.
Hún var jafnvel fallegri en síðast þegar ég sá hana. Ég svörtum buxum, ljósbláum bol innanundir svörtum leðurjakka. Ég var búinn að hugsa mér að vera eins kammó og ég gæti og sagði hæ og spurði hana hvernig hún hefði það. Hún sagðist hafa það gott.
Við keyrðum og keyrðum og spjölluðum og spjölluðum allt kvöldið og alla nóttina. Henni var kalt þannig að ég lánaði henni úlpuna mína. Í morgunsárið skutlaði ég henni heim. Kveðjustundin var frekar vandræðaleg og við vildum bæði kyssast bless en þorðum það ekki.
Ég hitti hana aftur viku seinna, sótti hana í skólann og keyrði hana heim. Í bílnum fyrir utan sátum við og töluðum saman en þögnuðum bæði á sama tíma og horfðumst í augu og loks færðust varir okkar nær og nær uns þær snertust. Varirnar á henni voru svo hlýjar og mjúkar. Þetta var besti koss sem ég hafði nokkurntíman fengið!!
Við byrjuðum saman 5 dögum eftir þetta.
Árið leið, jólin komu og loks áramótin ‘95-’96. Rétt fyrir jólin gat ég loksins virkilega sagt henni hvaða tilfinningar ég bar til hennar. Ég horfði í augun á henni og sagði: ,,Ég elska þig" Við hittumst á hverjum degi og það var frábært! Tíminn leið eins og elding og við kláruðum skólann um miðjan maí. Sumarið kom og við vorum ung og skemmtum okkur saman og ég var svo ástfanginn og við elskuðum hvort annað svo heitt.
Við vorum saman allt sumarið og skólarnir byrjuðu svo í ágúst. Október kom og við vorum búin að vera saman í eitt ár.
Ég get ekki líkt þessari stúlku við neitt annað en engil. Þessir þvílíku persónutöfrar sem hún bjó yfir og brosið hennar bræddi allt sem nálægt var. Hún var eina manneskjan sem var hægt að segja að væri FULLKOMIN. Hún sameinaði alla kosti fólks í sér og var gallalaus að öllu leiti. Ég var með endalausan hnút í maganum en það sem verra var að ég var svo sjúklega ástfangin að ég gat ekki komið neinu almennilegu í verk í vinnunni og skólanum því hugsanirnar um hana þvældust alltaf fyrir mér.
Jólin 1996 runnu upp með allri sinni gleði. Við svifum bæði bleiku skýi og vörðum öllum okkar tíma saman.
Árið 1997 kom. Allt gekk eins og í sögu og árið leið hraðar en aldrei fyrr. Sumarið kom og sumarið fór og október kom og loks kom að því að við höfðum verið saman í 2 ár og við vorum alltaf ásfangnari og ástfangnari. Árinu lauk loksins og ég hafði fallið í öllum námsgreinunum í skólanum.
Þann 25.febrúar 1998 höfðum við ákveðið að fara út að borða, og þar sem bíllinn minn var á verkstæði ætlaði hún að koma að sækja mig.
Hún kom aldrei….
Ég hringdi og hringdi heim til hennar og mamma hennar og pabbi sögðu að hún væri hefði verið á leið til mín. Ég stökk heim til vinar mín og fékk lánaðan bílinn hans og keyrði alla leið til hennar en sá hana hvergi. Mér hefur aldrei á ævinni liðið svona hræðilega illa.
Alla nóttina keyrði ég um Reykjavík og nágrenni og lögreglan var einnig að leita. Það var ekki fyrr en löngu seinna að bíllinn hennar fannst mannlaus bakvið gömlu sundlaugina í Hafnarfirði.
Formlegri leit var hætt og ég glímdi við stærstu sorg lífs míns. Þar sem faðir hennar var virtur maður í Reykjavík var reynt að gera sem minnst til að blanda fjölskyldunni inn þetta mál þar sem það gæti stofnað ferli hans í hættu.
Enn þann dag í dag hugsa ég ekki um annað en þennan besta tíma lífs míns með yndislegustu konu sem ég hef þekkt.
Ég hef grátið mig í svefn á nánast hverrri nóttu síðan um árið og hef þurft að ýta frá mér hverri konunni á fætur annari.
Ég er 26 ára núna og það eru liðin rúmlega 4 ár frá hvarfi hennar. Ég hugsa ennþá ekki um annað en held stundum að henni bregði fyrir í Kringlunni eða á gangi einhversstaðar.
Þetta atvik skar djúp sár í sál mína og hjarta mitt og þau sár munu aldrei gróa en ég mun alltaf geyma minningarnar um hana í huga mér og samveruna með henni og það fær mig til að líða örlítið betur.
Ég elska hana ennþá af öllu hjarta og mun aldrei vilja finna mér aðra konu en ég held alltaf í vonina að einn dag muni ég hitta hana aftur………..