Ég missi allt tak. Á sjálfum mér, líkama mínum og sál. Hausinn á mér og hugsanir urðu eftir upp í háloftunum og við tók hvínandi tómið, fullt skelfilegum hryllingi.
Rjómaosturinn er heitur og smjörkenndur og það glansar á hann í morgunskímunni. Ég virði hann fyrir mér og smyr svo heilhveitibrauðið með honum. Tek upp lögulegan eldhúshníf og fer að saxa velþroskaða tómatanna og ég finn hvernig blóðleitt maukið flekar hendur mínar.
Ó guð, hvenær?
“Þetta er alltílæi Halldór. Reyndu bara að hætta hugsa um það…” Ég er ómögulegur í því að hughreysta sjálfan mig. Ég kipra saman varirnar og klemmi saman augun. Með ógurlegum hvin nálgast jörðin óðfluga. Ég glenni út kjaftinn, missi alla stjórn, og byrja að skæla. Og þrátt fyrir það voðalega ástand sem líkami minn er í og uppnámið sem heltekur huga minn, finn ég hvernig heit bleyta nuddast við lærin á mér.
Úti við hafið er sólin að koma upp. Ég sé í gegnum eldhúsgluggann hvernig fyrsti geislinn leysir sig upp úr vatninu og fer þráðbeint í gegnum rúðuna mína og á kryddkvörnina. Ég mala fáeinar urtir og blandasaman við dökkrauða tómatssósuna. Þegar lærisveinninn er tilbúinn birtist meistarinn. Hvenær verð ég tilbúinn?
Þegar meistarinn birtist.
Hvenær er það?
Þegar þú ert tilbúinn.
Hvað get ég get gert?
Þú getur fórnað öllu.
Og hvað svo?
Þú verður að fórna fórninni.
Af hverju skil ég þetta ekki?
Því þú ert ekki tilbúinn.
Sveppirnir eru gamlir en samt tiltölulega ferskir. Ég sneiði þá þunnt og legg í bleyti. Ég hef óbeit á gömlum sveppum. Ég þoli þá ekki.
Eins og í ræðukeppni öskra ég í kapp við vindinn. Það er vonlaus barátta. Himingeimurinn er víðáttumikill á alla kanta, eins og við mátti búast. En svona víðáttumikill, við því bjóst ég ekki. Þyngdarhröðunin ber mig sífellt hraðar en alltaf virðist vera jafnlangt til jörðu. Öskrið er sett út fyrir æpandi hljóðlausri angistinni. Ég reyni að grípa í tómið.
Þegar fótunum er kippt undan manni er ekki hægt að hoppa. Bara detta.
Eitt augnablik líður mér eins og upp í rúmi á laugardagsmorgni, og allur ótti hverfur, eins og dögg fyrir sólu.
Ég móki undir sænginni í hægindum mínum og anda djúpt. Þegar eggtæmerinn í eldhúsinn lætur mig vita að brauðið er bakað hundsa ég pípið. Aðeins lengur. Þetta er svo gott. Aðeins lengur… bara aðeins… ég skelli brauðinu út í gluggakistu.
Kann ég að bregðast við rétt? Get ég lifað af? Ó meistari, seg’ mér.
Nei, það er satt, ég er langt frá því að vera tilbúinn.
Hleyp ég hraðar en ljónið?
Tja, ég þarf ekki hlaupa hraðar en það, heldur aðeins hraðar en félagar mínir sem fylgja mér. Maður þarf ekki að vera fyrstur. Það er nóg að vera næstsíðastur til að lifa af.
Næst síðasti þátturinn í fallhífarstökki, áður en maður lendir, er að toga í spottann.
Ég hafði horfst í augun við óttann. Ég gaf eftir. Ég stökk. Ég höndlaði tilfinninguna.
Fyrir vikið öðlast ég dýrmæta reynslu til þess að lifa af. Nú á ég bara eftir að toga í spottann. Það er erfitt.
Ég toga.
Ekkert gerist.
Eins og fórnardýr færist ég varnarstöðu. Allt mannlegt hverfur. Eilíf sól í einmanna huga.
Indæll brauðilmurinn færist yfir húsið. Vaknandi ég brosi. Ég hrærir olífíuolíuna útí tómatssósuna og steiki fræin á hreinni pönnunni. Skef þau síðan út í salatið. Færi kotasæluna í skál og ber matinn svo á borð.
Í huganum vek ég konuna og börnin og býð þeim í morgunmat. En þau eru ekki til. Ég þori ekki; ég er ekki tilbúinn. Afar ólíklegt er að það sé einhver hætta á ferðum en maður veit aldrei. Fallhífin opnast kannski ekki. Og hvað geri ég þá?
Ég kann ekki að bregðast við. Ég kann ekki að nálgast annað fólk . Ég kann hvorki að elska né eignast börn. Ég kynni nefnilega ekki að bregðast við.
Þetta er alltof mikill matur handa mér einum.
Ég hugsa ekki. Ég bregst bara við. Hvinurinn gerist sífellt háværari og er nú sem dynjandi foss allt í kringum mig. Augun mín sperrast niðrá við og ég sé land, sjó, bæi, líf og dauða. Sjór. Kannski get ég farið að eins og ég sé að stinga mér í vatn. Ég á erfitt með að meta það hvar ég lendi helst en reyni að mjaka mér svo í norður. Það er ómögulegt. Ég spenni mig upp og reyni að dýfa mér áfram í frjálsu falli. Það virkar. Hundruð klukkustunda stærðfræðinám gagnaðist mér í fyrsta skipti praxís í lífinu þegar ég sá fyrir bjargandi fleygbogann sem ber mig út í sjó. Ég kann vel að bjarga mér. Lærisveinn án meistara.
Gargandi kæruleysi tekur við. Ég svíf í boga með hröðunina 9,8 metra á sekúndu og hlæ mig máttlausan. Þetta er lífið. Jafnvel þótt snöggur óumflýjanlegur endirinn blasi við, þá réttlætir þetta hann.
Maturinn er farinn að kólna. Klukkan er farin að líða að hádegi. Ég stari á óhreyfðan morgunverðin, eins og ég hef gert í allan morgun, og hugsa. Loks stend ég upp og geng út úr eldhúsinu, stofunni, húsinu. Ég er tilbúinn. Meistarinn er ekki til og ég er tilbúinn.
Ég ætla aldrei að koma aftur. Ég er tilbúinn. Ég ætla að eignast konu og börn og ferðast og gera allt sem engin annar þorir. Ég er tilbúinn. Ég ætla að eignast margar konur og mörg börn og gera allt sem hægt er að láta sér detta í hug. Ég er tilbúinn og meistarinn er til. Ég er meistarinn. Það er ég sem mun hitta hinu reiðbúnu og leiðbeina. Því ég skil að það er ekki fallhífin sem skiptir máli heldur ferðin.
Ég ætla að byrja á því að fara í fallhífarstökk og ögra sjálfum mér.
Eftir þrjúþúsund fet er ég við það að sameinast jörðinni áfram. Ég velti því fyrir mér hvort betra sé að fórna höndunum, fótunum eða skrokknum, því eitthvert þeirra ætla ég bera fyrir mig. Ég ákveð að fórna fótunum. Tegi síðan úr mér með fæturnar á undan. Á fáeinum brotasekúndum.
Ég lendi eins og köttur.
Ég er meistarinn.