Líf, eða eitthvað líkt því er það sem við öll sækjumst eftir. Viljum öll öðlast hamingju og forðast sársauka, sumir þola sársauka minna en aðrir, og aðrir leita að hamingjunni á röngum stöðum. Ég var einn af þeim, þoldi sársauka illa og leitaði að hamingjunni þar sem hana var ekki að finna.

Ég ólst upp með mömmu, pabbi fór frá okkur þegar ég var lítill strákur og ég sá hann aldrei nema á jólunum og afmælum, þá kom hann með pakka, sagði mér að vera góður við mömmu og var farinn eftir fimm mínútur.

Við mæðgin bjuggum í íbúð í fellahverfinu í Breiðholtinu, stofa, herbergi, klósett og eldhús. Mamma var svo elskuleg að leyfa mér að vera í herberginu en sjálf svaf hún á dýnu inn í stofu. Ég vill ekki hljóma eins og væluskjóða en sannleikurinn er að ég og mamma áttum ekki sjö daganna sæla. Það var alltaf vesen á mömmu, ekki áfengi eða dóp, heldur var hún svo þunglynd, sjötíu og fimm prósent öryrki og var inn og út úr geðdeild alveg þangað til hún dó. Þegar hún fór á spítala var ég hjá nágranna okkar, henni Halldóru.

Halldóra var ekkja sem gerði fátt annað en að sitja upp í sófa, prjóna og hlusta á útvarp. Mér leið oftast vel hjá henni, þegar ég kom í heimsókn lifnaði yfir henni, hún bakaði pönnukökur og sauð kakó og ég fékk að leika mér með dótið mitt í friði. Jú ég saknaði mömmu en vissi að læknarnir hugsuðu vel um hana.

Ævintýri voru það sem komu mér í gegnum æskuna. Halldóra sagði mér oft sögur sem hún bjó til um æsku sína, sögur um tröll, álfa og týnda farsjóði. Mamma las líka fyrir mig á kvöldin þegar hún var ekki veik. Og þegar ég var orðinn nógu gamall las ég sjálfur. Tíu ára gamall skrifaði ég fyrstu söguna mína. Hún var um munaðarlausan strák sem fyrir tilviljun endaði á skipi á leið til Indlands en skipið lenti í óveðri og hann rak á eyju þar sem hann bjó ásamt eyjaskeggjum. Ég á söguna enn og þykir óskaplega vænt um hana, en það var ekki fyrr en ég var fjórtán ára sem sögurnar mínar fóru að skipta verulegu máli. Tvennar sögur og leikrit sem ég skrifaði unnu til verðlauna og var mér hælt fyrir að vera mikill sögumaður og þokkalegur penni.

En það breyttist margt þegar ég varð unglingur, Halldóra lést úr krabbameini og ég var oft einn heima í marga daga þegar mamma þurfti að fara á spítalann, og ég hætti að skrifa. Í skólanum komst ég í kynni við eldri krakka sem tóku mig upp á arminn og fóru með mig í partí. Ég prufaði að drekka og reykja og þegar ég var sextán kynntist ég fyrst fíkniefnum. Lífið gerðist fljótt eftir það og ég sökk hratt í neyslu. Ég bjó enn hjá mömmu og þar sem hún var mikið veik skipti hún sér lítið af mér. Ég fékk að vera í friði með dópinu og ruglinu.

Þegar ég var átján kynntist ég loksins pabba. Ég var búinn að vera á vökunni í þrjá daga og endaði í partíi með vinkonu minni hjá fólki sem hún þekkti lítið, einhverjum sprautufíklum, mér var sama, var ekki mjög vandlátur á það fólk sem ég umgengst. Hún dinglaði á bjöllunni og kona í snjáðum bláum kjól sem eitt sinn gæti hafa þótt flottur kom til dyra. Og þar var hann, með nál í hendinni. Ég vissi ekki hvað ég átti að halda eða gera, hugsaði með mér að ég ætti að koma mér fljótt út en hann sá mig, við horfðumst í augu í nokkrar mínútur, hvorugur hreyfði sig, og svo sá ég tár renna niður kinnina á honum og ég gekk til hans og faðmaði hann. Hann þurrkaði tárið og tók nálinu úr höndina. Hann sagðist skammast sín fyrir að ég skyldi sjá hann svona en ég sagði honum að ég skildi þetta, þetta líf væri ekki alltaf dans á rósum. Það var þá, á þriðja degi í vöku, með pabba sem ég þekkti ekkert, sem ég kynntist fyrst nálinni.

Við urðum ágætis félagar ég og pabbi, djömmuðum mikið, ég las fyrir hann sögurnar mínar og við rændum og svikum. Svona gekk þetta í ár, þangað til pabbi hringdi í mig og bað mig að hitta sig heima. Hann sagði mér að hann gæti ekki lifað svona lengur, hann sæi ekki eftir því lífi sem hann lifði en núna var þetta orðið gott. Hann sýndi mér snöruna og hvar hann ætlaði að hanga. Ég grét en hann sagði mér að þetta væri hans ósk, að hann elskaði mig og hann væri stoltur af þeim manni sem ég var orðinn, bað mig að gleyma ekki sögunum. Ég kvaddi hann dapur og tveim dögum síðar var hringt í mig og mér sagt að pabbi væri látinn.

Tveim árum síðar lést mamma í svefni eftir að hafa tekið of mikið af lyfjum. Þrjú árin eftir þetta eru í þoku. Mér var sama hvort ég lifði eða dó. Ég hafði engan, hafði ekkert, sársaukinn átti mig. Það var sama hvað ég setti ofaní mig, ekkert deyfði eins og það hafði einu sinni gert. Ég upplifði mig sem mesta aumingja og ræfil sem uppi hafði verið, ég var orðinn allt sem ég hataði, verri en pabbi, veikari en mamma, meira einmanna en Halldóra, ég var ekkert.

Liggja upp í rúmi og geta ekki neitt. Hugsa um allt sem ég hef gert og allt sem ég hefði átt að gera. Sængin yfir haus, ljósin slökkt, dregið fyrir glugga, ekkert nema hugsanir sem þeytast um í reiðuleysi, og sársaukinn sem nagar og nagar.

Kveiki á sturtunni, heit bunan róar mig aðeins, ég tek upp rakvélablaðið og risti í úlnliðina á mér. Sár opnast og þykkur rauður vökvinn seytlar niður á blautt gólfið. Svo furðulegt hve fallegt blóðið er þegar það lendir á blautu gólfinu, droparnir slettast út og verða eins blóm sem fölna á örstuttum tíma. Vatnaði veldur því að sárið lokast ekki og blóðið heldur áfram að leka út, í langan tíma sem virðist eins og andartak, því ég er svo rólegur. Eftir nokkra tíma, þegar mikið blómhaf er búið að myndast fyrir neðan mig, leggst ég niður og leyfi svefninum að taka mig, því að nú, í fyrsta skipti í langan tíma, líður mér vel.

Endi