Flughrapið
Síðasta nótt reyndist okkur erfið. Við höfum takmarkaðar matarbirgðir, sumir eru nánast búnir að gefa upp alla von og flestir eru hræddir um að við munum aldrei komast aftur í kunnuglegt umhverfi. Þar á meðal ég. Ekki bætir það að Sveinn leiði okkur áfram. Hann skipar öllum fyrir og lætur eins og harðasti harðstjóri. Hann þykist vita hvert hann er að fara en ég held að hann viti ekki neitt.
Nú höfum við gengið í fjóra klukkutíma án hvíldar og ég sé að flestir eru orðnir dauðþreyttir. Sveinn segir að hann vilji halda aðeins lengra áfram því hann hafi það á tilfinningunni að brátt munum við koma að góðum hvíldarstað. Að þau skuli hlusta á hann get ég ekki skilið. Hlusta á hann frekar en mig! Þegar ég sagði að best væri í stöðunni að bíða hjá flakinu sagði hann að hann vissi í hvaða átt skildi halda. Og fólkið trúði honum og ákvað að fylgja honum.
Síðan er það konan hans, hún er sífellt vælandi yfir því hvað hún er þreytt og þyrst og að hún ætli að fara frá honum því hann hafi látið flugvélina hrapa. Ætli honum sé ekki alveg sama, hann getur sjálfsagt náð sér í hvaða konu sem er bara ef hann segir að hann sé ríkur flugmaður. Ég man áður en að vélin hrapaði, þá voru þau mjög hamingjusöm. Með hverjum deginum sem hefur liðið síðan þá hafa þau fjarlægst meir og meir hvort frá öðru. Nú lætur hann hana fram hjá sér fara og er of niðursökkinn í að leika hetjuna sem að ætlar að bjarga fólkinu.
Mitt hjónaband endaði ekki svona, það var ekkert ósætti. Hún talaði bara allt of mikið. Í staðinn fyrir að láta hana vita og skapa rifrildi þá sá ég bara til þess að hún vaknaði ekki í eitt sinn sem hún var sofandi.
Nú er ég farinn að kannast við mig, hér hef ég verið áður. Helvítis fíflið hefur leitt okkur í hring – við erum aftur kominn á slysstað. Ég vissi að hann vissi ekki hvert skildi halda. Helvítis fíflið. Hann skal fá að sjá eftir þessu, hann skal fá að komast á þennan hvíldarstað sinn. Og öll hin líka fyrir að fylgja honum en ekki mér, fyrir að hlusta á hann en ekki mig.