1.
Ég kynntist henni fyrst hér í sandkassanum á leikvellinum rétt fyrir utan húsið mitt, það eru næstum 20 ár síðan og enn finn ég lyktina af sandinum, blautum svörtum klessum sem festust í leikfangabílunum og stoppuðu dekkin, ég hef greinilega aldrei verið neitt sérstaklega heppin með bíla.
Ég var einn úti að leika, það var rigning og mamma hafði klætt mig í svona grænan regngalla, ég man að ég þoldi ekki að ég þurfti alltaf að festa teygjuna á buxunum undir stígvélin mín, mamma sagði að annars myndi ég blotna. Ég held að ég hafi alltaf losað teygjuna um leið og ég sá hana ekki lengur, hún vinkaði mér alltaf og horfði á eftir mér þegar ég fór út að leika.
Þetta var mjög drungalegur dagur, eins og guð hefði farið í frí, kannski verið með höfuðverk að hlusta á allar þessar bænir.
Það var svona rökkur yfir öllu, samt var farið að nálgast hádegi. Það var ekkert mjög kalt, en það rigndi og rigndi, það var þessvegna sem ég rétti henni húfuna mína.
Já, þarna kom hún röltandi fyrir hornið, klædd í svona dúnúlpu og með sítt, dökkt hárið flöktandi á eftir sér. Ég sá strax að henni var kalt, hún beit í neðri vörina á sér og horfði niður á gangstéttina.
Ég var einn að leika mér úti, ég held að Gummi hafi verið veikur. Það er rosalega leiðinlegt að leika sér einn, sérstaklega þegar það rignir og guð er í fríi. Ætli hann hafi ekki verið á Florida eða einhverstaðar þar sem alltaf er sól og aldrei rignir.
Hún labbaði inná leikvöllinn og settist í róluna, hún var strax orðin gegnblaut, hárið á henni klesstist allt saman líkt og sandkastalinn minn sem varð að gefa eftir syndaflóði guðs, og regndroparnir runnu niður andlitið hennar, ætli hún hafi líka farið ein út að leika?
Ég held að ég hafi sagt hæ fyrst, en allavega labbar hún í áttina að sandkassanum og sest hjá mér.
Hún hét Dagný, og hún var sætasta stelpan í öllum heiminum!
Ég kynnti mig líka og svo horfði ég á hana í smástund, droparnir héldu enn áfram að renna niður enni hennar, niður eftir nefinu, þar sem þeir söfnuðust saman og hoppuðu svo fram af, hver á eftir öðrum.
Ég rétti henni húfuna mína, það var svona græn húfa með Turtles köllunum á. Ég held að hún hafi ekki leikið sér mikið að Turtles því hún bretti upp á nefið á sér, en svo lét hún undan syndaflóðinu og setti á sig húfuna.
Takk sagði hún og ég brosti og rétti henni vörubílinn minn, það var stærsti og sterkasti bíllinn minn. Guð náði sko ekki að skemma hann.
2.
Dagný hló þegar ég mætti í skólann með Turtles húfuna, henni fannst það asnalegt að ég skyldi ennþá eiga þessa húfu, við vorum jú í 10.bekk núna.
Ég minnti hana á að hún hefði nú sjálf notað þessa húfu þegar guð fór í frí. Hún horfði á mig eins og hún vissi ekki hvaða skapalón stæði fyrir framan hana og brosti svo breitt, þessu fallegasta brosi í öllum heiminum! Held hún hafi kallað mig gosa í fyrsta skiptið þann dag, eftir það var ég gosinn hennar.
Ég og Dagný vorum bestu vinir, alveg síðan í sandkassanum og alveg út að þessum degi. Hún var fallegasta stelpan í öllum heiminum, og ég, ég var gosinn hennar.
Dagný var alltaf rosalega gáfuð, fékk alltaf góðar einkunnir og vissi alltaf svörin við öllu. Þegar hún fékk einkunirnar úr samræmduprófunum, sem voru ekki bara góðar, heldur var hún þriðja hæst á landinu. Ég var alls ekki slæmur námsmaður, gekk líka vel á prófunum. En þessi dagur, þetta var hennar dagur.
Eða, reyndar var þetta hennar dagur, og okkar kvöld.
Ég bauð henni út að borða, hún var svo ánægð með prófin sín að hún brosti allan daginn, við löbbuðum niður laugarveginn og hún hélt í höndina á mér og hló.
Dagný hló rosalega fallega, það var ekki hátt, en það var eins og þú værir að horfa á ánægjuna sjálfa, í mannsmynd skoppa um og brosa, hlæja því lífið er svo falleg.
Þannig hló hún Dagný mín.
Þetta var rosalega góður matur, ég þreif húsið fyrir mömmu í margar vikur og ætlaði að safna mér pening fyrir nýjum skóm sem mér langaði í, en ég sá ekki eftir þessum peningum, Dagnýjarpeningum. Dagný hafði alltaf verið rosalega falleg, en þetta kvöld þá var hún ekki lengur Dagný, besta vinkona mín, heldur var hún Dagný, hún var sólin mín og máninn.
Þetta var rosalega fallegur veitingastaður, kertaljós á borðum, ítölsk tónlist sem rétt bærðist í loftinu í takt við hnífapör og hlátur.
Ég leit á hana, gegnum kertalogann sem virtist faðma hana að sér, breiða úr sér eftir andlitsdrættum hennar og hún brosti og þakkaði mér fyrir þetta, gosinn minn kann sko að gleðja mig, svo hallaði hún sér fram og kyssti mig á kinnina.
Nú var ég Mars, hún var sólin og máninn, en ég var Mars. Ég fann roðann í kinnunum og ég leit undan í flæmingi. Dagný hafði kysst mig áður, já já oft áður, en í kvöld var það öðruvísi, það var nýtt.
Við löbbuðum heim eftir matinn, aftur leiddumst við, nú upp Laugarveginn, en nú var þögn, ekki svona slæm þögn, heldur þessi þögn þar sem þú þarft ekki að segja neitt, því það er búið að segja allt, með höndunum sko.
Það var öðruvísi að leiða hana heim, puttarnir létu öðruvísi, vildu strjúka hennar putta á móti og spennan, hún var magnþrungin, eins og í rómantískri mynd þar sem flotti viðskipasnillingurinn elskaði fallegu stelpuna sem vann á kaffihúsinu sem hann stundaði. Já það var þannig spenna. Við sögðum ekkert fyrr en við komum að útidyrunum hjá henni. Hún sleppti höndinni minni og horfði feimin niður í gangstéttina, ég held ég hafi gert það sama. Svei mér hvað þessi gangstétt hennar hefur verið áhugasöm.
Takk fyrir kvöldið gosi, sagði hún brosandi og horði í augun á mér, ég hélt að hjartað á mér myndi gjósa á hverri stundu. Svo hallaði hún sér að mér og kyssti mig, ekki svona mömmukoss heldur alvörukoss. Ég held hann hafi bara verið stuttu, en fyrir þennan gosa var þetta lífstíðarkoss. Ég hvíslaði bless og hún fór inn.
3.
Ég vaknaði alltaf snemma á morgnana, langt á undan henni.
Ég naut þess að horfa á fíngert andlit hennar, litla nefið og ég hef örugglega talið þessar freknur mjög oft meðan hún svaf.
Þetta var hún Dagný mín, sú sem ég elskaði allt frá tímum Turtleskalla og sandkassans, nú var guð ekki lengur í fríi.
Ég fór í sturtu meðan hún Dagný mín svaf áfram, ég átti að vera mættur í tíma eftir 2 tíma, en ég vildi alltaf vera með allt á hreinu, drekka mitt morgunkaffi, það þýddi ekkert að mæta þreyttur og koffeinlaus í lögfræðina uppí háskóla, ónó sör.
Dagný var listakona, hálfnaktir strigar héngu hér og þar á veggjum litlu kjallaraíbúðarinnar okkar, hennar málverk voru þau fallegustu í öllum heiminum skal ég segja þér, uppáhaldsmyndin mín var ein sú fyrsta sem hún málaði, þá vorum við búin að vera saman í 2 ár. Það var mynd af konu, hulin í bláum kufli sem stóð við lækjarsprænu, einhverstaðar fyrir norðan sagði Dagný, þetta var víst amma hennar sem hafði alist þar upp.
Núna 5 árum seinna, var þessi ókunnuga kona enn minn besti vinur uppá vegg.
Ég steig útúr sturtunni og þurrkaði mig allan, Dagný mín svaf ennþá, ég horfði á sjálfan mig í speglinum, þennan gosa sem átti allt framundan, fallega stelpu sem elskaði hann, kjallaraíbúð í bænum, gamlan járnkláf, það var nú ekki hægt að leyfa sér mikið á námslánum þessa dagana, ónó sör.
Í dag voru liðin 7 ár síðan þau áttu sinn fyrsta koss, þetta kvöld, skyldi vera okkar kvöld. Eins og það var þá.
Ég hafði planað þetta allt fyrir nokkrum dögum, ég og Dagný vorum að fara út að borða í kvöld. Dagný brosti þegar hún áttaði sig á hvert við vorum að fara, svo hló hún og sagði, já gosinn minn kann sko sannarlega að gleðja mig.
Dagný var klædd í síðan, rauðan kjól. Hún var sannarlega sólin mín og máninn, eins og fyrir öllum þessum árum.
Eins og þá, blandaðist róleg ítölsk tónlist við takt hnífaparanna, Dagný kyssti mig og sagði að þetta væri sko það besta kvöld sem hún gæti óskað sér, þetta veitingahús með þér. Eins og hún var enn sólin mín og máninn, varð ég aftur Mars.
4.
Trúlofuð, trúlofuð, trúlofuð, trúlofuð.
Ég held ég sé enn að átta mig á þessu orði, hvað það þýðir, hversu mikilvægt það er í lífi mínu og hversu mikil ánægja það er, mér fannst eins og ég væri búinn að kaupa miða, aðra leiðina í fullkomna hamingju, og ég þyrtfi aldrei að snúa við.
Við mættum hvorug í tíma daginn eftir, það var eins og ekkert annað skipti lengur máli. Við vorum búin að vera saman, en núna vorum við búin að skrifa undir þann samning, ég myndi aldrei yfirgefa hana.
Ég held að ég hafi aldrei séð mömmu svona ánægða og þegar við sögðum henni fréttirnar, hún var strax farin að undirbúa brúðkaupið.
Pabbi sat í stólnum sínum tottandi sömu pípuna og síðan ég man eftir mér, jamm og jæja, sagði hann, til hamingju krakkar mínir.
Hann var aldrei mikið fyrir að tala, en ég vissi að hann var ánægður.
Dagný hélt í höndina á mér og brosti út í eitt, mér leið eins og strákspjatti aftur, feiminn og með fiðrildi í maganum, haldandi í höndina á fallegustu stelpunni í öllum heiminum.
Eftir að við heimsóttum foreldra Dagnýjar, þar sem nánast sama sagan átti sér stað, heimsótti ég Gumma.
Legsteinninn var ennþá eins og nýr, falleg kerti brunnu við leiði hans, hann átti nefnilega afmæli daginn áður.
Jæja Gummi, nú erum við trúlofuð. Sagði ég og brosti, ég man að ég barðist við að halda tárunum inni, söknuður og gleði, gleði og söknuður.
Ég lagði blómvönd við leiði hans og stóð upp. Ég veit að þú verður við brúðkaupið mitt, sagði ég, sjáumst þar vinur minn.
Það var alltaf erfitt fyrir mig að fara upp í kirkjugarð, Gummi hafði dáið fyrir 4 árum og ég reyndi að fara eins oft og ég gat, en ég vissi að ég gæti alveg farið oftar.
Ég hef bætt úr því núna.
5.
Við fórum í matarboð til Steina og Dísu, við höfðum kynnst þeim uppí háskóla og urðum brátt mjög góðir vinir. Þau leigðu fallega íbúð í Grafarvoginum og áttu fallega dóttur sem var bráðlega 2 ára, ég vissi að Dagný elskaði börn og kannski einn daginn myndum við íhuga það að eignast barn líka.
Við sögðum þeim frá trúlofuninni og brátt voru stelpurnar komnar út í horn að ræða brúðkaupsmál og við strákarnir að skoða nýju playstationtölvuna.
Þetta var yndislegt kvöld með góðum vinum, og kvöld sem mun alltaf verða ferskt í mínu minni.
Það var rigning þegar við keyrðum heim.
6.
Ég hafði fengið mér hvítvín með matnum svo Dagný keyrði, ég hafði alltaf verið mjög varkár með akstur og áfengi, bara ef allir hefðu verið það.
Ég man ekki mikið eftir að bíllinn klessti framan á okkur, ég man að mér var mjög illt í höfðinu.
Hann hafði víst verið að keyra undir áhrifum strákurinn á hinum bílnum, en hann lifði af. Ég hataði hann fyrir það.
Ég var uppá spítala í nokkrar vikur, ég slapp vel, en það er enn sárt að ganga mikið.
Ég heimsótti Dagnýju stuttu eftir það.
Hún lá stutt frá Gumma, ég þakka guði fyrir það á einn háttinn, en reiðist honum líka.
Legsteinninn hennar var nýskorinn og fallegur, ég sat í blautu grasinu fram á kvöld og þagði.
Þegar það fór að rökkva var þögnin orðin of hávær.
Ég vildi að ég gæti verið með þér, sagði ég, eða reyndi að segja milli ekkasoganna. Ég strauk yfir trúlofunarhringinn og þagði aðeins lengur.
Ég veit að Gummi mun sjá um þig þangað til ég kem, þá mun ég giftast þér og við munum eignast fullt, fullt af börnum. Ég lofa.
Einar/04