Draugar
Í útvarpinu skiptist á drungaleg klassíkin á gömlu gufunni og veikt suð þar sem hinar útvarpsstöðvarnar ættu að vera. Ég slekk á tónlistinni og nöldra við sjálfa mig yfir afgömlum bíltíkum sem er ekki einu sinni kasettutæki í. Þvílík hörmung! Ekkert að hlusta á nema öldugjálfrið við eyðilega ströndina sem vegur minn liggur eftir hér í niðdimmri nóttinni. Ekkert að sjá nema hvítir öldutopparnir sem tunglkringlan speglast í eina örskotsstund. Í svefndrukknu höfði mínu taka þeir á sig nýja mynd og ég sé beinaberar hendur teygja sig úr sjávarlöðrinu, af brimsteyttum skerjunum og strjúka sandinn þar sem öldurnar sleiktu hann áður. Þeir krafsa sig úr öldunum og ganga á land og þegar þeir nálgast mig sé ég endalausa depurðina í holum augntóftunum þeirra, sorgina í holdlausum ásjónum þeirra.
Og nauðið í vindinum verður að veikburða hvísli á mörkum þess sem eyrað fær greint en skýrist smátt og smátt. Löngu horfnar raddirnar hvísla allar sama sönginn og auðmjúkar bænir þeirra um miskunn smjúga gegnum merg og bein. Þessi framliðni kór syngur um lífið sem þeir áttu, draumana og þrárnar: ,,Allir vorum við einu sinni menn. Elskaðir, hataðir, þráðir eða fyrirlitnir. Við vorum menn! Við lifðum eins og best við kunnum. Allir erum við nú gleymdir, allt okkar starf horfið, engin minning sem lifir í hjarta sem slær. Af öllum þessum lífum, öllum þessum draumum stendur ekkert eftir. Allt horfið, allt búið, allt gleymt.“
Hjarta mitt herpist saman og ég fyllist örvæntingu. Ég gef bílnum meira inn, legg á æðisgenginn flótta. Hægri beygja, vinstri beygja, hægri, vinstri. Og þarna standa gömul hjón í kantinum og veifa, biðja mig með látbragði að stöðva bílinn. Ég legg út í kantinn og þau koma haltrandi til mín og bjóða gott kvöld. Ég býð þeim að setjast inn í bílinn, vil ekki vita neina lifandi veru úti á valdi drauganna.
Með hæglátu öldungsfasi setjast þau inn, hún fram í og hann í aftursætið, og þakklætið skín úr framkomu þeirra. Þó hann sé þögull og fálátur þá minnir hún um margt á svo margar aðrar gamlar konur sem ég hef þekkt og spjallar stanslaust, jafnt við sjálfa sig og við mig, finnst mér a.m.k. stundum. Og af gömlum vana stilli ég heyrn mína hálfvegis út af spjallrásinni hennar, segi bara jájá og aha á u.þ.b. réttum stöðum og gef því sem næst engan gaum hvað hún segir. En smátt og smátt síast ísköld orð hennar inn í gegnum þagnarhjúpinn sem ég hafði sveipað um mig:
,,Þetta er svosem ekki langt sem við erum að fara, bara hérna heim á bæinn þar sem við bjuggum nú alla okkar hunds- og kattartíð. Það er orðið þónokkuð síðan við höfum komið heim, en í kvöld er svo hagstætt ferðaveður fyrir okkur að okkur fannst við bara mega til með að líta aðeins á bæinn. Þetta er sjálfsagt komið allt í niðurníðslu núna, ég býst ekki við að neinn hafi hugsað um þetta síðan við lentum í slysinu. Það er svo mikið að gera hjá börnunum, þau hafa engan tíma til að hugsa um gamla heimilið þó þeim þyki náttúrulega vænt um það, rétt eins og okkur. Og það er svosem ekki margt sem við getum gert, ekki úr því sem komið er, en það verður nú samt gaman að sjá húsið okkar aftur. Ég hef saknað þess, jafnvel meira en ég átti von á.”
Hrollkaldur grunur læsir sig í sál mína og ég teygi hikandi fingur mína upp í þakljósið og kveiki. Hægt og rólega lít ég yfir til gömlu konunnar og sé að andlit hennar er öskugrátt og í hári hennar eru þangflækjur og sandurinn hrynur yfir axlir hennar er hún hreyfir höfuðið.
Sný mér við til hálfs og horfi í fyrsta sinn á manninn í aftursætinu. Hann horfir í augu mín án þess að hvika; .fjörgamall maður með starandi augnaráð og sú hlið andlitsins á honum sem frá mér snýr er blóði drifin og höfuðkúpan greinilega mölbrotin.
,,Já,“ segir hann. ,,Þau eru orðin nokkur árin síðan bíllinn okkar valt hérna fram úr skriðunum. Þeir fundu bílinn daginn eftir, en okkur rak til hafs og því höfum við aldrei komist heim fyrr en í kvöld. Þakka þér ástsamlega fyrir að leyfa okkur að sitja í þennan spotta, það var sérdeilis fallegt af þér.”