Nafn þessarar sögu er vísun í sögu sem ég skrifaði og sendi inn seinasta vor. Bon appetit!

Sagan um gamla manninn

Gamall maður sat í strætisvagnaskýli og beið eftir leið fjögur og var á leið til heimilislæknisins. Tveir hoknir unglingspiltar komu lullandi í rigningunni og gengu inn í skýlið, talandi um eitthvað sem kallaðist “kánter stræk”. Í eyrum gamla mannsins hljómaði það eins og eitthvað sem kanarnir töluðu um þegar þeir komu til landsins í seinna stríðinu svokallaða. Hann brosti sakleysislega til þeirra en hélt síðan áfram að góna á umferðina í ljósgráa veðrinu, og hendurnar hvíldu letilega á göngustafnum. Mikið óskaplega hafði allt breyst. Veðrið og Esjan var nákvæmlega eins, en húsin og bílarnir voru furðulegri en framtíðarveröldin sem hann hafði lesið hugleiðingar um og dreymt þegar hann var ungur maður í sveit hjá afa sínum. Ótrúlegt alveg hreint…
Unglingarnir gerðust háværari, og annar stóð með nokkra krónupeninga í hendi og hin hendin fór í gegnum vasana. Hinn stóð og hristi hausinn. Sá með peningana snéri sér að gamla manninum og spurði: ,,Hey, gamli kall, áttu nokkuð tuttögukall til´a gefa mér?” Maðurinn starði á hann í smástund, og virtist hugsi. Eftir nokkra bið, ræskti hann sig og fór með eftirfarandi vísu:

,,Veistu það, ungi vinur snjall,
sönn er staðreynd sú.
Gamli ég ekki kallaðist, kall,
á sama aldri og þú.”

Gamli maðurinn kímdi. Alveg eins og afi hans hefði sett þetta fram, væri hann á lífi, blessaður. Pilturinn hrökk við, haka hans seig niður í háls og önnur augabrúnin upp á við. Hinn brosti, muldraði eitthvað fyrir munni sér og snéri hausnum í hina áttina.
,,Sjitt, maður, geturðu ekki svarað eðlilega? Þa´r ekki eins og ma´r sé að biðja um mikið!” sagði strákurinn með klinkið með smá tón af frekju. ,,Strætóinn fer að koma, geturu reddað mér eða ekki?” Gamli maðurinn horfði enn á hann, rólegum augum þess sem hafði séð ýmislegt á langri ævi, og eftir smá umhugsun ræskti hann sig aftur.

,,Varla er nauð að nefna saur,
ef svarið ei kemur fremra.
Varla á ég tvítugaur,
Þó hrökkvi hann nú skemmra”

Gamli maðurinn brosti nú út að hægra eyranu. Hann heyrði rödd afa síns í gamla bænum heima í dal, er hann sat á rúmstokknum og sagði unga barnabarninu sögur af afa sínum og forfeðrum, forni frægð og háttum, og flutti óteljandi vísur um gamla daga, daginn í dag og veginn framundan. Vonandi gat hann miðlað einhverju til hinnar enskumælandi ungu kynslóðar, áður en það væri um seinan og hann á bak og burt. Strætisvagnaskýli var ekki staða verstur til þess.
Ungi pilturinn, svo ekki sé meira sagt, var annarar skoðunar. Hann starði beint inn í augu gamla mannsins, gnísti tönnunum og setti upp skeifu. Ekki leið á löngu þangað til að svarið braust út. ,,Hvað í fjandanum er aðð´ér? Helduru að maður skilji eitthvað sem´ðú ert að seija!? Fokk, maður. Þið gamla fólk eruð alltaf að kvarta yfir öllu en svo getiði ekki einu sinni drullast til að svara eðlilega! Ég sá einhverja gamla kellingu í strætó um daginn sem trompaðist útaf því að einhver strákur borgaði tvöhundruð kall en ekki tvöhundrað og tuttugu! Og svo getiði ekki einu sinni svarað manni þegar maður biður ykkur um tuttugu krónur! Þið eruð ekkert nema djöfulsins iðjuleysingjar með alltof mikinn tíma til að nöldra. Akkuru geriði ekki öllum bara greiða og drepist snemma!?” Gamli maðurinn hafði heyrt nóg. Hann flýtti sér upp á fæturna og flýtti sér í burtu eins hratt og hann gat og stafurinn og mjöðmin leyfði honum. Hann gekk framhjá unglingunum, út á gangstéttina og stefndi umsvifalaust heim í litlu íbúðina sína í elliblokkinni, vonsvikinn og með þungt farg á sálartetrinu.
Strákarnir stóðu og horfðu á eftir þunglama farginu fjarlægjast. ,,Djöfull var þessi gaur steiktur, ma´r” sagði hljóðlátari pilturinn og hló. ,,Já maður, sjitt. Ég meina´ða, það ætti í alvörunni að taka sumt fólk út á næsta grasblett og bara skjóta´ða!” sagði hinn, á meðan strætóinn renndi inn að skýlinu og hurðin opnaðist með sínu vanalega hiss-hljóði.

Gamli maðurinn dó tveimur vikum seinna. Unglingspiltarnir, hinsvegar, erfðu jörðina og bjuggu á henni til dauðadags.
——————————