Ég get ekkert skrifað af viti lengur. Fingurnir hripa aðeins tilviljanakenndar hugsanir niður og vita ekki einusinni hvað þeir raunverulega meina með orðunum.
Ef orð hafa þá einhverja raunvervulega merkingu yfirleitt.
Ég kann ekki lengur að tjá mig.
En, ég meina, svona er lífið; skítur gerist. Og sumir… já, sumir fara ánþessað kveðja. Ánþessað skilja eftir minningu um kveðjustund.
Einmitt þannig var það. Ég man ekki einusinni hvenær við hittumst seinast. Ég man bara eftir að hafa verið á kafi í að lifa lífinu, og svo alltíeinu hringdi síminn. Ég tók upp tólið einsog kurteisri manneskju sæmir, sagði: ,,Halló?” og röddin í tólinu færði mér fréttirnar.
Þú varst dáin.

Fæðast, lifa, -búmm.

Dáin.

Það fyrsta sem mér kom í hug þegar ég áttaði mig almennilega á því að þú værir farin fyrir fullt og allt, var það að ég hefði átt að gera þetta betur. Gæta þín betur. Ég átti að vera meiri jálp, meiri stoð og stytta. Ég átti ekki að hugsa um minn skít, ég átti að hugsa um þinn skít. Auðvitað ætlaðist þú aldrei tilþess, en mig langaði virkilega tilþess. Afhverju gerði ég það ekki? Hversvegna var ég svona sjálfselsk? Þurfti ég endilega að vera svona blind?
Ljósið var of lengi að renna upp fyrir mér.
Mér finnst ég hafa misst allt. Það er ekki nema réttsvo að mig rámi eitthvað í það að hafa lifað góðu og skemmtilegu lífi, fullu af uppákomum, bæði slæmum og ánægjulegum. Og ég naut þeirra slæmu jafnt og hinna ánægjulegu. Því þú þarft að kynnast nóttinni áðuren þú áttar þig á því að það er dagur.
Í dag er nótt. Dagurinn var búinn um leiðog þú.

Ég bíð. Ég geri mér ekki grein fyrir eftir hverju, en ég er allavega í biðstöðu. Ég held að ég sé að bíða eftir að þú komir aftur og eigir heiminn með mér.
Já. Það er enn einn hluturinn sem ég get ekki lengur.

Því ég hef misst allt.

Allt.

Það er einsog ég hafi ekkert að segja lengur. Mér finnst ég ekki hafa rétt tilað hafa álit og skoðanir á málunum. Ég svara ekki lengur. Og ég spyr ekki lengur.
Þú fórst, og þú tókst öll orðin með þér.

Ég græt, og ég get ekkert við því gert. Tárin flæða stjónlaust framúr augunum í algjörri ringulreið, og þau vita ekki einusinni hvar þau eiga að lenda. Tungan grípur sum, önnur lenda í handarbakinu.
Ég finn svo til. Ég finn svo ógurlega til inní mér, að mér finnst ég vera að brotna saman. Rif fyrir rif, brotna inní sjálfa mig og hverfa. Og mér finnst ég eiga það skilið að líða svona.
Því sorginni fylgir sektarkennd.

Ef ég bara gæti hlaupið tilbaka, hlaupið svo hratt að ég fengi blöðrur á tærnar, og sótt þig. Snúið við og snúið öllum heiminum við. Hætt öllu ruglinu áðuren það byrjaði, og tekið af þér allar áhyggjurnar útaf því. Því þráttfyrir allan þinn skít hafðir þú líka áhyggjur af mínum skít. Og þú varst vinur. Björgunarbáturinn minn útá freyðandi hafinu. Huggandi öxl í óbærilegri vanlíðan. Höndin sem ávallt hélt í mína.
Vinur.
Ég vildi að ég hefði verið alvöru vinur. Staðið með þér, veitt þér fulla athygli og fylgst með hverri hreyfingu þinni, hverri hugsun.
En það er of seint núna.

Ef ég tryði á Guð bæði ég til hans núna. Ég bæði svo heitt og innilega og af svo heilum hug og heitu hjarta, að þakið flygi sennilega af húsinu og ég þeyttist upptil himna tilað standa við hlið þér og ganga með þér innum hliðið hans Lykla-Péturs. Vera þarna og halda í höndina á þér.
En ég trúi ekki á Guð. Ekki í annarri mynda allavega en þeirri merkingarlausu mynd sem hann er í mínum huga; úrelt hjálpartæki framagjarnra og valdaóða manna.
Já, Guð er líka dáinn.
Og kannski var hann aldrei til.

Með hverjum andardrætti hleð ég enn einum múrsteininum í múrvegginn sem óðum er að myndast í kringum mig. Hann er orðinn svo hár og þykkur að ekkert kemst lengur inn.
Ég er að reyna að gleyma þér.

Svo andtyggilegt sem það nú er.

Og kaldhæðnislegt.

Því þú ert allt sem ég hugsa um.

Allt.

Ekkert.