Næturlestin
Hitinn var að verða óbærilegur. Hanna greip af öflu afli í handafangið og rykkti glugganum niður. Hann opnaðist að hálfu og svalt næturloftið streymdi inn. Hanna stakk höfðinu út um gluggann (sem maður á víst ekki að gera, en hvað með það) og fann vindinn á andlitinu og hávaðann í eyrunum. Henni leið vel. Alveg ótrúlega vel. Hún hafði ekki fundið þessa sælutilfinningu í mörg ár, kannski jafnvel ekki síðan hún var krakki. En þá var nú allt svo létt. Maður sat bara í sandkassanum og leikti sér með fötu og skóflu. Það var í raun allt sem maður þurfti þá.
Vá. Þetta var skrýtið. Af hverju hafði henni ekki dottið þetta fyrr í hug? Að fara bara sísvona burt. Nei, þetta var ekki líkt henni. Hún hafði aðeins einu sinni farið í lengri tíma út fyrir Berlín. Henni fannst ekki gaman að ferðast. Eiginlega bara frekar leiðinlegt. Fattaði ekki fólkið sem var alltaf að fara til fjarlægra landa. Ekki fyrr en nú.
Hann hafði bara sagt: “Æi, veistu hvað, ég held að þetta gangi ekki lengur”. Og öll framtíðin sem Hanna trúði á hrundi til grunna eins og spilaborg. Hún hafði verið það heimsk að vera hrifin af Christian í heil tvö ár. Tvö ár. Það er langur tími. Og svo sagði hann henni bara upp. Eins og honum væri alveg sama. Sennilega var honum alveg sama.
Örvæntingafull hafði hún farið til Telmu, bestu vinkonu sinnar í mörg ár. Telma sagði “Æ-æ” og fór svo að tala um nýju vinnuna sína. Núna gæti hún grætt helmingi meira og eftir 3 mánuði gæti hún keypt sportbílinn sem henni hafði svo lengi dreymt um og svo lengi safnað fyrir. Hún talaði um bílinn, nýju fötin sem henni langaði svo í og um daginn hefði hún séð alveg rosalegar græjur, hún ætlaði sko að safna fyrir þeim um leið og hún hefði keypt bílinn. Eins og Hönnu væri ekki alveg sama. Það var alltaf sama ruglið í Telmu. Hún var eiginlega alveg ótrúlega sjálfselsk. Alltaf þetta sama bull um snyrtidót og græjur. Það taldist eiginlega til undantekninga að hún sagði eitthvað af viti. Hvernig hafði Hönnu tekist að fatta það ekki fyrr?
Hún fór heim, en þar var enginn. Það tilheyrði til undantekninga að einhver væri þar. Þetta heimili var eins og hótel, allir komu og fóru og mamma vaskaði stundum upp. Án þess að hugsa neitt tók Hanna nokkur epli og eitt jógúrt og sett það í handtöskuna sína. Svo hripaði hún “Farin burt” á miða og fór út. Hún stefndi á lestarstöðina.
- Hvert fer næsta útlandalest?
- Til Moskvu – sagði forviða afgreiðslustúlkan
- Einn miða til Moskvu þá.
Svakalega voru þessir lestarmiðar dýrir. En hvað með það. Hún flýtti sér út því lestin var að leggja af stað. Fékk sér sæti við gluggann. Vonandi myndi enginn koma inn. Hún þyrfti þá að semja einhverjar lygasögur um það hvert og af hverju hún væri að fara. Til hvers fór fólk almennt til Moskvu?
Lestin fór hratt áfram gegnum landbúnaðarhéruð Póllands. Það var farið að dimma, en það var samt ennþá mjög heitt, enda sumar. Af hverju hafði henni aldrei dottið þetta í hug fyrr? Öll vandamálin frá Berlín höfðu einhvern veginn enga merkingu lengur. Hún var alveg búin að gleyma Christian og Telmu þegar hún sofnaði loksins, hnipruð saman í horni lestarklefans. Á meðan hélt lestin áfram þeysireið sinni yfir Pólland og Hvíta-Rússland, í átt að hinum víðfeðmu og óendanlegu stéttum Rússlands.
Það var kominn hábjartur dagur þegar Hanna vaknaði. Hún leit út um gluggann og sá risastóran skóg. Hvar ætli ég sé – hugsaði hún? Eftir um það bil hálftíma stoppaði lestin á lítillri lestarstöð. En þá fattaði Hanna að hún skildi ekki letrið, stafirnir voru skrítnir og minntu helst á veggjakrot. Vagninn hennar var tómur en í þeim næsta var hópur af ungu fólki. Einn strákurinn spilaði á gítar en hinir sungu glaðlega undir. Þau sögðu eitthvað við Hönnu, en hún skildi það ekki. Hún reyndi að tala við þau á þýsku eða ensku en enginn virtist skilja neitt. Fyrir utan strákinn með gítarinn, hann sagði í sífellu “Welcome to Russia, yes yes, welcome to Russia!”. En það var því miður allt sem hann gat sagt á ensku. En hún vissi þó að hún var komin til Rússlands.
Stelpurnar buðu Hönnu að setjast með sér (eða það sýndist henni allavegana af táknmálinu) og allir héldu áfram að syngja. Flest af lögunum hafði Hanna aldrei heyrt fyrr, en inn á milli komu þó lög á ensku þar sem allir sungu með, en virtust þó ekki skilja neitt í textanum. Hanna skemmti sér konunglega og var virkilega leið þegar allur hópurinn fór út á næstu stöð.
Lestin hélt ótrauð áfram og vagninn sveiflaðist til hliðanna eins og hann ætlaði að leggjast útaf í næstu beygju. Landslagið fyrir utan breyttist ekkert að marki, til skiptis voru bara skógar, sveitir og akrar. Hanna fór að hugsa. Til hvers var hún eiginlega að fara alla leið til Moskvu? Væri þar eitthvað öðruvísi en hér? Gat hún bara ekki alveg eins farið út í næsta bæ?
Næsti bær reyndist vera skítug verksmiðjuborg með þúsundum skorsteina sem teygðu sig til himins eins og strangtrúaðir Hindúar. Hanna hoppaði út úr vagninum, leit í kringum sig og fékk loksins spurninguna sem fyrr eða seinna hlaut að koma: Hvað nú?
Hún labbaði rólega í átt að miðbænum. Þetta var reyndar ekkert svo ólíkt Berlín, kannski bara aðeins grárra. Já, og það var ómögulegt að skilja fólkið. Hvað var hún búin að koma sér í?
Hún settist á kaffihúsi og pantaði kaffi. Herbergið var fullt af allskonar fólki. Þeir fyrstu sem Hanna tók eftir voru tveir hommar sem sátu í einu horninu og héldust í hendur. Þeir voru greinilega ekki rússneskir, allavegana skáru þeir sig frá hinu fólkinu, og við hlið þeirra stóðu grænar ferðatöskur. Einn þeirra tók eftir Hönnu og kallaði til hennar: “Hey you girl, where you from? Germany? England?” Hanna var svo fegin að heyra loksins einhvern tala ensku að hún settist hjá mönnunum og byrjaði að tala við þá. Auðvitað á maður ekki að tala við ókunnuga, en það er þó skárra en að deyja úr einmanaleika, ekki satt?
Þeir reyndust heita Pierre og Adonis og vera frá Frakklandi. Þeir höfðu búið 3 mánuði hér í Starygrod (sem borgin hér víst) en voru nú að snúa aftur heim til Parísar. Þeir sögðu Hönnu að drekka ekki vatn úr krananum og passa sig á vasaþjófum.
Hanna sagði þeim frá því hvað hún væri að gera hér (hún sagðist reyndar vera flutt að heiman en ekki strokið þaðan daginn áður) og að nú ætti hún eiginlega ekki neitt heimili, og spurði þá hvort þeir vissu um eitthvað ódýrt gistihús. Adonis benti henni á nokkur.
Tíminn leið hratt og brátt þurftu Pierre og Adonis að leggja af stað. Þeir kvöddu Hönnu og brátt sat hún aftur ein og drakk restina af kaffinu sínu. En þá sá hún hvar Pierre snéri sér við og hljóp aftur upp götuna. Hann stansaði hjá henni og rétti henni einhverja lykla. Hanna skildi ekkert hvað var að gerast en Pierre sagði másandi: “Íbúðin okkar. Við náðum aldrei að selja hana. Ætluðum alltaf að selja hana á síðustu stundu en það gekk ekki. Þú mátt eiga hana.” Og svo var hann farinn.
Hanna stóð eftir gapandi með tvo lykla í hendinni. Við þá var fast heimilisfang. Hefðu þeir virkilega skilið íbúðina sína eftir handa henni? Eða var þetta einhver brandari?
Hún spurði roskna konu um heimilisfangið. Konan benti henni á tvær brúnar blokkir skammt frá. Það sakaði ekkert að líta á þær, er það nokkuð?
Íbúðin reyndist vera á efstu hæð af tíu og lyftan virkaði ekki. Ekkert skrítið að það tókst ekki að selja íbúð á svona stað. Númer 24a. Það væri sennilega þarna við endann á ganginum. Lykillinn passaði í skrána og Hanna steig inní dimmt, tómt herbergi. Inní því var ekkert nema lítil kommóða og á henni stóð tómur blómavasi. Í herberginu við hliðina var stórt rúm og ekkert meira. Þeir hefðu greinilega náð að selja húsgögnin. Eða kannski áttu þeir ekkert meira. Bara þessa litlu, notalegu íbúð sem þeir gáfu henni.
Átti hún hana í raun og veru? Bara rétt svo nýorðin 18 ára og strax komin með eigin íbúð í hjarta Rússlands. Ef einhver hefði sagt henni fyrir tveim dögum að svona færi hefði hún aldrei trúað því. En svona var þetta nú.
Hanna leit út um gluggan og sá lítinn ósleginn blett fyrir neðan blokkina. Á honum sýndist vaxa þónokkuð af blómum svo Hanna ákváð að fara niður og tína nokkur blóm í blómavasann á kommóðunni. Því að er til eitthvað einmanalegra en tómur blómavasi?
Hún kom aftur upp með fullt fang af gleym-mér-ei’um. Þær voru of margar til að komast fyrir í vasanum svo að hún náði í glös í eldhúsinu (sem var lítið en þó smekklegt) og setti blómin í mörg glös um alla íbúðina. Henni fannst allt lifna við.
Hún fór svo inn í hitt herbergið, lagðist á rúmið og sofnaði.