Tuttugu ár! Ja, ætli það sé ekki óhætt að segja að fyrstu fimm árin hafi verið nokkuð
bærileg. En Guð einn veit að þau fimmtán síðari voru bara einfaldlega ekki til að halda út.
Hann vóg kostina og gallanum í huganum. Niðurstaðan var ótvíræð. Fíll í línudansi hefði
verið nær því að ná jafnvægi. Þeð eina sem hann gat fundið til að tylla á vogaskál
kostanna voru kjötbollurnar, mikið ósköp gat hún gert góðar kjötbollur.
Hann hafði fengið þessa furðulegu flugu í höfuðið á laugardagsmorgni. Þetta var alls
ekkert dramatískt andartak uppljómunar með suðandi flugu og sólargeislum inn um hálfopinn
glugga. Það getur svo sem vel verið að sólin hafi skynið, glugginn hafi verið hálfopinn
og einhvers staðar hefur sennilega verið fluga að suða. En hann tók ekkert eftir því. Hann
var bara að háma í sig samloku og þamba mjólk þegar hann tók allt í einu eftir
því að hans ástkæra eiginkona þandi raddböndin honum til heiðurs. Megininntak ræðunnar
voru hans umgengnisvenjur. Smáatriðin fóru framhjá honum, en hann hafði heyrt þetta svo
oft áður að hann gat giskað í eyðurnar. Minnti á krossgátu, hann hafði aldrei getað þolað krossgátur.
Það var á því andartaki sem hún sneri tali sínu að óhreinu nærbuxunum á
baðgólfinu sem hann hugsaði með sér:“ég kála henni”. Það var ekki flóknara en það. Blessaðar
kjötbollurnar voru nú ekki svo dýrðlegar að hann væri tilbúinn að fórna frelsi nærbuxna sinna fyrir þær.
Síður en svo, þá fannst honum þetta alveg frábær fluga sem hafði setst að í huga hans. Af hverju hafði
honum aldrei dottið þetta í hug fyrr. Binda bara enda á hennar gleðisnauðu tilvist. Líklega mundu
laganna verðir ekki einu sinna ómaka sig við að heimsækja vettvang glæpsins.
Mánuður…
Síðasta mánuði hafði hann varið í að gera allt sem ekki er vænst í hjónabandi. Hann hélt
framhjá, hann sullaði bjór í sófann og síðast en ekki síst var komið vænt fjall af nærbuxum
á baðgólfið. Dýrð og ljómi hins fjálsa manns hafði leikið um hann. En hann hafði bara fengið
smjörþefinn og þeim ágæta þef hafði að sjálfsögðu fylgt sem aldrei fyrr söngur konu hans. Það
var að þessum mánuði loknum sem hann var fullkomlega ákveðinn í að losa sig úr fjörtunum. Af því
tilefni fjárfesti hann í hinu ágætasta skotvopni. Nettu og meðfærilegu.
Þegar dagur uppgjörsins rann upp fylltist hann allt í einu einhverjum ljóðrænum anda.
Hann, sem hafði aldrei trúað á neitt annað en raunveruleikann, fór að sjá fyrirboða í öllu. Hann
tók eftir geislum sólarinnar inn um opinn gluggann og hann heyrði dásamlegt suðið í flugunni.
Þegar ský huldi sólina, glugginn skelltist aftur og kötturinn klófesti fluguna fannst honum það
greinilegt merki um að dauðinn mundi sækja þetta heimili heim. En ekki strax. Fyrst ætlaði hann
að væta sófann upp úr öli og sletta smá úr klaufunum með viðhaldinu…
Hurðin skall á hæla hans. Engin merki um uppgjöf, reyndar vottaði fyrir köldum svita í lófunum
en þeir dropar vottuðu ekki um neitt annað en eftirvæntingu manns sem sér fram á að endurheimta
frelsi sitt eftir tuttugu ár í svartholinu. Það hlakkaði í honum þegar hann fann fyrir köldu
stálinu í hendi sér. Hann var kötturinn og hin ræðuglaða eiginkona hans var suðandi flugan, hann
var skýið og hún sólin, hún var glugginn sem vindurinn skellti aftur. Hinar tíðu bylgjur hrópanna
í henni skullu á hljóðhimnum hans. Bölvuð, hún hlaut að vera inni í stofu. Hann greindi ekki
ræðuna í heild en hann meðtók orð eins og asni, sóði, bjór, afborganir og sófi. Þau höfðu ekki
minnstu áhrif á hann.
Þegar hann kom inn í vistarveruna þar sem hin feiga stóð með tusku í hendinni tók hann
strikið að fórnarlambið og kyssti hana á ennið. Hún veitti honum vænan kinnhest. Hann skellti upp
úr. Svo reif hann upp fágætt skotvopnið og beindi að útgangspunkti allra þeirra meinyrða sem höfðu
verið tileinkuð honum. Þvílík gnótt, djöfulinum hafði sennilega ekki einu sinni verið tileinkaðar
slíkar ræður sem þessi kona hafði sett saman honum sjálfum til heiðurs. Honum barst til eyrna óp.
Andlit konunnar, sem hjúskaparheitin bundu við hann, afmyndaðist í gráti. Tár ruddu sér braut úr
augnkrókunum, en þetta voru eigingjörn tár. Saltvatn sjálfsvorkunnarinnar. Samskonar tár og barn
neyðir fram þegar það fær ekki vilja sínum framgengt. Skotið hljóp af. Hann hafði frelsað
heiminn undan böli ófreskjunnar.
Hann var frjáls, frjáls sem fuglinn sem nú mundi fljúga á braut. En fuglar verða líka
hungaraðir og þess vegna var fyrsta flugferðin farin inn í eldhús. Dásamlegt, kellan hafði verið
að malla kjötbollur. Hann lagði frá sér verkfæri frelsisins, sótti sér plastbox og fyllti af
ljúffengum kjötbollum. Svo skundaði hann út. Hugur og hjarta voru frjáls og maginn sá fram á
væna uppfyllingu.
Frelsishetjan gekk fram hjá sjoppu. Mmmmm… ljúfur ilmur endurminninganna lék um vit hans, hvað
var eiginlega langt síðan hann hafði fengið pylsu? Hann hafði alltaf verið veikur fyrir pylsum.
Hann rifjaði það upp með sjálfum sér að hann hafði oft komið í þessa sjoppu þegar hann var yngri og
hjónabandsfjötrarnir höfðu ekki hert eins fast að honum og þeir gerðu undir lokin. Ekkert virtist
liggja beinna við en að fá sér pylsu til að fagna nýfengri frelsun. Þegar hann gekk inn í búðina með
plastboxið undir hendinni fannst honum allt í einu eins og hann hefði gleymt einhverju. Hann fór
yfir ferlið með sjálfum sér.Þetta var nú ekki flókið, hann kom heim, inn í stofu, skaut sína ástkæru,
fékk sér nesti og fór.Nei, hann hafði engu gleymt. Þetta var bara einhver vitleysa í honum. Tilfinningin
hafði samt tekið sér bólfestu í honum og hún þvertók fyrir að yfirgefa hann.
Hann sat á bekk fyrir utan sjoppuna og át eina með öllu þegar hann fór að leiða hugann að
þeirri fáránlegu hugsun hvort til væri framhaldslíf. Hann vonaði sannarlega að svo væri ekki,
allra þeirra dauðu vegna. Hann fór jafnvel að fá samviskubit yfir að hafa sent hana þangað yfir.
Æi hún mundi örugglega drukkna á leiðinni yfir móðuna miklu, hann trúði ekki að henni yrði hleypt inn
í nokkra aðra tilveru en þessa sem verið var að henda henni út úr. Hugsanir hans voru saxaðar í
búta af skerandi hljóði sem barst honum til eyrna. Honum rann kalt vatn milli skinns og hörunds.
Hún var afturgengin…
Tveir dagar…
Ekki hafði hún verið framkallari hljóðsins í eiginlegum skilningi. En það má segja að það
hafi verið fulltrúar hennar á þessu tilverustigi. Nú var hann viss um að yfirvaldið var knúið áfram
af hinu illa, fyrst þeir tóku hennar hagsmuni fram yfir hans. Jæja, kannksi hafði þetta verið
heimskulegt af honum. Fjötrana hafði hann miklað fyrir sér, gerði járnkeðju úr tvinnakefli.
Hann hefði kannski átt að láta pappírana hafa forganga fram yfir stálið. Skilnaður. Það var orðið
sem hann hafði gleymt laugardaginn örlagaríka, hann hafði sennilega skolað því niður með mjólkinni.
Hann hefði í það minnsta getað drullast til að taka fjandans byssuna með sér þegar hann yfirgaf íbúðina.
Geðveiki… nei, hann var ekki viss. Af hverju ætti hann að vera gjaldgengur í heim hinna
andlega vanheilu. Stundarbrjálæði vegna langvarandi hávaðamengunar væri nær lagi. Lögfræðingurinn
gat ekki bent honum á neina haldbæra lausn. Þetta var sjálfskaparvíti. Að undanförnu þegar hann
hugsaði um gjörðir sínar botnaði hann ekkert í sjálfum sér. Hvað í ósköpunum gekk að honum. Hann
starði á hvítan vegginn fyrir framan sig. Þá rann upp fyrir honum ljós, hann sjúkdómsgreindi sig.
Þetta hlaut að vera fiðringurinn sem kenndur er við hinn gráa lit sem hafði gert svona harkalega
innreið í líf hans. Það lá við að hann færi að hlæja. Skildi kviðdómur gleypa við þeirri afsökun.
Miðaldra maður með gráa fiðringinn sem vill fá að henda nærbuxunum á baðgólfið?