Ég veltist um í rúminu. Eða kannski voru það bara hugsanirnar sem veltust um í hausnum mínum sem gerðu mig svona sjóveika. Ég vissi það ekki. Ég gat ekki hent reiður á nema örfáum hlutum þessa dagana. Kannski var þetta bara hugurinn minn að reyna að finna sinn stað í mér. Ég vissi það ekki. Andskotinn, nei, ég bara vissi það ekki. En hvað sem það nú var, hélt það fyrir mér vöku og hafði gert margar nætur, marga daga, hvað það nú var lengi sem ég hafði legið hér.
Ég hafði hugsað. Hugsað um svo ótal margt. Ég nýtti tímann, en samt hafði ég ekki gert neitt í marga daga. En ég þurfti þennan tíma; þurfti hann til að hugsa, spá og spekúlera en það sem var farið að angra mig núna var, að ég komst ekki að neinni niðurstöðu.
Mig vantaði lausn. Kannski ekki beina LAUSN svona líkt og má finna að stærðfræðidæmum, en eitthvað sem gat sætt mig við mig, eitthvað til að róa hugann, eitthvað sem ég gat haldið mér í þegar erfitt yrði.
Það var það sem mig hafði alltaf vantað. Stöðugleika. Ég lét allt of margt slá mig út af laginu, skemma fyrir mér. Samt reyndi ég alltaf að láta ekkert hagga mér. Og ég sýndist líka alltaf þannig. Að utan það er að segja. Það voru bara svo fáir sem vissu hvað í mér braust, af hverju ég var eins og ég var. Það sem dró mig samt lengst niður, svo óralangt niður í dýpi sem ég vissi ekki að væri til, var samt sú hugsun að ég vissi það ekki heldur sjálf. Ég hafði enga góða skýringu á því sem hafði vafist fyrir öllu fólki sem ég þekkti; hversvegna var ég eins og ég var?
Ég vissi það ekki. Ekki það heldur. Og ég vissi ekki heldur hvort það væri nokkuð vit í að vita það. Ég bara var svona. Ekkert meira til í því fannst mér, ég var eins og ég var, og aðrir eins og þeir voru. Öll vorum við nú ólík. En það var eitthvað við mig. Eitthvað sem allir sem voru ekki líkir mér gátu ekki sætt sig við. Og hvað gerði ég svosem í því? Ekkert. Ég gat auðvitað ekkert breytt mér.
Ég skammaði alltaf sjálfa mig þegar ég rak hugann í þá niðurstöðu að kannski yrði ég að breyta mér. Ég var alltaf komin svo nálægt, svo ósköp nálægt því að rísa upp úr myrkrinu og breyta bara mér. Það gat nú varla verið svo erfitt. En ég dró sjálfa mig alltaf aftur niður, líkt og fíkill sóttist ég í myrkrið mitt.. Dró mig niður og sagði mér þetta væri della. Ég færi ekkert að breyta mér. Aðrir yrðu bara að sætta sig við mig. Ég væri bara ég og þyrfti bara að finna það fólk sem vildi MIG.
Þetta kostaði mig bara svo mikið. Kostaði mig svefnlausar nætur og daga uppi í rúmi, kostaði mig allt fólkið í kringum mig. Og ég fór aftur að efast; var það þess virði, bara til að vera ég?