Hormónasukk
Hormónasukk
Smásaga eftir Örn H. Bjarnason
Það var komið vor, flessi árstími, sem gefur fyrirheit um svo margt, en efnir aðeins fátt eitt. Veturinn hafði verið langur fannst Geir, óralangur, kærastan í London, “að fullnuma sig,” eins og mamma hennar orðaði það, læra tungumálið eða guð má vita hvað, en hann hér heima og ekkert nema póstþjónustan að flytja skilaboð á milli og viðhalda ástinni.
Prófin í Háskólanum voru nú framundan hjá honum og hann var ílla undir þau búin og í gærmorgun hafði hann fest lítinn miða á dyrnar hjá sér.
“Farið fjandans til,” stóð á miðanum, boðskapur sem drykkjufélagar hans á stúdentagarðinum ættu að geta meðtekið, jafnvel þótt höfuðskelin á þeim sumum væri kannski helst til þykk.
Í allan dag hafði hann grúft sig yfir skólabækurnar og nú var hann kominn með sting í bakið. Best að viðra sig aðeins, hugsaði hann, og kaupa bréf af píputóbaki í leiðinni.
Veðrið var gott og hann tók stóran sveig og lesning dagsins settist til í hausnum á honum dálítið eins og grugg í glasi. Hann gekk hringinn í kringum tjörnina og svo áfram, þangað til hann var kominn í eitt af þessum hverfum, þar sem grindverkin eru vel máluð og skarkali borgarinnar aðeins óljós ómur í fjarska. Kona með bréfpoka undir hendinni kom út úr húsi og utar í götunni voru krakkar að leika sér. Konan leit stíft niður fyrir sig og þrestirnir sungu í görðunum og hún var í háhæla skóm. Sólin var í þann veginn að hverfa á bak við húsin og allt í einu heyrðist dálítill smellur…bang og korktappi þaut upp úr bréfpokanum, sem konan var með, ósköp meinlaust lítið tappakríli og hafnaði rétt við tærnar á honum. Konunni brá sýnilega og hún varð eldrauð í framan og Geir sýndist hún vera ögn kennd. Hann beygði sig eftir tappanum og þau horfðu hvort á annað. Flöskustútur gægðist úr pokaopinu og augnaráð þeirra rambaði línudans einhvers staðar mitt á milli undrunar og hláturs.
“Kampavín?” sagði hann og gekk til hennar.
“Nei, miklu betra,” sagði konan og hann setti tappann í flöskuna. Hún brosti og roðinn seig úr andliti hennar og fór allur í varirnar.
“Verst hvað húsin sjá vel,” sagði Geir, “ella hefðirðu getað gefið mér smá bragð.” Auðvitað meinti hann ekkert með þessu, sagði þetta bara til að reyna að gera spaug úr öllu saman. En orð hans virtust ekki falla í góðan jarðveg og brosið hvarf og konan leit á hann eins og hann væri köttur úti í garði eða morðingi eða þjófur að taka budduna hennar.
“Æ, fyrirgefðu,” sagði hann og ætlaði að lyppast í burtu. En þá kom brosið aftur.
“Ég bý hérna rétt hjá,” sagði konan.
“Það er fína veðrið,” sagði Geir.
“Ég bý í þessu húsi þarna,” sagði hún, “þessu með græna þakinu.” Svo var hún farin, en skildi brosið eftir í loftinu og það angaði sterklega af hinu forboðna og þessu “miklu betra,” sem hún hafði verið með í flöskunni.
Geir hugsaði ofan í veskið sitt. Þar var mynd af kærustunni sem var í London og hann óskaði þess innilega, að hún hefði aldrei farið til útlanda. Þá væri hann ekki staddur hér í þessum náttúruhamförum sem verða um það bil þegar góðum ásetningi slær yfir í ranghverfu sína. Honum leið ekki vel. Æ, skítt veri með það, hugsaði hann svo. Hún var í London og hann hér á þessari fáránlegu gangstétt.
“Í húsinu með græna þakinu,” hafði konan sagt og kvöldið var framundan og hann hafði verið duglegur að lesa í dag. Og bakverkurinn, varla myndi hann aukast þótt hann heilsaði upp á konuna. Hann gekk yfir götuna og á leiðinni hugsaði hann um heimilisfeðurna í þessu hverfi, hvort þeir væru ekki örugglega geðprúðir eða hvort þeir væru langferðabílstjórar eða sjómenn. Nú kannski var konan ógift og þá var allt í stakasta lagi.
Hann gekk upp tröppurnar og hringdi dyrabjöllunni. Það var opnað nær samstundis og konan var komin úr kápunni og hún var öll eitthvað svo mjúk að sjá og hún var kennd og varir hennar voru rjóðar.
“Gjörðu svo vel,” sagði hún ósköp blátt áfram rétt eins og hann væri handverksmaður kominn til að ditta að einhverju. Hún bauð honum inn í stofu og þetta var snoturt heimili. Tveir kanarífuglar voru þarna upp á vegg saumaðir í teppi og það var saumað búr utan um þá. Svo voru fuglar í garðinum úti fyrir og konan kom með tvö glös og ísmola í skál og vatn í könnu.
“Vodka eða Skota?” sagði hún.
“Skota,” sagði hann og fór að svipast um eftir krökkum eða einhverju öðru lauslegu, sem gæti gefið til kynna hver staða konunnar væri og þá um leið hver staða hans væri.
“Ertu skrifstofumaður?” spurði hún og virti hann fyrir sér, ekki þó áberandi, heldur svona eins og kvenfólk gerir stundum, út undan sér og allt í góðu.
“Nei, ég er í Háskólanum.”
“Það hlaut að vera, þú ert eitthvað svo fölur og allt öðruvísi en maðurinn minn fyrrverandi.”
“Fyrrverandi?” sagði Geir og tók í eyrnarsnepilinn til þess að leyna gleði sinni.
“Já, við erum skilin,” sagði hún og þau lyftu glösum. Það er nú bærilegt, hugsaði hann. Strákarnir í Háskólanum höfðu sagt honum ýmislegt um fráskildar konur og sumt af því líkaði honum nokkuð vel.
“Er langt síðan þið skilduð?” spurði hann og þau stóðu mjög nærri hvort öðru og það var á mörkunum að hann sæi hvort glasið var hans. Þarna var sófi og þau settust nú bæði samtímis og glösin þeirra námu næstum hvort við annað. Í sófanum voru margir púðar og þeir þrýstu þeim enn nær hvort öðru. Hún dró pilsið niður fyrir hnén og lést vera siðprúð og það skrjáfaði í sokkabuxum og pilsfaldurinn var óðara kominn aftur á sama stað.
“Er langt síðan…” sagði Geir, en komst ekki lengra því að nú opnuðust dyrnar og lítill snáði stóð í gættinni.
“Þú átt að vera úti,” sagði konan og strákurinn var ósvífinn til munnsins og hann ansaði engu. Fyrir neðan nefið voru óhreinindi eða leifar af vínarbrauði eða eitthvað.
“Hvað ert þú að gera hér?” sagði hann við Geir og hann var hortugur á svipinn.
“Svona, væni minn,” sagði konan, “heilsaðu góða manninum.”
“Þú ert ekki pabbi minn,” sagði strákurinn.
“Heilsaðu nú fallega,” sagði konan.
“Pabbi minn keyrir sendiferðabíl og hann er miklu stærri en þú og þú ert ekki pabbi minn.” sagði strákurinn.
“Gefðu honum pínulítinn aur,” hvíslaði konan og hnippti í Geir. Hann setti frá sér glasið og stóð upp. Gefa þessum óþekktarormi aur?…Nei, hann hélt nú síður. Auk þess átti hann ekki nema rétt fyrir tóbaksbréfinu.
“Láttu hann fá hundrað krónur,” sagði konan og strákurinn horfði á þau eins og stífasti innheimtumaður.
Geir varð hugsað út á stúdentagarð og skelfing var allt eitthvað miklu auðveldara í bókunum, sem biðu hans þar, miklu auðveldara en hér úti í lífinu. Hann leit á konuna og sá, að það var ekki undankomu auðið.
“Þú ert ekki pabbi minn,” sagði strákurinn, þegar hann var búinn að hrifsa til sín seðilinn. Svo var hann farinn og hann skildi eftir mold á teppinu.
“Ja, þessir krakkar,” sagði konan og reyndi að flissa strákinn eitthvað langt í burtu, lengra en hann var þegar kominn.
“Hvað er langt síðan þú skildir?” sagði Geir.
“Hann er líkur pabba sínum,” sagði konan.
“Þú og maðurinn þinn, hvað er langt síðan þið skilduð?”
“Hálfur mánuður,” sagði konan og lagaði á sér hárið, “ég meina formlega,” bætti hún við, “en það eru þrjár vikur síðan hann fór með draslið sitt.”
“Þrár vikur?” hugsaði Geir og það voru engin verksummerki þess, að karlmaður hefði nokkru sinni stigið fæti í þetta hús, ekki einu sinni pípa í öskubakka, ekkert nema strákormurinn með skítugan munninn fyrir neðan nefið.
Rétt áðan hafði Geir langað að kyssa konuna eða eitthvað, en nú var hann allur tættur og á báðum áttum. Auðvitað var hún falleg og strákurinn var áreiðanlega kominn út í sjoppu og þau voru þarna tvö ein. En einhvern veginn tókst honum ekki að slappa nógu vel af.
“Maðurinn þinn fyrrverandi,” sagði hann, “kemur hann stundum í heimsókn?”
“Já, stundum.”
“Og er hann með lykil að útidyrunum?”
“Nei,” sagði hún undrandi.
“Hvernig veistu það?”
“Vertu ekki svona nervös,” sagði hún.
“Hann er þá ekki með lykil?”
“Nei, heldurðu að ég sé ekki búin að láta skipta um skrá,” sagði konan, “og vertu ekki svona nervös.”
“Ég er ekkert nervös,” sagði Geir og kyssti hana, “ekkert nervös,” og varir hennar voru eins og sápa í baðkari, blautar og erfitt að hemja sig á þeim.
“Ekkert nervös,” sagði hann, en þá heyrðist allt í einu þrusk fyrir utan og þau hrukku felmtri slegin hvort frá öðru. Á altanbríkinni komu tvær stórar hendur í ljós og þau héldu bæði niðri í sér andanum. Svo kom fótur og síðan andlit.
“Guð minn góður,” hvíslaði konan, “þetta er hann.”
“Hann hver?”
“Maðurinn minn fyrrverandi.” sagði hún og flýtti sér að fela glösin. Maðurinn var nú kominn upp á svalirnar og Geir sá að krækjan á altanhurðinni var biluð.
“Hvað ert þú að vilja hér?” sagði konan og maðurinn var nú kominn inn í stofu.
“Hver er þetta eiginlega?” spurði hann og benti á Geir.
“Ég veit það ekki,” sagði konan, “ég meina hann er að selja alfræðibækur eða eitthvað.”
“Alfræðibækur?” át Geir upp eftir henni.
“Þið voruð að kyssast,” sagði maðurinn, “ég sá það utan úr garði.”
“Við að kyssast,” sagði konan, en svo leit hún allt í einu ásakandi á Geir og síðan á manninn aftur. “Já, hvað heldurðu að hafi gerst? Ég bauð honum í mesta sakleysi inn og svo réðist hann allt í einu á mig.”
“Réðist á þig?” sagði maðurinn og Geir sá hvernig æðarnar við gagnaugun tútnuðu út og þær minntu á blátt prjónagarn.
“Nú-já,” bætti hann við, “nauðgaraskratti.”
“Þetta er einhver misskilningur,” sagði Geir.
“Nauðgari,” sagði maðurinn.
“Ég hitti þessa konu hér úti á götu,” sagði Geir, “og setti tappa í flösku, sem hún var með.”
“Tappa í flösku?…Nú, hann er brjálaður í þokkabót,” sagði maðurinn og Geir hörfaði inn í hina stofuna. Þeir stóðu nú sitt hvoru megin við stórt borðstofuborð og maðurinn kreppti hnefana um stólbak. Hnefarnir minntu á tvo boxhanska og Geir fór að svipast um eftir einhverju barefli, lausum stólfæti eða kertastjaka.
“Ég skal drepa þig,” sagði maðurinn og hann var á svipinn eins og hann væri að undirbúa sig undir að taka upp píanó eða ísskáp.
“Stilltu þig,” sagði konan.
“Ég skal drepa hann,” sagði maðurinn.
“Ekki núna væni minn,” sagði konan, “hann Einsi litli getur komið á hverri stundu.”
“Ég skal drepa þig,” sagði maðurinn og útidyrnar voru óralangt í burtu. Geir sá í hendi sér, að það var ekkert merarhjarta í þessum sendibílstjóra og hann þurfti í próf og mátti ekki við neinu hnjaski. Þess vegna voru nú góð ráð dýr og hann tók undir sig stökk inn í betri stofuna og í leiðinni skellti hann um standlampa. Þetta skyldi þó altént verða hindrunarhlaup um íbúðina. Hann heyrði hávaða að baki sér og þegar hann leit við sá hann, að sendibílstjórinn hafði dottið um lampann og hann nuddaði á sér hausinn eins og hann hefði skollið utan í eitthvað. Hann lá þarna kylliflatur á gólfinu og minnti á hrosshúð svona eins og fólk hefur til skrauts inni hjá sér og konan fór að stumra yfir honum, kyssti hann allan, kyssti æðasprungið burðarmannsandlit hans. Maðurinn settist upp til hálfs og bankaði sig í höfuðið.
“Ég skal…ég skal,” umlaði hann og hann var sýnilega hálf vankaður.
“Þú skalt fá lykil að nýju skránni,” heyrði Geir að konan sagði og hann flýtti sér út. Hann hljóp niður tröppurnar og þarna á gangstéttinni fyrir framan húsið var strákurinn að borða gott fyrir aurana hans.
“Ertu að fara?” spurði hann spotskur á svipinn.
“Þegiðu,” sagði Geir.
“Finnst þér pabbi ekki sterkur?” spurði strákurinn.
“Snáfaðu inn til þín.”
“Ég hringdi líka í hann úr sjoppunni,” sagði strákurinn, “og bað hann að koma og lemja þig.”
Geir gekk eins hratt og hann gat án þess að hlaupa og hann heyrði strákinn kalla á eftir sér.
“Já, farðu burtu úr götunni minni,” kallaði strákurinn, “og pabbi er sterkastur á öllu Íslandi.” Geir stefndi í áttina að stúdentagarðinum og nú átti hann ekki fyrir píputóbaki lengur og skelfing hlakkaði hann til, þegar kærastan kæmi aftur frá London.